Umræða fréttir

LÍ skipar starfshóp um innflutning sjúklinga

Eins og greint var frá í síðasta Læknablaði varpaði Berglind Ásgeirsdóttir aðstoðarframkvæmdastjóri OECD fram þeirri hugmynd á Lýðheilsuþingi í haust að hægt væri að bjóða útlendingum upp á ákveðna þjónustu hér á landi og skapa með því ný störf fyrir lækna. Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra tók þessari hugmynd vel en sagði að frumkvæði að útfærslu hennar yrði að koma frá læknum.

Nú hefur Læknafélag Íslands tekið þau Berglind og Jón á orðinu og skipað starfshóp "um útflutning heilbrigðisþjónustu með innflutningi sjúklinga". Í samþykkt stjórnar LÍ frá 28. október er hlutverk hópsins skilgreint þannig að hópnum sé ætlað að "velta upp öllum hugsanlegum verkefnum, þar sem útlendingum er á markaði boðin læknishjálp á Íslandi gegn greiðslu og

- greina lauslega mannaflaþörf og annan kostnað,

- gera grein fyrir fyrirliggjandi vinnuafli og aðstöðu,

- athuga hverjir aðrir en læknar gætu verið þátttakendur í verkefninu,

- mæla fyrir um hvaða breytingar þyrfti að gera á starfsumhverfi lækna með tilliti til laga og reglugerða,

- meta hugsanleg áhrif á þá lögbundnu heilbrigðisþjónustu sem veitt er hér á landi,

- meta hvort þörf er á "fríhöfn" og

- draga fram hugsanlega fjármögnunaraðila."

Hópurinn á einnig að raða verkefnum niður eftir fýsileika og útfæra nánar dæmi, til dæmis með gerð viðskiptaáætlana, í því skyni að auðvelda frekari ákvarðanir um þróun verkefnisins. Loks á hópurinn að gera tillögur um frekari aðgerðir LÍ þessu málefni til framdráttar.





Margþætt verkefni

Formaður starfshópsins er Þórður Sverrisson en auk hans eru í hópnum Birna Jónsdóttir, Guðmundur Þorgeirsson, Sigurður Ásgeir Kristinsson og Þórður Óskarsson. Ritari hópsins er Gunnar Ármannsson framkvæmdastjóri LÍ. Auk þess skipar stjórnin þá Sigurð E. Sigurðsson, Guðna H. Arinbjarnar og Ingvar Þóroddsson á Akureyri til þess að gera sérstaka úttekt á möguleikum Akureyrarsvæðisins í þessu verkefni.

Stjórnin ákvað að LÍ skuli standa straum af öllum kostnaði við þetta verkefni. Hún bendir á að auk læknisfræðilegra þátta þurfi að kanna lagalegar, þjóðhagfræðilegar, heilsuhagfræðilegar, rekstrarfræðilegar og markaðsfræðilegar hliðar verkefnisins. "Til greina kemur að færa háskólakennurum og stúdentum hluta verkefnisins sem raunhæft kennsluverkefni," segir í samþykkt stjórnarinnar.

Starfshópurinn á að skila áfangaskýrslu til stjórnar LÍ fyrir 1. júní 2004.

Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica