Umræða fréttir

Líflæknirinn eftir Per Olov Enquist

Doktor Struensee situr niðursokkinn við skriftir innan um pappírshaugana meðan Kristján konungur sjöundi leikur sér hljóður á gólfinu með leikföngin sín; hundi og blökkudreng. Allt leikur í lyndi í miðri bókinni Líflæknirinn eftir sænska rithöfundinn Per Olov Enquist. Læknirinn hefur fengið fullt umboð frá sjúklingi sínum til konunglegra embættisgerða og situr við skriftir tilskipana og lagaboða af mikilli elju, en þær urðu alls 632 á fjórum árum. Hugsjónamaðurinn Struensee vinnur í hljóði að byltingu með blekinu sem rennur úr penna hans; dönsku byltingunni, tuttugu árum áður en sú franska braust út. Kristján konungur var sautján ára og bæklaður á líkama og sál þegar hann erfði krúnuna. Ári seinna hefur kónginum verið fundin drottning á Englandi, hin fimmtán ára gamla Karólína Matthildur. Kristján sjöunda dreymir í órum sínum að hann sé umskiptingur, í raun bóndasonur en ekki konungs og þegar hann festir ást á frægri vændiskonu, Stígvéla Katrínu, þykir stefna í slíkt óefni að þeir sem ráða láta Katrínu hverfa en kóngurinn ákveður að leita hennar og leggur land undir fót í mikilli Evrópureisu. Nú þótti hyggilegt að finna kónginum líflækni til fararinnar og fyrir valinu varð þýski læknirinn Struensee, sem fljótt ávinnur sér traust hans hátignar. En með lækninum berast viðsjárverðir straumar því hann er sannfærður upplýsingarmaður og hirðin veit ekki sitt rjúkandi ráð. Í þokkabót hefur Kristján konungur í misþroska sínum fengið dálæti á frönsku orðabókarhöfundunum og það gutlar á honum velvild í garð upplýsingarinnar svo vegurinn er ruddur fyrir líflækninn að gerast ráðgjafi konungs og stórkostlegt tækifæri skapast til að umbylta ranglátu og mannskemmandi samfélagi. Og þarna er efinn hjá Struensee; á hann að hoppa af vagninum á heimleiðinni og helga líf sitt starfi meðal hins snauða almúga eða smjúga inn um gættina og efna til pólitískrar byltingar í Danmörku? Hann skröltir með konungsvagninum til Kaupmannahafnar og taka leikar þá brátt að æsast, enda fleira þar en spillt hirð, kúgaður almúgi og bilaður kóngur. Þar er líka ung og ástríðufull drottning.

Líflæknirinn er margslungin bók og afburða vel skrifuð. Hún kom út á íslensku fyrir síðustu jól í bráðgóðri þýðingu Höllu Kjartansdóttur, en Enquist var svo hér uppi á dögunum, gestur á bókmenntahátíð. Sagan um líflækninn er sviðsett í sögulegum veruleika, en ýmsir þekkja eflaust eitthvað til örlaga- og ástarsögu Struensee og Karólínu Matthildar, hafa kannski séð ballettinn. En bókin segir líka margbrotna sögu um leið og þessir makalausu atburðir eru rifjaðir upp. Þetta er saga um hugmyndabaráttu í ýmsum skilningi, samfélagshugmyndir takast á en persónurnar eru knúðar áfram af myndum sem þær draga upp í huganum. Lýsandi kyndill upplýsingarinnar er fyrir öðrum kyndill myrkursins og allir berjast í huga sínum fyrir hreinleikanum, gegn spillingu og sora. Lengst gengur Kristján konungur, hann lifir algerlega í heimi hugmyndanna og telur sig þátttakanda í sviðsettu verki. Telur sjálfan sig vera Truman, svo vitnað sé í ágæta bíómynd, sem kannski er ekki svo fjarri lagi eftir allt, eða voru ekki settar ímyndaðar persónur í opinbera ævisögu Ronalds Reagans? En utan við höllina er hins vegar óræður veruleiki handan við átök upplýsingar og erfðakonungaveldis og lesandinn getur aðeins giskað á hvað þar fari fram og hvaða myndir lifi í höfði almúgans.

Eitt fannst mér athyglisvert við persónurnar í bókinni - þær eru hræddar. Vissulega eru gamalþekktir kraftar líka á ferli, kynhvöt og samkeppni, sem allir fjölmiðlarnir nú á dögum eru uppfullir af, en óttinn leikur samt aðalhlutverkið. Hann skýtur alls staðar upp kryppunni og hefur sumar persónur algerlega á valdi sínu. Nútíminn er feiminn við þetta ógnarafl og við látum yfirleitt eins og óttinn hafi horfið, sé eins og farsóttirnar bara að finna í fortíðinni og þriðja heiminum, en ég held að það sé misskilningur. Því miður.

Struensee vinnur einbeittur að takmarki sínu og grefur sér þó gröf allan tímann. Aukið tjáningarfrelsi borgaranna bitnar mest á honum sjálfum og ást hans á almúgafólkinu er endurgoldin með hatri. Byltingin elur jafnóðum af sér gagnbyltinguna. En meðan við lesum sögu af rugluðum kóngi, sannri drottningu og villuráfandi lækni á rangli milli konunglegra herbergja þekkjum við mannkynssöguna, gamla heimsmyndin hrynur að lokum, hver sem örlög sögupersónanna verða. Þetta er öðrum þræði fósturfræði okkar eigin heimsmyndar og manni verður óneitanlega hugsað til þess hve lengi hún muni standa og hvað taki við. Sagt er að meginviðhorf breytist ekki smám saman, þau standi þar til þeim er kollvarpað eins og Thomas Kuhn kenndi um þróun vísindanna.

Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica