Umræða fréttir

Nýtt sjúkrahús á Íslandi - Sýndarsjúkrahúsið

Það er ekki á hverjum degi sem nýtt hátæknisjúkrahús er stofnað á Íslandi með þjónustu við alla landsmenn. Nú hefur slíkt sjúkrahús verið sett á laggirnar, Sýndarsjúkrahúsið (e. Virtual Hospital).

Sjúkrahúsið er staðsett á Landspítalalóðinni við Hringbraut. Hér er um að ræða kassa sem er 30 x 30 cm að stærð og er speglunarstaður (e. mirror site) fyrir Sýndarsjúkrahúsið sem staðsett er við University of Iowa, í Iowa City í Bandaríkjunum. Þetta er rafrænt gagnasafn um heilbrigðisvísindi sem stofnað var við háskólann í Iowa árið 1992 í þeim tilgangi að hjálpa heilbrigðisstarfsmönnum og sjúklingum að finna upplýsingar við hæfi (1). Markmiðið með rafrænu gagnasafni Sýndarsjúkrahússins er að gera netið að gagnlegum stað til að fá upplýsingar um læknisfræði og heilsuvernd fyrir heilbrigðisstarfsmenn og sjúklinga (2). Í gagnasafni Sýndarsjúkrahússins eru hundruð gagnlegra texta og bæklinga. Nú geta Íslendingar sótt allar upplýsingar innanlands mjög hratt og greiðlega. Mikið af þeim gögnum sem hægt er að sækja í Sýndarsjúkrahúsið eru stórar skrár, svo sem kvikmyndir af aðgerðum og þá kemur sér afar vel hraðinn sem spegill innanlands veitir. Þá er einnig til efni á íslensku í Sýndarsjúkrahúsinu, til dæmis um lungnahlustun (3). Gagnasafn sem þetta getur nýst sérlega vel til upplýsingar við vinnu á deildum sjúkrahúsa, heilsugæslustöðvum og á vöktum þegar finna þarf fróðleik hratt og örugglega. Þetta er sérlega hentug námsaðferð fyrir okkur lækna og mjög hjálplegt tæki til kennslu á sjúkrahúsum, heilsugæslustöðvum og á vöktum til viðbótar hefðbundnum kennsluaðferðum (4). Hér var um að ræða eitt fyrsta vefsvæði sinnar tegundar og hefur síðan verið í fararbroddi í heiminum (1). Til vitnis um þetta er að árið 2001 fékk Sýndarsjúkrahúsið verðlaun sem tímaritið Scientific American veitti þá í fyrsta sinn og nefnast "SciTech Web Awards 2001". Að auki hefur Sýndarsjúkrahúsið unnið til fjölda annarra verðlauna. Ánægjulegt er fyrir Landspítalann að hafa verið valinn einn af speglunarstöðum þess. Sýndarsjúkrahúsið hýsir mjög mikilvægt kennsluefni fyrir íslenska heilbrigðisstarfsmenn og er ástæða til að hvetja alla til að kynna sér það. Slóðin er www.vh.org og má síðan velja Ísland, eða fara strax á slóðina http://iceland.vh.org





Heimildir

1. D'Alessandro MP, Galvin JR, D'Alessandro DM, Erkonen WE, Choi TA. The Virtual Hospital: The Digital Library Moves from Dream to Reality. Acad Radiol 1999; 6: 78-80.

2. Graber MA, D'Alessandro DM, D'Alessandro MP, Bergus GR, Levy B, Ostrem SF. Usage Analysis of a Primary Care Medical Resource on the Internet. Comp Biol Med 1998; 28: 581-8.

3. Guðmundsson G, Ásmundsson T. Lungnahlustun. The Virtual Hospital 1999. URL: http://iceland.vh.org/adult/provider/ internalmedicine/PulmonaryCoreCurric/Hyper Pneum/

4. Baldursson Ó, Arnar DO. Notkun tölvutækra gagna og margmiðlunar við kennslu í klínískri lyflæknisfræði. Læknablaðið 1997; 83: 588-9.

Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica