Umræða fréttir
  • Mynd 1
  • Mynd 2

Röntgen Domus 10 ára

Fyrir tíu árum stofnuðu fimm röntgenlæknar fyrirtækið Röntgen Domus Medica í samnefndu húsi við Egilsgötu. Þetta gerðist í kjölfar sameiningar Landakotsspítala og Borgarspítala en læknarnir höfðu starfað saman á þeim fyrrnefnda. Fyrirtækið hefur stækkað ört og á dögunum var afmælinu fagnað á veglegan hátt.

Í upphafi voru starfsmenn níu og höfðu til umráða eina röntgenstofu, tölvusneiðmyndatæki, ísótópastofu og ómsjá. Ári síðar var opnuð önnur röntgenstofa og í ársbyrjun 1996 var stigið stórt skref þegar segulómstofa komst í gagnið. Nú starfa hjá fyrirtækinu sjö röntgenlæknar sem jafnframt eru eigendur, 12 geislafræðingar og 17 aðrir starfsmenn. Að jafnaði eru gerðar þar um 200 rannsóknir á hverjum virkum degi.

Í tilefni af afmælinu var ákveðið að auka enn við umsvif fyrirtækisins og opna útibú í húsnæði Læknaseturs í Mjódd. Þar verður komið fyrir nýju tölvusneiðmyndatæki sem býður upp á nýja möguleika, svo sem kransæðamyndatökur án inngrips á borð við hjartaþræðingu. Einnig hefur verið keypt nýtt röntgentæki og því komið fyrir í Domus Medica. Þar er á ferðinni algerlega stafrænt tæki og með tilkomu þess stígur fyrirtækið stórt skref til þess að kveðja röntgenfilmuna endanlega.

Filmur sem hengdar eru á ljósaskápa eru þungavara og taka mikið pláss í geymslum. Öll myndvinnsla og greining með nýju tækninni fer fram á tölvuskjá og verður hægt að lesa úr myndunum bæði í Domus og Mjódd, auk þess sem afrit vistast sjálfkrafa á báðum stöðum.

Birna Jónsdóttir röntgenlæknir sýndi blaðamanni Læknablaðsins geymslu sem er um 120 m2 að flatarmáli og geymir allar myndir sem teknar hafa verið frá stofnun fyrirtækisins. Í næsta herbergi er tölvustæða, tæpur fermetri að flatarmáli og metri að hæð, en í henni verður hægt að geyma allar röntgenmyndir sem teknar verða næsta áratuginn í þessu ágæta fyrirtæki.

Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica