Umræða fréttir

Nýi Barnaspítalinn að verða tilbúinn. Skynsamlegt hús fyrir góða starfsemi

- segir Ásgeir Haraldsson prófessor um nýbyggingu Barnaspítala Hringsins



Það má meta þjóðfélög eftir því hvernig þau búa að veikum börnum sínum. Þessi orð eru Ásgeiri Haraldssyni prófessor og forstöðumanni á Barnaspítala Hringsins töm á tungu. Nú þegar hillir undir nýjan barnaspítala á Landspítalalóðinni er það niðurstaða hans að með byggingunni sé stigið skref í þá átt að Ísland standist slíkt próf.

Undir lok janúar rætist langþráður draumur margra þegar nýtt og glæsilegt húsnæði verður tekið í notkun. Læknablaðið tók forskot á sæluna og fékk Ásgeir til að sýna blaðamanni húsakynnin á miðri aðventu. Þá voru iðnaðarmenn enn að störfum, lítill sem enginn búnaður kominn á sinn stað og hæðirnar fjórar mislangt á veg komnar. Sama dag var nýtt listaverk afhjúpað en það er gert af Sigurði Guðmundssyni myndlistarmanni og er einkar glæsilegt.

Það leyndi sér ekki að Ásgeir er stoltur og ánægður með nýja húsið. "Hér er enginn íburður en allt ákaflega vel gert og fallega. Þegar við hófum undirbúning að byggingu hússins kölluðum við til ýmsa hópa starfsfólks og notenda og báðum þá að búa til ítarlega þarfagreiningu. Flestir starfsmenn tóku þátt í þeirri vinnu. Þessi góði undirbúningur er nú að skila sér. Hér er öllu haganlega fyrir komið, gott pláss og margir hlutir hafa tvennan og jafnvel þrennan tilgang," segir hann.





Fjölbreytt starfsemi

Þegar blaðamaður hafði samband við Ásgeir var honum stefnt á vökudeildina á kvennadeildinni þar sem fyrirburum og öðrum nýburum sem fylgjast þarf með er sinnt. Tilgangurinn var að sýna muninn en þegar blaðamann bar að garði voru þar 10 börn á deild sem með réttu ætti að rúma tvö til þrjú börn. Starfsfólkið þurfti að smeygja sér á milli rúma og augljóst að til þess að allt gengi upp þurfti samkomulagið að vera gott.

Svo lá leiðin yfir í nýja húsið sem tengist kvennadeildinni (sem hét nú reyndar fæðingardeild þegar blaðamaður kom þar í heiminn um miðja síðustu öld) á tveimur stöðum. Fæðingarstofurnar verða áfram á sínum stað á efstu hæð en gjörgæslan og hágæslan verður rétt handan við hornið í nýja húsinu. Þar hefur þessi starfsemi tvær stórar stofur til umráða, hvora um sig öllu stærri en núverandi deild og eru þá ótaldar geymslur og annað stoðrými.

Húsaskipan er að öðru leyti með þeim hætti að á neðstu hæð er bráðamóttaka ásamt göngu- og dagdeildum. Þar er einnig kaffitería sem Hringurinn mun starfrækja og verður hún opin öllum starfsmönnum og almenningi. Þar verður flygill og aðstaða til tónleikahalds sem ætlunin er að verði fastur liður í starfi spítalans. Þessi hæð tengist svo öðrum hlutum spítalans um undirgöng en þar sem þau hefjast verður kennslustofa og "auditorium", sérbúinn fyrirlestrasalur fyrir allan Landspítalann sem tekur á annað hundrað manns í sæti, raunar sá fyrsti sem rís við spítalann.

Á annarri hæð verða skrifstofur, skóli, leikskóli, kapella og fleira, allt saman starfsemi sem á það sammerkt að þurfa ekki "gas eða súr" úr vegg eða sérstakan sjúkrahúsbúnað.

Á þriðju hæð eru lyflækningadeild og barnaskurðdeild, sú eina sinnar tegundar hér á landi. Einnig er þar stofa þar sem hægt verður að taka á móti brunasjúklingum sem þurfa að vera í einangrun. Þar er legudeild með einbýli og tveggjamanna stofur, dagstofa þar sem börnin og aðstandendur geta matast og fleira.

Á efstu hæð er svo vökudeildin og lyflækningadeild fyrir yngri börn. Á vökudeildinni eru meðal annars tvær gjörgæslustofur, fyrir fjögur eða sex börn þar sem einnig verður hægt að gera minniháttar skurðaðgerðir. Hins vegar er hágæsla þar sem rúm er fyrir allt að 12 börn sem ekki þurfa að vera í öndunarvél. Á þeirri hæð verður einnig hægt að taka við hópum sem þurfa að vera í einangrun.



Aðstaðan batnar umtalsvert

Að sögn Ásgeirs verða legurúm á spítalanum um það bil 80 talsins sem er svipað og á núverandi barnadeildum. Þótt rúmunum fjölgi ekki mun öll aðstaða til að sinna veikum börnum batna verulega, svo ekki sé minnst á það hversu miklum framförum allur aðbúnaður að börnum og aðstandendum þeirra tekur.

Auðheyrt er á honum að mikið hefur verið lagt upp úr því að gera vist barna og unglinga sem þarna þurfa að dvelja sem bærilegasta. Inni á öllum stofum eru sófar fyrir foreldra þar sem þeir geta lagt sig yfir nótt ef svo ber undir. Auk þess eru herbergi á nokkrum stöðum fyrir foreldra, meðal annars tvö með eldunaraðstöðu þar sem mamma getur eldað grjónagrautinn fyrir Nonna sinn. Eitt herbergi er ætlað unglingum en þar geta þeir tekið á móti gestum. Þar er allt til alls: sjónvarp, tölva og stereógræjur. "Þau geta bara lokað að sér og spilað Rammstein," segir Ásgeir. Við hvert rúm eru líka lagnir fyrir sjónvarp og tölvu og fyrir yngri börnin er ævintýraherbergi með tilheyrandi búnaði.

Á spítalanum verður starfræktur grunnskóli og leikskóli fyrir börn sem þar dvelja. Kennarar eru starfandi á Barnaspítalanum og hafa yfir að ráða fjarfundabúnaði svo börnin geti verið í beinu sambandi við skólann sinn og fylgst með bekkjarfélögunum. Fjarfundabúnaður verður einnig fyrir starfsfólk spítalans, til dæmis lækna sem fara fjórum sinnum á ári á nokkrar heilsugæslustöðvar á landsbyggðinni og geta svo sinnt eftirfylgninni með því að vera í fjarfundasambandi.



Smekkvísi og útsjónarsemi

Ásgeir hleður arkitekta hússins miklu lofi en þeir eru hjónin Sigríður Magnúsdóttir og Hans Olav Andersen á Teiknistofunni Tröð. Hann segir að þau hafi reynst ákaflega smekkvís og útsjónarsöm enda beri byggingin þess merki. Undir þau orð er hægt að taka því húsið er afskaplega fallegt. Veggirnir eru að sjálfsögðu flestir hvítir eins og á öðrum sjúkradeildum en hvíti liturinn er brotinn upp með ýmsu móti, ekki síst með viði sem er mjög áberandi og notaður á nýstárlegan hátt. Gluggar eru stórir og standa gjarnan út úr veggnum sem eykur sjónsviðið verulega.

Margt er athyglisvert í búnaði spítalans. Til dæmis er loftræstingu þannig háttað að hægt er að stjórna loftstraumi inn eða út úr herbergjum með því að mynda ýmist undir- eða yfirþrýsting. Með því móti er hægt að sporna gegn því að bakteríur berist inn eða út úr herbergjum.

Ásgeir leggur áherslu á að þótt spítalinn sé vissulega vel búinn sé þar enginn íburður. Hann sýnir blaðamanni skrifstofur sem eru 11 m2 að stærð og hýsa almennt tvo lækna. "Þetta er fyrst og fremst skynsamlegt hús fyrir góða starfsemi," segir Ásgeir og full ástæða til að óska honum og raunar okkur öllum til hamingju með nýja Barnaspítalann.



Staðreyndir um spítalann:

Flatarmál: 6800 m2 á fjórum hæðum

Sex deildir með um 80 legurými

Kostnaður: 1.500 milljónir króna. Þar af leggur Hringurinn fram 150 milljónir króna, auk 50 milljóna sem renna eiga til tækjakaupa

Arkitektar: Teiknistofan Tröð, Sigríður Magnúsdóttir og Hans Olav Andersen

Aðalverktaki: ÓG Bygg

Húsið verður tekið formlega í notkun á 99 ára afmæli Hringsins 26. janúar næstkomandi

Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica