Umræða fréttir

Broshornið 43. Af hósta og biðtíma

Hósti heima hjá lækninum

Heimilislæknirinn var kominn heim í faðm fjölskyldunnar eftir langan og annasaman dag á stofunni. Það var flensutíð og margir af sjúklingum læknisins voru með hita og hósta. Ein af fullveðja dætrum læknisins var búin að vera rám og hóstandi í tvær vikur án þess að vera tiltakanlega slöpp að sjá eða lasin. Hóstinn í dótturinni minnti pabbann á að væri hann kominn heim til sín.

Þennan tiltekna dag var hóstinn í dömunni meiri en endranær. Þegar sest var að kvöldverðarborði þar sem stórfjölskyldan var saman komin, alls átta manns, fékk hún hóstakast. Af einhverjum ástæðum sendu flestir við borðið heimilisföðurnum ásakandi augnaráð. Þar eð samband föður og dóttur var með ágætum og hún ekki óvön skotum sem voru aldrei illa meint leyfði hann sér að segja: "Svona, kláraðu nú að hósta, elskan mín og þegiðu svo."



Langur biðtími

Maður hringdi á heilsugæslustöðina til að panta tíma hjá heimilislækninum. Þetta var á þeim tímum þegar sjúklingar þurftu að bíða í meira en tvo daga eftir því að komast að. Maðurinn gat fengið tíma eftir eina viku og þáði hann það. Áður en hann kvaddi spurði hann móttökuritarann: "Heldurðu að það verði einhver bið þá?"



Gefið undir fótinn

Eldri kona með mikla lífsreynslu var lögð inn á spítala. Er hún fór að hressast tók hún til við að daðra við karlkynið í hópi starfsfólks. Þegar ungur og myndarlegur deildarlæknir var að skoða hana gat hún ekki orða bundist: "Heyrðu vinur minn, ég hef verið að velta því fyrir mér hvort það mundi ekki flýta fyrir bata mínum ef við tvö eyddum nóttinni saman?"

"Jú, góða mín, ég er nokkuð viss um það en ég er ekki eins viss um að sjúkratryggingarnar myndu taka þátt í kostnaðinum."



Í réttarsalnum

Læknirinn var kallaður til vitnis og lögmaðurinn sem talinn til hinna hörðustu í stéttinni sá um yfirheyrsluna.

Lögmaðurinn: "Læknir, gáðuð þér að hjartslætti áður en þér hófuð krufninguna?"

Læknirinn: "Nei."

Lögmaðurinn: "Gáðuð þér að öndun eða blóðþrýstingi?"

Læknirinn: "Nei."

Lögmaðurinn: "Jæja, er þá hugsanlegt að sjúklingurinn hafi verið lifandi þegar þér hófuð að kryfja hann?"

Læknirinn: "Nei, heilinn úr honum var í stórri krukku á borðinu hjá mér."

Lögmaðurinn: "En gæti sjúklingurinn ekki hafa verið á lífi engu að síður?"

Læknirinn: "Nei, en bíddu annars við. Það er ekki útilokað, ef um lögfræðing hefur verið að ræða."



Við ævilok

Læknirinn og gamli maðurinn sem var talinn til auðugustu manna landsins höfðu þekkst lengi og var vel til vina. Nú var hins vegar komið að leiðarlokum því heilsu mannsins hrakaði hratt og ljóst var að hverju stefndi. Læknirinn hafði alltaf verið hreinskilinn við þann gamla og ráðlagði honum því að ganga frá sínum málum.

"Ég er búinn að gera viðeigandi ráðstafanir," sagði sá gamli. "Það eina sem ég á eftir er að ganga endanlega frá erfðaskránni. Ég er hins vegar búinn að ákveða að setja í hana það ákvæði að læknirinn sem bjargi lífi mínu muni erfa allar milljónirnar mínar."



Ráðgjöf í næringarfræði

Eftir að hafa hlýtt sjúklingnum yfir heilsufarssöguna og skoðað hann gaumgæfilega sagði læknirinn: "Lárus minn, ég finn sáralítið athugavert við þig. Þú ert við mjög góða heilsu þótt þú sért alltof þungur. Ég ráðlegg þér eindregið ef þú vilt halda heilsunni að gefa upp á bátinn þessa notalegu litlu málsverði fyrir tvo nema þú getir deilt þeim með einhverjum."



Ein og uppgefin með höfuðverk

Einstæð móðir með þrjú lítil börn var í þrengingum andlega, líkamlega og félagslega. Hún kom til heimilislæknisins og kvartaði um mígrenhöfuðverk á háu stigi. Læknirinn hlustaði fullur skilnings á frásögn konunnar og sótti síðan lyfjaprufu úr skápnum hjá sér og rétti konunni.

"Taktu þrjár af þessum töflum eftir hádegismatinn. Ef þú ert enn með höfuðverk í kvöld skaltu fara eftir því sem stendur á pakkanum."

"Að ég ætti þá taka þrjár töflur á fjögurra klukkustunda fresti?" spurði konan.

"Nei," sagði læknirinn, "geymist þar sem börn ná ekki til."

Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica