Umræða fréttir
Af sjónarhóli stjórnar LÍ. Múlbundnir ríkisstarfsmenn?
Umræðuefni málþingsins er tjáningarfrelsi og faglegt sjálfstæði háskólamanna. Við undirbúning þingsins var hugmyndin sú að við ræddum þann rétt sem talinn er gilda í landinu og varinn er af 73. gr. stjórnarskrárinnar, og þær takmarkanir sem háskólamenn og opinberir starfsmenn þurfa hugsanlega að sætta sig við á þeim rétti.Um þetta hefur umboðsmaður Alþingis meðal annars sagt:
Almennt má því ganga út frá því að sé ríkisstarfsmanni heimilt að tjá tilteknar skoðanir með ákveðnum hætti sé ólögmætt að beita hann stjórnsýsluviðurlögum eins og áminningu með tilvísun til þeirrar tjáningar. Þær skorður sem Alþingi eru settar af stjórnarskrá gilda einnig fyrir stjórnvöld og við setningu stjórnvaldsfyrirmæla og töku stjórnvaldsákvarðana.
Nú hafa þau tíðindi gerst að ríkisstjórn Íslands hefur ákveðið að létta þessum stjórnarskrárbundnu skorðum af stjórnendum hins opinbera þegar kemur að starfsmannamálum. Þetta gerir ríkisstjórnin með því að ætla að afnema skyldu til að gefa starfsmönnum kost á að tjá sig um ávirðingar í sinn garð og vera áminntir ef rök standa til þess. Verði þær breytingar á lögum sem lagt er til þurfa stjórnendur ekki að gefa upp ástæður uppsagnar né heldur fá starfsmenn tækifæri til að bæta ráð sitt. Þannig geta stjórnendur komist hjá því að virkja þá vernd sem felst í tjáningarfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar ef tjáning er hin raunverulega ástæða uppsagnar.
Nú kann að vera að einhverjir hugsi sem svo að þessu sé eins háttað á hinum almenna vinnumarkaði. Því sé það rétt hjá fjármálaráðherra að í því lagafrumvarpi sem hann hefur lagt fram felist það eitt að verið sé að leggja það til að um starfsmenn ríkisins gildi sömu reglur um uppsagnir og ráðningar og fólk almennt í landinu.
Eðlismunur
Þessa fullyrðingu þarf að skoða nánar því þeir sem halda slíku fram gera sér ekki grein fyrir þeim eðlismun sem er á almennum markaði og opinberum. Annars vegar er um það að ræða að allir starfsmenn, jafnt almennir sem opinberir, hafa sem þegnar landsins rétt til að tjá sig um meðferð opinbers valds og fjármuna. Það eru hins vegar eingöngu opinberir starfsmenn sem búa við það að taki þeir þátt í þjóðfélagslegri umræðu um meðferð opinbers valds og fjármuna þá gætu þeir verið að fjalla um vinnuveitenda sinn - eða besta vin hans. Mislíki vinnuveitandanum skoðanir starfsmannsins þá getur hann, án frekari útskýringa verði frumvarpið að lögum, sagt starfsmanninum upp.
Hins vegar er rétt að skoða nánar hvort breytingin, nái hún fram að ganga, sé raunverulega til þess fallin að jafna réttarstöðu starfsmanna ríkisins og fólks almennt í landinu hvað varðar uppsagnir og ráðningar. Í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins eru lagðar mun meiri skyldur á opinbera starfsmenn en almennt tíðkast á almenna markaðinum. Réttindin eru að sama skapi ekki meiri nema að opinberum starfsmönnum er tryggð ákveðin formfesta og vernd gegn ómálefnalegum uppsögnum. Skyldurnar eru meðal annars þær að opinberum starfsmönnum er lögskylt að rækja starf sitt vel, sinna leiðbeiningaskyldu, lögskylt að vinna tiltekna yfirvinnu, gæta þagnarskyldu meðan lífsandinn er dreginn, hlíta breytingum á störfum og heimilt er að takmarka atvinnufrelsi þeirra. Þessu skyldum fylgja vissulega nokkur réttindi. Í lögunum er tryggt að opinberum starfsmönnum beri laun fyrir störf sín, þeim er tryggður réttur til upplýsinga um starfskjör sín, þeir eiga rétt á orlofi, rétt á launum í veikindaforföllum og fæðingarorlofi og jafnvel sveigjanlegum vinnutíma. Þessi réttindi eru hins vegar ekki meiri en tíðkast á almennum vinnumarkaði og þykja sjálfsögð.
Farið vel með húsbóndavaldið
Þegar fjallað er um skerðingarfrumvarp ráðherra má ekki gleymast að formfesta og vernd opinberra starfsmanna sem í áminningarferlinu felst er ekki bara hugsuð fyrir þá sjálfa heldur er einnig verið að tryggja almenning fyrir því að opinberir starfsmenn séu ekki ofurseldir geðþóttaákvörðunum æðri stjórnenda. Það er mikilvægt að opinberir starfsmenn, sem oft eru einu sérfræðingarnir á sumum sviðum, geti óhindrað tekið þátt í þjóðfélagsumræðu og dýpkað hana með sérfræðiþekkingu sinni. Því er nauðsynlegt að framkvæmdavaldið fari vel með húsbóndavald sitt og að opinberum starfsmönnum sé tryggt starfsöryggi og óhlutdræg meðferð af hálfu vinnuveitanda. Það er því að sumu leyti, og ekki síst með tilvísun í efni þessa málþings, vond tilhugsun, bæði fyrir opinbera starfsmenn og almenning, að lesa í greinargerð með skerðingarfrumvarpinu að stefnumörkunin sé meðal annars sú að auka valdsvið og ábyrgð forstöðumanna með því að láta málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga ekki ná til ákvarðana um starfslok opinberra starfsmanna. Þetta er sýnu alvarlegra þegar haft er í huga að með setningu stjórnsýslulaga var verið að gera lágmarkskröfur til stjórnsýslunnar, eins og segir í skýringarriti Páls Hreinssonar prófessors um stjórnsýslulögin. Þar segir ennfremur að markmið laganna sé að tryggja réttaröryggi borgaranna gagnvart stjórnvöldum. Það liggur því fyrir að með skerðingarfrumvarpinu eiga opinberir starfsmenn ekki einu sinni að njóta lágmarkskrafna né heldur þarf að tryggja þeim réttaröryggi í samskiptum við stjórnvöld þegar kemur að uppsögn þeirra.
Skynsamleg viðbrögð
Eins og fyrr segir er því sjónarmiði haldið á loft að verið sé að jafna aðstæður launþega á almennum markaði og á opinberum markaði. Þetta er að sínu leyti göfugt markmið og sanngjarnt og er höfuðröksemd leiðarahöfundar Morgunblaðsins sem segir laugardaginn 15. nóvember: "Viðbrögð forsvarsmanna samtaka opinberra starfsmanna eru fyrirsjáanleg, en engu að síður óskynsamleg." Ég vil hins vegar ítreka það að markaðsaðstæður í hvorum geira samfélagsins um sig eru ólíkar. Annars vegar er markaður þar sem samkeppnislögmál eru ríkjandi og hins vegar markaður þar sem samkeppnislögmál eru víkjandi en þjónustuviðhorf eru allsráðandi án samkeppnissjónarmiða. Í mörgum tilfellum eru tiltölulega fá störf í boði fyrir mjög sérhæfða menntun og stundum aðeins hjá einum vinnuveitanda undir hatti ríkisins. Um leið eru starfsmennirnir ef til vill ofarlega í valdapýramídanum og beinlínis um almannahagsmuni að ræða að þeir komi skoðunum sínum á framfæri, þyki þeim einhverju áfátt á starfsvettvangi sínum. Eða viljum við koma málum þannig að ungt sérhæft fólk hugsi sig tvisvar um áður en það ákveður að taka sig upp með fyrirhöfn og kostnaði til að flytja heim með þeirri áhættu og múlbindingu sem því fylgir ef frumvarp þetta verður að lögum?Þegar saman fer skerðing á réttarvernd opinberra starfsmanna, aukið vald forstöðumanna, sameining stofnana og miðstýring er full ástæða fyrir opinbera starfsmenn og almenning í landinu að óttast um tjáningarfrelsi og sjálfstæði háskólamanna.
Í ljósi þess sem sagt hefur verið tel ég að viðbrögð forystumanna opinberra starfsmanna hafi verið fyrirsjáanleg og skynsamleg.
Býr það ef til vill í framtíðinni að opinberir starfsmenn hafi ekki það skjól fyrir ofríki sem þeir hafa haft og að sjálfsögð mannréttindi þeirra verði í vitum okkar sem ilmur liðinna daga?