Umræða fréttir

Broshorn 42. Opin búð og veik ímyndun

Bætt á sig þyngd

Eldri herra kom til heimilislæknisins út af þrálátum hósta. Þeir höfðu þekkst í tvo áratugi og samskiptin verið góð og gefandi fyrir báða. Gamli maðurinn hafði alla tíð verið grannvaxinn og hinn spengilegasti. Það hefði þurft blindan mann til að taka ekki eftir því að nokkur kíló höfðu bæst við þau hóflegu 65 kíló sem höfðu fylgt þeim gamla í seinni tíð.

"Ertu eitthvað að horfa í það við mig, Bjarni minn, að ég hef aðeins bætt á mig?" spurði öldungurinn sposkur á svip.

"Nei, svo sem ekki og ég verð að segja að þú máttir nú alveg við því að þyngjast aðeins, Georg minn," sagði Bjarni læknir.

"Æ, það gerir víst ekkert til. Ég verð hvort eð er aldrei áttatíuogsex ára aftur," sagði Georg og brosti.



Opin búð

Haraldur var reffilegur ekkjumaður á áttræðisaldri sem missti allt sem hann lifði fyrir þegar konan hans dó. Við tóku erfið ár og hann kom alloft við hjá Bjarti heimilislækni sínum til að fá ráðleggingar en mest þó til að létta á sér. Um síðir tóku við bjartari tímar og Haraldur fékk áhuga á lífinu og tilverunni á nýjan leik. Hann hafði meira að segja áhuga á að fá að vita eitt og annað um svokölluð rislyf og bað svo um að fá að prófa viagra. Það var auðsótt mál og líf tók að færast í það sem dautt var talið. Haraldur var sæll og sáttur. Þegar hann kom svo uppáklæddur og fínn til heimilislæknisins til að fá fjölnota lyfseðil komst læknirinn ekki hjá því að taka eftir því að maðurinn var með opna buxnaklauf.

"Það er kannski betra að þú heyrir það frá mér svona áður en þú ferð héðan frekar en að heyra það úti í bæ að þú ert með opna búð, Haraldur minn." "Jæja, er það svo, minn kæri? Það er víst engin hætta á að neinn gægist þarna út," sagði Haraldur brosandi og svo hlógu þeir báðir.



Tveir á nærbuxunum

Rúmlega þrítugur karlmaður kom á heilsugæslustöð og bar sig illa út af inngróinni nögl á hægri stórutá. Hann var ekki fyrr kominn inn þegar stór og stæðileg hjúkka skipaði honum valdsmannsleg á svip að fara inn á skoðunarherbergi og klæða sig úr fötunum.

"En mér er bara illt í tánni," sagði maðurinn.

"Svona gerðu eins og ég segi," sagði hjúkkan ákveðin og maðurinn þorði ekki annað en gegna.

Í skoðunarherberginu sat annar karlmaður hálfstrípaður.

"Þetta er alveg fáránlegt," sagði maðurinn með tána. "Ég kem hingað með inngróna nögl á tá og er látinn hátta mig."

"Ég skil nú ekki hvað þú ert að fárast yfir því," sagði hinn maðurinn. "Ég kom til að gera við símann."



Af bílaviðgerðum

Bíllinn bilaði og læknirinn fór með hann á verkstæði. "Þið bílaviðgerðamenn eruð með miklu hærra kaup á tímann en við læknarnir," sagði sá sem átti bilaða bílinn.

"Það getur vel verið, "doksi" minn, en þið eruð alltaf að gera við sama módelið sem hefur ekkert breyst frá því Adam var og hét. Við bílaviðgerðamennirnir þurfum stöðugt að halda okkur við af því að á hverju ári kemur nýtt módel."



Veik ímyndun

Ímyndunarveikur maður hitti lækni sinn og sagðist vera með lífshættulegan lifrarsjúkdóm. "Hvaða vitleysa er þetta?" spurði læknirinn. "Það er engin leið til þess að þú gætir vitað að þú værir með þann sjúkdóm því þeir sem fá hann finna ekkert fyrir honum."

"Ég er einmitt nákvæmlega með þau einkenni," sagði sá ímyndunarveiki og var ekki skemmt.



Lægri kyngeta

Gamall maður kom til læknis og sagði áhyggjufullur: "Heyrðu Tómas læknir, þú verður að lækka kyngetuna hjá mér." Tómas var alls óviðbúinn þessari ósk mannsins en vildi vera viss um að hann hefði heyrt rétt. "Hvað segirðu, viltu að ég lækki kyngetuna þína?" "Já, nákvæmlega," sagði sá gamli, "hún er öll í hausnum á mér og ég verð að ná henni niður."

Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica