Umræða fréttir

Íðorð 159. Útskriftarfær

Jón Eyjólfur Jónsson, öldrunarlæknir, sendi lítið verkefni sem snýst um lýsandi heiti til að nota við flokkun sjúklinga í vistunarkerfi stofnunar. Forsendur verkefnisins voru ekki fyllilega tilgreindar, en grunnhugmyndin er væntanlega sú að vistunarkerfið geti innihaldið upplýsingar um áfanga á meðferðarferlinum. Helsti áfanginn er auðvitað sá að sjúklingur hafi fengið nauðsynlega meðferð og sé tilbúinn til brottfarar. Því ástandi sagði Jón Eyjólfur að sænsk kerfi lýstu með orðinu "klinikfärdig" og spurði hvort ekki væri hægt að kalla slíka sjúklinga ferðbúna. Þá taldi hann þörf fyrir kerfisheiti sem aðgreindu þá sjúklinga, sem ættu að fara á aðrar deildir sömu stofnunar, frá þeim sem ekki væri meira fyrir að gera og væru því útskriftarfærir.

Undirritaður tók sér nokkra daga eftir sumarfríið til að verða íðorðafær og sá fljótt að lausnin fólst í því að búa til samsett heiti með lýsingarorðinu fær sem viðskeyti. Sá sem er tilbúinn til útskriftar er þannig útskriftarfær, sá sem er tilbúinn til flutnings er flutningsfær og sá sem er tilbúinn í eftirlit á göngudeild er göngudeildarfær. Margar fleiri samsetningar má hugsa sér, svo sem aðgerðarfær, endurhæfingarfær og dagdeildarfær. Þessi kerfisheiti útiloka ekki að ferðbúinn sjúklingur sé einnig nefndur ferðafær.



Bæklunaraðgerð

Bjarki Karlsson, bæklunarlæknir á Akureyri, lagði fram verkefni sem í fyrstu virtist erfitt. Hann var að fást við heiti á nýrri bæklunaraðgerð. Hún felst í því að sprautað er sérstöku gerviefni inn í liðbol hryggjar til að líma beinbrot eða til að lagfæra liðbolssamfall eða skekkju eftir brot. Aðgerðin hefur fengið tvö heiti eftir því hvort einungis stefnt er að því að festa eða líma beinbrotið, vertebroplasty, eða hvort einnig á að laga og þenja út skakkan og samfallinn liðbol, kyphoplasty.



Cementum

Efnið hefur fengið enska samheitið cement. Það er talið dregið af latneska orðinu caedimentum, sem upphaflega var notað um hrjúfa steina og beinbrot í steinnámum fornaldar. Síðar breytist stafsetningin og merkingin tók tilfærslu þannig að cementum var notað um ýmislegt það sem bindur eða límir hluti saman og þá sérstaklega um steinlím. Í orðabókum kemur fram að samheitið cement er notað um ýmis náttúruleg efni sem verða steinhörð við að þorna og um ýmis gerviefni sem harðna eftir tiltekna efnafræðilega blöndun. Íðorðasafn lækna gefur þýðingar á enska orðinu cement: 1. lím. 2. tannfylling. 3. tannlím. Í því samhengi má minna á heiti úr líffærafræðinni: enamelum, glerungur, dentinum, tannbein og cementum, beinungur. Æskilegt væri nú að bæta við fjórðu þýðingunni á cement: 4. beinlím.



Plasty

Orðhlutinn -plasty kemur fyrir í mörgum aðgerðaheitum, einkum þeim sem falla undir lýtalögun, plastic surgery. Uppruninn er úr grísku, sögnin plassein merkir að forma eða móta og lýsingarorðið plastos merkir formaður eða mótaður. Af þeim sökum hefur orðhlutinn plasty verið notaður um skurðaðgerðir til að lagfæra sköpulagsgalla eða byggja upp form eða starfsemi líkamshluta (læknisfræðiorðabók Stedmans). Þessum orðhluta er þannig sérstaklega0 ætlað að vísa í lögun eða mótun líkamshluta.

Undirritaður lagðist í grúsk og skoðaði þau aðgerðaheiti í Íðorðasafni lækna, sem enda á -plasty, býsna vandlega. Langoftast er notað íslenska heitið lögun, en einnig sköpun eða gerð. Þá eru nokkrum sinnum notuð almennu heitin aðgerð eða viðgerð, og einstöku sinnum sértæku heitin ágræðsla, bæting, götun, ígræðsla og skipti.



Hryggjarlögun

Orðhlutinn vertebro- vísar í hryggjarlið: Eitt þeirra þrjátíuogþriggja beina sem mynda hrygginn. Orðhlutinn kypho- vísar hins vegar í herðakistil eða kryppu. Með þessu verður ekki erfitt að þýða fyrrgreind heiti á íslensku. Vertebroplasty verður þannig hryggjarliðslögun og kyphoplasty verður herðakistilslögun eða kryppulögun. Heitin segja þó ekkert um aðferðina sem beitt er, innsprautun beinlímsins. Þó búa megi til nákvæm heiti sem lýsa aðferðinni, leggur undirritaður til að menn forðist löng og margsamsett heiti og að aðferðin verði táknuð með annarri hvorri viðbótinni: með beinlími eða með beinlímingu.



Viðbrögð óskast

Í nokkrum síðustu pistlum hefur verið kallað eftir viðbrögðum lækna við tillögum að íslenskum heitum. Viðbrögð hafa stundum lítil orðið. Nú skulu nokkrar beiðnir ítrekaðar: erythema nodosum (158. pistill), vegetative state (155. pistill), exposure (153. og 141. pistill), sentinel node (152. pistill), breast conserving surgery (152. pistill), skimun, kembileit (149. pistill), prækonditionering (147. pistill), eintala, fleirtala (145. og 142. pistill), cruroplastic, fundoplication (143. pistill), retinitis pigmentosa (142. pistill), komuskrá, sjúrnall (141. pistill) og thyrotropin (140. pistill).

Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica