Umræða fréttir

Smásjáin: Nýtt félag lækna

Eftir stofnun samtakanna Nordisk Selskap om Medisinsk Humor (NSMH) 16. janúar 1999 varð til Fróndeild NSMH með formanni, varaformanni og stöðugt stækkandi hópi félagsmanna. Enginn þeirra sem skráði sig í samtökin var beittur nokkurs konar þvingunum til að vera með. Á aðalfundi NSMH í mars 2002 var lögum samtakanna breytt á þann veg að þau voru gerð að regnhlífarsamtökum fyrir sjálfstætt starfandi félög um lækningahúmor í hverju norrænu landi fyrir sig með eigin stjórn, lög og fjárhag. Í samræmi við þessa breytingu var Hið íslenska félag um lækningahúmor (HÍFL) (sem gárungarnir hafa nefnt Læknar án fýlu, sbr. "Læknar án tóbaks" og "Læknar án landamæra") stofnað þann 31. október 2002 að viðstöddum Stein Tyrdal forseta NSMH og Astrid eiginkonu hans. Stjórn félagsins skipa: Bjarni Jónasson (formaður), Pétur Ingvi Pétursson (varaformaður) og Jóhann Heiðar Jóhannsson (meðstjórnandi).

Í 1. grein laga félagsins segir "Hið íslenska félag um lækningahúmor er hópefli lækna á Íslandi um lækningatengt skop". Um tilgang félagsins segir í 2. grein "a) að nota kímni innan heilbrigðiskerfisins til þess að laða fram leikandi og læknandi krafta lífsgleðinnar, b) að efla skopskyn til að bæta samband félagsmanna sín í milli og við aðra, c) að stuðla að vísindastarfsemi um skop, einkum hvað varðar þýðingu skops fyrir heilsuna, d) að nota skop til að bæta heilbrigði fólks, heilbrigðisfræðslu og meðferð sjúklinga, e) að nota skop sem leið til að skilja sjálfan sig betur, bæta samskipti við aðra, auka lífsgleði og koma í veg fyrir útbruna, f) að eiga ánægjustund með sjálfum sér eða kollegunum og vinna þannig gegn því að menn taki sjálfa sig of hátíðlega."

Sérhver læknir sem vinnur með lækningahúmor getur orðið félagi, en félagar eru nú 45 talsins. Áhugasömum er bent á að hafa samband við einhvern stjórnarmanna

bjarnijonas@simnet.is

petur@hak.ak.is

johann hj@landspitali.is

Tengd skjöl
Þetta vefsvæði byggir á Eplica