Umræða fréttir

Afmælisrit til heiðurs Ólafi Ólafssyni fyrrum landlækni

Hinn 11. nóvember næstkomandi verður Ólafur Ólafsson, fyrrverandi landlæknir og núverandi forystumaður í samtökum eldri borgara, 75 ára. Af því tilefni hafa nokkrir vinir hans og velunnarar ákveðið að efna til útgáfu, honum til heiðurs, á völdu efni úr handraða afmælisbarnsins. Þar er fjallað um heilbrigðismál í víðum skilningi, margs konar þjóðfélags- og réttindamál, alþjóðamálefni og málefni eldri borgara. Frásagnirnar eru fjölbreyttar og fróðlegar og allar í anda Ólafs, hnitmiðaðar og hispurslausar og síðast en ekki síst eru þær bráðskemmtilegar - þar sem það á við.

Áætlað er að afmælisritið komi út í maí á næsta ári, en bókaútgáfan Hólar hefur tekið að sér útgáfu þess og er ritnefndin skipuð þeim Sigurði Guðmundssyni landlækni, Benedikt Davíðssyni formanni Landssambands eldri borgara og Vilhelm G. Kristinssyni rithöfundi sem jafnframt er ritstjóri verksins.

Afmælisritið verður selt í áskrift og greiðist það fyrirfram (kr. 4900 og er sendingargjald innifalið). Í ritinu verður heillaóskaskrá (Tabula gratulatoria) og er það von ritnefndarmanna að hún verði sem lengst og glæsilegust. Þeir velunnarar Ólafs sem áhuga hafa á því að senda honum afmæliskveðju og eignast um leið bókina eru hvattir til þess að hafa samband í síma 557-9310/ 557-9215 eða á holar@simnet. is

Fréttatilkynning

Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica