Umræða fréttir

Íðorð 151. Læknablaðið

Hannes Petersen (Lbl 2002; 88: 183) og Tómas Guðbjartsson (Lbl 2002; 88: 471) birtu hófsamar og málefnalegar ritstjórnargreinar sem lýsa áhyggjum þeirra af framtíð Læknablaðsins sem vísindarits. Bæði þeir og blaðið eiga betra skilið en hvatskeytlega athugasemd Sigurbjörns Sveinssonar í þættinum Af sjónarhóli stjórnar LÍ (Lbl 2002; 88: 579): Áhugi okkar á íslenskri tungu og menningu, nýyrðasmíð og fleiru af því tagi má ekki ganga af Læknablaðinu dauðu. Örn Bjarnason tók svo upp hanskann fyrir íslenskustefnu Læknablaðsins (Lbl 2002; 88: 887) og er ekki miklu við það að bæta. Nokkrar athugasemdir má þó gera frá sjónarhóli pistlahöfundar.



Íslenska eða ekki!

Margoft hefur komið fram að það er stefna Læknablaðsins að birtar greinar séu á góðu íslensku máli, með öðrum orðum að íslenskað sé allt sem íslenskað verður. Þessi eindregna stefna hefur að mati undirritaðs haft æskileg og hvetjandi áhrif á þróun hins íslenska læknamáls. Stefnan leyfir starfsmönnum blaðsins þó ekki annað en að sýna fulla háttvísi í samskiptum sínum við greinarhöfunda þegar settar eru fram tillögur um endurbætur. Sömuleiðis er engin ástæða til að forðast að birta erlent fræðiheiti í sviga þegar notað er íslenskt íðorð eða heiti sem ekki er læknum tamt.

Undirritaður þykist hafa veitt því athygli að íslenskustefna Læknablaðsins hefur smitað yfir í ýmislegt annað efni sem læknar láta frá sér fara. Þannig eru fyrirlestrar og fræðsluefni nú almennt á betra máli en var fyrir 20 árum. Sömuleiðis er áberandi hvað meira er af íslenskum heitum á glærum og myndum sem læknar nota um leið og þeir flytja fræðileg erindi og fyrirlestra. Enn heyrast að vísu kvartanir um að læknar tali við sjúklinga sína á latínuskotnu fræðimáli. Ef marka má lesendabréf og frásagnir pistlahöfunda dagblaðanna, er þetta mest áberandi á stofugangi á stóru stofnununum. Læknum til afsökunar má segja að þar er ýmislegt sagt sem ekki er sjúklingum ætlað. Útskýringar og orð lækna sem beint eru ætluð sjúklingum þeirra eiga þó að sjálfsögðu að vera á máli sem þeir síðarnefndu eiga kost á að skilja.



Orðanefndin

Orðanefnd læknafélaganna og einstakir meðlimir hennar hafa unnið mikið starf frá því ákveðið var að hefja söfnun og útgáfu læknisfræðilegra íðorða árið 1977. Orðanefndin var þó ekki formlega stofnuð fyrr en árið 1983. Skipuleg vinna við Íðorðasafn lækna stóð yfir í tíu ár, eða frá 1979 til 1989 er síðasta hefti safnsins kom út. Strax var þá hafist handa við að þýða hin alþjóðlegu heiti, Nomina anatomica, Nomina embryologica og Nomina histologica, sem komu út í þremur myndarlegum bókum, Líffæraheiti, Fósturfræðiheiti og Vefjafræðiheiti, á vegum Orðabókarsjóðs læknafélaganna árið 1995. Að því loknu var gerður samningur við Heilbrigðisráðuneytið og tekin fyrir þýðing á Alþjóðlegu sjúkdómaflokkuninni, ICD-10. Því verkefni tókst að ljúka á einu ári með mikilli vinnu nefndarmanna og aðstoð lækna í mörgum sérgreinum. Þýðingin kom út í stórri bók árið 1996. Að öllum þessum verkefnum loknum kenndi þreytu meðal nefndarmanna og flestir voru fegnir að gefa öðrum hugðarefnum tíma sinn. Undanfarin ár hefur orðanefndin því lítið starfað og jafnvel er ekki ljóst hvaða læknar teljast meðlimir hennar. Nú er hins vegar komin fram ákveðin hugmynd að rafrænni útgáfu Íðorðasafnsins og til þess að hún geti orðið að veruleika verður að endurlífga nefndina og endurskoða allt safnið í skilgreindum áföngum.



Pistlarnir

Regluleg ritun íðorðapistla hófst árið 1990 að undirlagi Arnar Bjarnasonar, þáverandi formanns orðanefndar og ábyrgðarmanns Læknablaðsins. Frá upphafi var ljóst að undirritaður skrifaði sem einstaklingur, birti sínar eigin skoðanir og hefði frjálst val um efni og efnistök. Á fyrstu árunum var þó stundum birt efni frá nefndinni, ýmist niðurstöður eftir umfjöllun um ákveðin efni eða beiðni um tillögur að úrlausnum vegna þeirra viðfangsefna nefndarinnar sem voru í vinnslu. Ritstjórn Læknablaðsins hefur fram til þessa veitt skrifunum fullt brautargengi og gert sér grein fyrir því að pistlarnir eru hvorki fagurbókmenntir né vísindagreinar. Undirritaður hefur þó leitast við að beita fræðilegum vinnubrögðum með því að tilgreina heimildir þegar við á og með því að tilgreina uppruna hinna erlendu orða og útskýra rækilega merkingu orða og orðhluta.

Aðalmarkmiðið hefur ávallt verið að halda umræðu um íslensk læknisfræðiheiti lifandi. Það er bjargföst skoðun undirritaðs að læknar eigi að geta talað og ritað á íslensku um fræðigrein sína. Því þarf stöðugt að vinna að íslenskun erlendra heita í þeim tilgangi að hafa til taks nothæf íslensk fræðiheiti. Læknisfræðin og tengdar greinar eru botnlausar uppsprettur nýrra hugmynda og nýrrar þekkingar, sem tjá þarf í skiljanlegum orðum. Fræðimálið verður því að vera í stöðugri þróun, bæði hvað varðar heitin sjálf og einnig skilgreiningar hugtaka. Sem betur fer hefur fjöldi lækna og annarra heilbrigðisstarfsmanna tekið þátt í þessu starfi með því að senda undirrituðum tillögur að verkefnum og hugmyndir að úrlausnum. Skulu þeim öllum færðar bestu þakkir fyrir.

Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica