Umræða fréttir
  • Mynd 1

Einkarekstur lækna:Tjöldum ekki til einnar nætur

Rætt við Magnús Pál Albertsson um Orkuhúsið

Einkarekstri í íslenskri heilbrigðisþjónustu vex stöðugt ásmegin og nú í október urðu tímamót í rekstri tveggja fyrirtækja sem læknar eiga að öllu eða verulegu leyti. Annars vegar átti fyrirtækið Röntgen Domus tíu ára afmæli eins og greint er frá annars staðar hér í opnunni. Hins vegar var Orkuhúsið við Suðurlandsbraut opnað með pompi og prakt en þar starfa fjögur félög undir sama þaki. Af þessu tilefni tók Læknablaðið Magnús Pál Albertsson stjórnarformanns Orkuhússins tali um þá þróun sem er að verða í íslensku heilbrigðiskerfi.

Fyrst ber að segja frá því að í Orkuhúsinu koma saman fjögur fyrirtæki. Læknastöðin þar sem 15 læknar eru með móttöku, flestir bæklunarskurðlæknar, Íslensk myndgreining sem er í eigu nokkurra röntgenlækna úr Fossvoginum en aðallega eru það tveir þeirra sem vinna í Orkuhúsinu, Sjúkraþjálfun Íslands sem sex sjúkraþjálfarar starfrækja en alls starfa þar 16 sjúkraþjálfarar og innanlandsdeild Össurar hf. sem smíðar gervilimi, spelkur og stoðtæki og rekur auk þess verslun á jarðhæð hússins.

Þessi félög störfuðu flest saman í Álftamýri en höfðu fyrir löngu sprengt af sér það húsnæði. Nú eru læknarnir með stofur sínar á fjórðu og fimmtu hæð hússins þar sem áður voru bækistöðvar Rafmagnsveitu Reykjavíkur en á efstu hæð er fundar- og kennslusalur. Á annarri og þriðju hæð eru Össur hf. og sjúkraþjálfarar með sína starfsemi (þar á meðal einn sem stundar nálastungur). Á jarðhæð eru auk verslunarinnar stofur fyrir skurðaðgerðir og í fyrrum mötuneyti við hlið turnsins er Íslensk myndgreining að störfum.

Stærðin kom á óvart

Þegar litið er á þessa starfsemi vekur það athygli að þarna er að verða til sérhæfð þjónustumiðstöð í heilbrigðiskerfinu sem sinnir að mestu leyti stoðkerfisvandamálum (nema hvað röntgenlæknarnir mynda hvaða líkamsparta sem er). Fyrsta spurningin sem ég legg fyrir Magnús Pál er því sú hvort þetta sé framtíðin í íslensku heilbrigðiskerfi, að sérhæfðar, einkareknar stöðvar rísi upp við hlið stórra ríkisstofnana.

"Það mætti ætla það því Orkuhúsið er ekki eina stöðin af þessu tagi. Í Læknasetrinu í Mjódd starfa fjölmargir lyflæknar og hér handan við gatnamótin í Glæsibæ er læknastöð sem einkum sinnir háls-, nef- og eyrnalækningum þótt fleiri greinar eigi sér þar fulltrúa. Sérhæfing af þessu tagi er hagkvæm, bæði fyrir okkur sem hér störfum og getum samnýtt margskonar tæki og aðstöðu, og svo er það hagræði fyrir sjúklinga að hafa allt á einum stað."

Eins og kunnugt er hefur oft andað köldu í samskiptum bæklunarskurðlækna og heilbrigðisyfirvalda svo það er ekki úr vegi að spyrja hvernig viðbrögð þeirra síðarnefndu hafi verið við stofnun Orkuhússins.

"Þau hafa nú ekki verið mikil, hvorki jákvæð né neikvæð. Við höfum ekki kallað eftir neinni aðstoð frá stjórnvöldum. Við störfum sem einyrkjar með samning við Tryggingastofnun ríkisins og það breytist ekkert við flutninginn. Sjúklingarnir verða áfram á ábyrgð okkar læknanna en ekki stöðvarinnar. Ef það yrði raunin yrðum við að gerast launamenn hjá stöðinni og það er einmitt það sem við erum að forðast - að verða launamenn hjá einhverri stofnun.

Ráðherra og meirihluti samninganefndar hans mættu við opnunina. Þeim kom á óvart að sjá hversu stórt húsið er og að hér er ekki tjaldað til einnar nætur."Samstarfið mun aukast

- En hver eru samskipti ykkar við aðrar svipaðar stöðvar?

"Það hefur myndast vísir að samstarfi milli þessara einkareknu stöðva. Til dæmis eigum við ágætt samstarf við þá sem eru í Glæsibæ, þeir notfæra sér myndgreininguna hér og við sendum sýni til rannsóknar á rannsóknarstofuna þeirra. Þetta á örugglega eftir að aukast."

- En hvað um samskiptin við spítalann?

"Þau eru því miður lítil og engin með formlegum hætti. Það á sér eflaust rætur í því að við komum flestir úr Fossvogi og viðskilnaðurinn þar hefði getað verið hamingjuríkari. En ef við lítum á málið kalt og yfirvegað þá ætti að vera meira samstarf. Það eru dæmi þess að ég vísi fólki á spítalann ef ég get ekki gert það sem þarf að gera og af sömu ástæðu er vísað til mín sjúklingum frá spítalanum. En þetta er ekki formlegt samstarf heldur einungis á milli einstaklinga og því þyrfti að breyta. Ég á þó von á því að þetta komist í eðlilegt horf með tímanum."

- En eruð þið ekki komin með vísi að einkareknum spítala?

"Jú, það má alveg segja það. Í raun og veru getum við haft sjúklinga hér yfir nótt. Ef þeir þurfa lengri innlögn verðum við þó að senda þá annað."

- Hefur ekki orðið mikil breyting á því sem þið gerið hér?

"Jú, við erum að gera núna ýmsar aðgerðir sem ekki var reynt að gera utan spítala þegar við byrjuðum í Álftamýrinni árið 1997. Það hafa komið til ný tæki og efni sem gera aðgerðirnar auðveldari, auk þess sem verklagið breytist þannig að sjúklingar þurfa ekki að leggjast inn heldur geta farið heim fljótlega eftir að aðgerð lýkur. Með flutningunum hefur öll aðstaða til aðgerða stórbatnað þótt ekki hafi verið keypt mikið af nýjum tækjum. Hins vegar hefur öll umgjörðin breyst til hins betra, húsrýmið aukist og allar lagnir og þess háttar eftir ýtrustu kröfum um gæði og öryggi. Möguleikar röntgenlæknanna hafa einnig aukist verulega en þeir hafa bætt við sig tækjum, meðal annars nýju tölvusneiðmyndatæki og nú er verið að setja upp eina rannsóknarstofu til viðbótar til venjulegra röntgenrannsókna."Miklir möguleikar

Þótt húsnæðið sé mikið og rúmgott horfa aðstandendur Orkuhússins til þess að geta aukið það enn meir. "Að vísu tókst okkur ekki að fá skemmurnar sem eru hér ofar í lóðinni en lóðinni fylgir mikill byggingarréttur svo hér er auðvelt að bæta við ef áhugi er fyrir hendi. Við höfum til dæmis rennt hýru auga til þess að nú stendur til að opna nýja heilsugæslustöð fyrir Voga- og Heimahverfið en hún gæti vel verið hér á lóðinni. Við erum að vísu 100 metra utan marka heilsugæslusvæðisins. Þótt ég hafi áðan rætt um kostina við sérhæfðar stöðvar þá geta mismunandi stöðvar með ólíka sérhæfingu vel starfað undir sama þaki og átt gott samstarf."

Magnús sér einnig fyrir sér að Orkuhúsið geti tekið að sér starfsþjálfun og kennslu læknanema og þeirra sem eru í framhaldsnámi. "Við höfum aðstöðu til þess að taka nemendur bæði í vinnu og kennslu og erum reyndar byrjaðir á því. Það hafa komið til okkar læknar í framhaldsnámi og fengið að vera hér, auk þess sem stúdentar úr læknadeildinni hafa komið í skoðunarferðir. Um þetta á þó eftir að semja og mér skilst að á vegum þar til bærra yfirvalda sé verið að skoða möguleikana sem felast í þátttöku sjálfstætt starfandi lækna í kennslu. Það eru því horfur á að litli ljóti andarunginn fái að vera með," segir Magnús Páll Albertsson bæklunar- og handaskurðlæknir og brosir út í annað.

Tengd skjöl
Þetta vefsvæði byggir á Eplica