Umræða fréttir
  • Jón Steffensen

Ráðstefna á aldarafmæli Jóns Steffensen

Eftir rúmt ár, eða þann 15. febrúar 2005, verða liðin eitt hundrað ár frá fæðingu Jóns Steffensen læknis og fyrrum prófessors við læknadeild Háskóla Íslands. Jón var afkastamikill fræðimaður á mörgum sviðum og lét eftir sig merk ritverk um heilbrigðismál, sögu læknisfræðinnar, upphaf landnáms á Íslandi, mannfræði Íslands og íslensk fornrit, svo fátt eitt sé nefnt. Jón ánafnaði Háskólabókasafni og Þjóðminjasafni eignir sínar, bækur og handrit í því skyni að auðvelda rannsóknir á þeim sviðum sem áhugi hans hafði beinst að.

Það þykir því við hæfi að efna til ráðstefnu í minningu hans og verður hún haldin 18. og 19. febrúar 2005. Að ráðstefnunni standa læknasamtökin, Þjóðarbókhlaða, Þjóðminjasafn, Hollvinasamtök læknadeildar, læknadeild og mannfræði- og þjóðfræðiskor Háskóla Íslands. Ætlunin er að hún endurspegli fjölbreytnina í rannsóknum Jóns og verða því haldin mörg stutt erindi um þau viðfangsefni sem honum voru hugleikin. Verða þau síðan gefin út á prenti.

Í Þjóðdeild Landsbókasafns Íslands-Háskólabókasafns í kjallara Þjóðarbókhlöðu eru bækur Jóns, tímarit, bréf, handrit og fleiri munir varðveittir í sérsafni sem við hann er kennt. Hefur verið unnið að því að gera safn hans aðgengilegt fræðimönnum og almenningi og verður nánar greint frá því hér í blaðinu eftir áramót.

Þeir læknar sem hafa hug á að flytja erindi á ráðstefnunni eru beðnir að senda titil og stuttan útdrátt (um það bil 100 orð) til Tómasar Zoëga, Viðjugerði 8, 108 Reykjavík fyrir 15. janúar 2004.

Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica