Umræða fréttir

Minning. Arinbjörn Kolbeinsson

heiðursfélagi LR og LÍ - Fæddur 29. apríl 1915 - Dáinn 19. nóvember 2002Arinbjörn Kolbeinsson var í ritstjórn Læknablaðsins árin 1970 til 1976 og er hans minnst hér meðal annars og sérstaklega af því tilefni.

Hann var ritari í stjórn Læknafélags Reykjavíkur 1957 til 1959 og síðan formaður félagsins 1959 til 1963.

Á þessu tímabili urðu tvenn afar mikilvæg umskipti á högum lækna: Annars vegar var sérfræðingum gert kleift að beita þekkingu sinni, án þess að vera neyddir til þess að stunda jafnframt heimilislækningar og hins vegar fékkst það staðfest af kjaradómi sumarið 1963 að þar eftir skyldi greitt refjalaust fyrir vaktir.

Samtímis var unnið ötullega innan læknasamtakanna að tillögum um endurbætur á heilbrigðisþjónustunni og innan LR starfaði sérstök læknisþjónustunefnd, sem átti mjög samleið með Læknisþjónustunefnd Reykjavíkurborgar. Í nóvember 1965 fóru þrír læknar til Norðurlandanna og Englands til þess að kanna skipulag þjónustunnar á þeim slóðum, þeir Arinbjörn Kolbeinsson, tilnefndur af LR, Þórarinn Guðnason, tilnefndur af LÍ, og Páll Sigurðsson, tilnefndur af Reykjavíkurborg. Skýrsla þeirra félaga birtist í Læknablaðinu í desember sama ár og er hún enn holl lesning þeim, sem velta fyrir sér lausnum á því vandræðaástandi, sem á ný ríkir í læknisþjónustunni.

Sumarið 1966 birtust skýrsla og tillögur Læknisþjónustunefndar Reykjavíkurborgar, sem læknasamtökin áttu aðild að, og skömmu síðar voru settar fram fyrstu hugmyndir um skipulag heilsugæzlunnar á landsbyggðinni til langframa, en þá blasti við hrun þjónustunnar þar vegna búferlaflutninga fjölda héraðslækna á höfuðborgarsvæðið og nánast engrar nýliðunar.

Þegar Arinbjörn varð formaður LÍ sumarið 1967 tók hann þegar höndum saman við landsbyggðarlæknana og skömmu síðar var haldin ráðstefna um vanda landsbyggðarinnar og voru þar kynnt glæný gögn, sem sýndu, svo ekki varð um villzt, að við svo búið mátti ekki standa. Smiðshöggið á stefnu LÍ var síðan rekið með síðari ráðstefnunni í Domus Medica haustið 1968.

Læknafélag Íslands studdi heils hugar undirbúning laga um heilbrigðisþjónustu og ekki spillti fyrir framgangi frumvarpsins, sem lagt var fram til kynningar 1971, að þar voru þeir enn samstíga ferðafélagarnir frá 1965.

Kynni mín af Arinbirni hófust þegar ég kom á Barónsstíginn eftir fyrsta hluta próf fyrir rúmum fjórum áratugum og samstarf okkar hófst í stjórn LÍ 1967. Þá þegar fór af honum mikið orð sem félagsmálamanni og fljótlega komst ég að raun um það, að hann var eldfljótur að átta sig á flóknum málum og skynja hvert hugur viðmælenda stefndi. Þegar hann hafði bætt við sínum viðhorfum, var jafnan komizt að niðurstöðu í anda þess, sem Bismarck hafði á orði, að stjórnmál eru list hins gerlega. Þegar ákveðið hafði verið hvað gera skyldi, kunni Arinbjörn þá list einnig, að láta öðrum eftir að framkvæma.

Ég þakka það að hafa átt samfylgd með honum um hríð og óska læknasamtökunum þess, að þau eignist marga hans líka.

Örn Bjarnason

Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica