Umræða fréttir
  • Árni Björnsson

Tæpitungulaust: Af heilsufasisma Medical Nemesis heimsótt á ný

Ég fór í BorgarleikhúsiÐ snemma á liðnu vori. Ekki til að njóta leiklistar, heldur til að hlusta á unga konu sem er heimspekingur flytja fyrirlestur um siðfræði klónunar.

Þetta var góður fyrirlestur og ungi heimspekingurinn flutti hann vel og skilmerkilega. Efnið er mjög áhugavert, bæði frá vísindalegu og siðfræðilegu sjónarmiði, en það var ekki það sem varð til þess að ég hef aftur og aftur hugsað til þessa kvölds. Heldur var það orð sem annar heimspekingur og siðfræðingur lét falla, á fundinum, en það var orðið "heilsufasismi". Ég hrökk dálítið við, þegar ég heyrði orðið, ekki síst vegna þess að sá sem sleppti því útúr sér hefur verið settur í forsvar fyrir Íslandshluta margþjóðlegrar nefndar sem fjalla á um siðfræði gagnagrunna á heilbrigðissviði.

Prófessorinn skilgreindi hvað hann ætti við með orðinu, en það væri tilhneiging í þjóðfélaginu til að leggja allt undir til að viðhalda heilsu, en heilsa væri almennt illa skilgreint hugtak.

Í Íslensku alfræðibókinni stendur. "Orðið fasismi er oft notað sem skammaryrði um öfgakenndar skoðanir sem réttlæta beitingu ofbeldis í stjórnmálum og alræði" (1). Samkvæmt þessu ætti heilsufasismi að vera eins konar heilsufarsofbeldi, en hvernig getur heilsufar tengst ofbeldi? Er hægt að neyða menn til að vera heilbrigðir og þá komum við að skilgreiningu á heilsu og eða heilbrigði. Samkvæmt orðabókinni, en þar er vitnað í skilgreiningu Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar, WHO, er heilbrigði "ástand sem einkennist af fullkominni vellíðan í líkamlegum, andlegum og félagslegum skilningi en ekki aðeins það að vera laus við vanlíðan og sjúkdóma" (1). Rök má færa fyrir því, að þessi skilgreining WHO sé ærið metnaðarfull en heilbrigðisáætlun íslensku ríkisstjórnarinnar fyrir ársins 2000 tók mið af henni en þar stendur að stefnt skuli að því að Íslendingar verði heilbrigðir á því herrans ári (2). Þessi áætlun var, sem betur fer fyrir ríkissjóð landsins, ekki bundin í lög, því sennilega ættu margir hönk uppí bakið á ríkissjóði nú árið 2002. Nú hefur önnur heilbrigðisáætlun litið dagsins ljós, til ársins 2010 (3). Skyldi hún tengjast áætlun um flutning Reykjavíkurflugvallar sama ár? Standist hún jafn vel og sú fyrri er betra að menn geri sér ekki of háar vonir. Gæti svona áætlanagerð flokkast undir heilsufasisma (einskonar heilsufræðilegt alræði)? Hvað sem öðru líður hlýtur hún að teljast útópía og þá má enn spyrja, hvort hægt sé að gera stjórnmálamenn ábyrga fyrir útópíum? Líklega ekki því þá væru bekkirnir í hinu háa Alþingi jafnvel þunnskipaðri en þeir eru stundum. Þegar svona áætlanir eru gerðar er viturlegt að setja fyrirvara enda byrja flestar málsgreinar áætlunarinnar á orðunum "stefnt skal að". Líklega hafa höfundarnir lært af eiturlyfjafyrirheitinu sællar minningar.

Það var heimspekingurinn Ivan Illich sem í bók sinni Medical Nemesis frá 1975 (Nemesis var hefndargyðja í grískri goðafræði sem refsaði Ólympsgoðum fyrir ofdramb) bar fram kenninguna um læknisfræðivæðingu (medicalization) vestrænna þjóðfélaga, og benti á að læknavísindin hefðu með iðnvæðingunni snúist í andhverfu sína og stuðluðu jafn mikið að vanheilsu sem heilsu, auk þess sem hún hefði stuðlað að enn meiri misskiptingu milli ríkra og fátækra. Kenningar hans þóttu þá öfgafullar og voru harðlega gagnrýndar af læknastéttinni og fleirum tengdum heilsu, af atvinnu- eða hugsjónaástæðum.

Hér á landi var læknastéttin tómlát um bókina því það er íslensk læknastétt oftar en ekki um prinsípmál. Hörður Bergmann kennari og þjóðfélagsgagnrýnandi vakti athygli á bókinni en mætti tómlæti bæði læknastéttarinnar og stjórnmálamanna, svo umræðan kafnaði fljótt í dæmigerðri íslenskri meðalmennsku. Þó er full ástæða til að skoða kenningar Illich aftur í ljósi þróunar síðustu áratuga síðustu aldar og fyrstu ára aldarinnar sem er að byrja. Hafði Illich rétt fyrir sér í grundvallaratriðum þó hann gæti ekki spáð fyrir um tæknilega þróun í læknavísindum á síðustu árum sem er örari en nokkru sinni í sögu mannkynsins og hverju sú þróun í vísindum ásamt hnattvæðingunni hefur breytt?

Ég ákvað að lesa rit Illichs Medical Nemesis að nýju og reyna að skoða niðurstöður hans í ljósi þess sem gerst hefur í vísindum á síðustu árum og áratugum og skoða hvort kenningar hans og fullyrðingar hafa staðist, með tilliti til vísindaþróunarinnar og þeirra þjóðfélagsbreytinga sem markast mjög af frjálshyggju og alþjóðahyggju og lita viðhorf manna í mun meira mæli en þegar bókin var skrifuð. Hefur sú meginfullyrðing höfundar að læknisfræðivæðingin gerði meiri skaða en gagn staðist eða hafa vísinda- og tækniframfarir síðan bókin kom út ómerkt kenningar hans?



En snúum okkur að kenningum Illich. Hann hélt því fram að framfarir í læknavísindum, tæknilegar og fræðilegar síðustu 15-20 ár, það er að segja fram að útkomu bókarinnar um miðjan áttunda áratuginn, hafi engu skilað í bættri almennri heilsu og að í stað ýmissa sjúkdóma sem tekist hafi að lækna eða jafnvel útrýma hafi komið aðrir sjúkdómar, sérstaklega aldurstengdir, svo og tengdir beitingu læknavísindanna, (iatrógenir sjúkdómar). Þá hafi heilbrigðisstéttir og stéttir tengdar þeim stuðlað að sívaxandi læknisfræðivæðingu í takti við og í framhaldi af iðnvæðingunni. Læknisfræðivæðingin felur í sér að almenningur verður háður lækningum frá vöggu til grafar. Þegar á heildina er litið hafi þessi þróun ekki leitt til betri lýðheilsu, en hún hefur lengt ævina að minnsta kosti í þróuðum löndum og með enn frekari þróun í þá átt muni "bætt" tækni og meiri þekking snúast upp í andhverfu sína. Illich heldur því fram að það sé ekki hlutverk heilbrigðisstétta að stýra lífi fólks heldur sé hlutverkið að gefa ráð byggð á þekkingu og reynslu en einstaklingurinn sjálfur skal ráða því hvort hann hlítir þeim ráðum. Það beri að leggja áherslu á ábyrgð manns á eigin lífi. Þá vildi Illich meina að hin mikla lækningatækni hefði í för með sér lækningatengda (iatrógen) sjúkdóma sem í mörgum tilvikum væru verri en þeir sjúkdómar sem verið væri að lækna. Þá leiddu dýrar tæknilækningar auðugu þjóðanna til þess að þjóðir fátækra landa fengju minni og verri bráðnauðsynlega læknishjálp og þetta gilti um allar lækningar. Hlutur lyfjafyrirtækjanna í leiknum væri að þau framleiddu sífellt dýrari lyf fyrir ríku þjóðirnar en lyfjasveltu hinar fátækari auk þess sem lyfin sem þær fengju væru lakari.

Það sem hér er talið er aðeins hluti af því sem Illich taldi læknisfræðivæðingunni til foráttu, en áhugasamir geta án efa nálgast bókina.

Þegar Medical Nemesis kom út voru erfðavísindin í núverandi mynd að slíta barnsskónum. Með tilkomu þeirra jókst trúin á mátt læknavísindanna enn frekar. Með þróun þeirra og notkun í lækningaskyni gátu menn hugsanlega komið í veg fyrir ýmsa sjúkdóma sem hrjá menn einkum í lengdri elli, jafnvel lengt mannsævina. Sú mikla bjartsýni sem ríkti um þessar lækningar á síðasta tug síðustu aldar og fram á þessa öld leiddi til grófustu heilsufasísku aðgerða sem gerðar hafa verið, sem var lögleiðing gagnagrunns á heilbrigðissviði á Íslandi. Þegar við sjálftekið ríkiseignarhald á heilbrigðisupplýsingum einstaklinga bættist það að ríkið ákvað með lagasetningu að framselja ákveðnu erlendu fyrirtæki þessar upplýsingar svo þær mættu nýtast því í ágóðaskyni voru hinar heilsufasísku aðferðir fullkomnaðar.



En geta aÐrar aÐgerÐir undir merki lýðheilsu leitt til enn frekari heilsufasisma? Það hefur lengi verið eitt af siðfræðilegum álitamálum í læknastétt hversu langt læknar eigi að ganga í því að reyna að stjórna lífi einstaklingsins. Í siðareglum lækna stendur að læknar eigi ekki að gefa sjúklingum sínum önnur ráð en þau sem þeir vita að eru virk. Það er svo sjúklingsins að ákveða hvort hann fer eftir ráðunum. Í framkvæmd leiðir þessi regla oft til tvíhyggju. Sú hefð hefur skapast að sjúklingar skuli hlíta ráðum læknis. Og flestir beygja sig undir þessa hefð. Sjúklingur sem efast um ráð læknis síns verður sjaldnast vinsæll hjá lækni eða læknum sínum. Í raun er hann ekkert að gera annað en að nýta sér skýlaus réttindi og læknirinn ætti að fagna því að hann er að fást við hugsandi mann.

Í nútímaþjóðfélagi er sú hætta fyrir hendi að forsjárhyggja lækna smiti allt heilbrigðiskerfið og um leið þá stjórnmálamenn sem stjórna kerfinu. Í sumu minnir til að mynda heilsugæslukerfið okkar á einokunarverslunina, sællar minningar. Fólki er ekki frjálst að leita til þess læknis sem það treystir best eða óskar eftir. Heilsugæslustöð er nánast eins og hverfisverslun sem býður ákveðið úrval af vörum en kaupandinn sem kemur með innkaupalista ræður því ekki hvaða vöru hann kaupir, því ræður afgreiðslumaðurinn. Í samskiptum sjúklinga og lækna er þetta að vissu leyti eðlilegt því sjúklingurinn veit í raun ekki hvað hann er að kaupa. Þetta hefur þó breyst því að nú geta menn farið inn í tölvuna sína og fengið upplýsingar um sjúkdómseinkenni og sjúkdóma en sá er galli á gjöf Njarðar að ekki er alltaf hægt að treysta áreiðanleika upplýsinganna sem oft stangast á. Upplýsingar um heilsu og heilbrigði og kenningar um hollustu og óhollustu þessa og hins dynja á hinum almenna borgara svo hann veit ekki sitt rjúkandi ráð. Af þessu leiðir enn fremur að alls kyns skottulækningar og sala skottulyfja blómstra sem aldrei fyrr Þannig ástand er gróðrarstía fyrir allar tegundir af heilsufasisma. Heilsufarslegu valdi er beitt, fyrst af hálfu lækna, svo annarra heilbrigðisstétta og loks ríkisvaldsins og fjármagnsins. Það er auðvelt að drottna yfir fólki sem ekki veit sitt rjúkandi ráð.

Þróunin er sú að stjórnmálamenn ráðskast meira og meira með heilbrigðisþjónustuna og heilbrigðisstarfsmenn og starfsmennirnir láta stjórnmálamennina ráðskast með sig ef þeir fá "hæfileg" laun. Prinsíp falla stöðugt í verði.



Í ræÐu sem ritari þessa pistils hélt á 75 ára afmæli Læknafélags Íslands benti hann á þá þróun að ábyrgð og umönnun um sjúkt fólk færðist í vaxandi mæli í hendur fólks sem aldrei hefði séð sjúklinga, hvað þá annast þá. Með því að gera umönnun sjúklinga meira og meira háð fjármálavaldi stjórnmálamanna skekkjast þær þjóðfélagslegu viðmiðanir um forgangsröðun sem gilt hafa í heilbrigðiskerfinu. Misvandaðir áhrifamenn innan heilbrigðiskerfisins geta með misviturlegum ráðum sem þjóna þeirra eiginhagsmunum haft áhrif á ákvarðanatöku stjórnmálamanna í krafti sérþekkingar sem getur nýst á þröngu sviði en nær ekki yfir það allt.

Læknavísindin stefna ekki lengur að því að lækna og lina þjáningar einstaklingsins heldur því að leita að nýjum lyfjum til að lækna sjúkdóma eða heilsufræðileg afbrigði frá meira eða minna eðlilegu ástandi sem breytist eftir umhverfi okkar. Læknavísindin munu aldrei, að minnsta kosti ekki með núverandi aðferðum, stuðla að því sem við gætum kallað almenna heilsu og sem byggist á því að lifa í sátt og samlyndi við sjálfan sig og umhverfi sitt.

Sjúkdómum verður ekki útrýmt. Til þess þyrfti að breyta einstaklingunum þannig að lækningaaðferðir gætu orðið altækar, það er að segja gera alla menn eins andlega og líffræðilega. Sú stefna sem nú er í tísku meðal lífeðlisfræðinga og lyfjaframleiðenda að skraddarasauma lyf handa hverjum einstaklingi er heimskuleg og getur orðið hættuleg fyrir framtíð mannkynsins, enda mundu slík einstaklingstengd lyf vera svo dýr að aðeins hinir ríkustu mundu geta veitt sé slíkan munað. Enn ein aðferðin til að breikka bilið milli ríkra og fátækra.



En snúum okkur aftur að Illich og kenningum hans. Í upphafi sagði ég frá því hvað orðið nemesis þýddi. en ég ætla að gera nánari grein fyrir því annarri þýðingu Illich úr grískri goðafræði en hún fjallar um Tantalus konung sem guðirnir buðu í mat á Ólympstindi. Hann stal "Ambrósíu", ódáinsfæðu guðanna. Þeir refsuðu honum með eilífri vist í Hadesar-heimum og dæmdu hann til að þola eilíft hungur og þorsta. Þegar hann beygir sig niður til að drekka úr ánni sem hann stendur í lækkar varnsborðið og þegar hann teygir hendurnar upp eftir ávöxtum á greinunum fyrir ofan hann hækka greinarnar upp fyrir seilingarhæð hans. Atferlisfræðingar gætu litið svo á að refsinornir læknifræðivæðingar hafi dæmt hann í ævilanga sjálfsáskapaða refsivist.

Það sem Illich á við er að læknisfræðivæðingin hafi skapað þörf fyrir "Ambrósíu". Okkur dreymir um ódáinsfæðu sem heldur okkur ungum og frískum til æviloka og við erum jafnvel reiðubúin til að fresta þeim lokum.

Á áttunda og níunda áratugnum reið alda öreindaerfðafræðinnar yfir lækningaheiminn. Í henni hefur læknisfræðivæðingin (medical nemesis) náð hámarki. Í samfloti með lyfjaiðnaðinum hefur öreindalíffræðin orðið hluti af iðnaði, sem ekki hlítir akademískum vísindasiðareglum og telst því frekar til iðnaðar en vísinda.

Hvað þetta snertir hafa kenningar Illich ekki aðeins orðið að veruleika heldur hefur medikalisasjónin gengið feti lengra og læknar misst stjórn á henni. Þeir sem ráða ferðinni í þessum þætti læknisfræðinnar eru eigendur hlutabréfa í lyfja- og líftæknifyrirtækjum og fyrirtækin fylgja sömu lögmálum og önnur fyrirtæki þar sem ágóðasjónarmiðið ríkir ofar hverri kröfu. Hér skapast grundvöllur bæði fyrir lækningafasisma og lækningakapítalisma.

Illich var mjög gagnrýninn á forvarnir og taldi þær leiða til aukinnar læknisfræðivæðingar og að þær gerðu takmarkað gagn. Um læknisfræðivæðingu forvarna segir hann.

"Eftir því sem lækningar hafa í vaxandi mæli beinst að meðferð sem er gagnslítil, dýr og sársaukafull hafa forvarnir gegn sjúkdómum orðið að tísku fyrir tilstilli líkamsviðhaldsmanna."

Forvarnir stuðla að því að gera heilbrigða einstaklinga að sjúklingum með því að uppgötva sjúkdóma eða forstig sjúkdóma, helst þegar á fósturskeiði, sem annaðhvort hefðu ekki valdið einstaklingnum neinum skaða eða læknast af sjálfu sér. Það að taka slíkt ástand til meðferðar leiðir svo í meira eða minna mæli til vandamála tengdum meðferðinni, sem geta gert þann sem var áður frískur verður að ævilöngum sjúklingi.

Voru kenningar Illich réttar eða rangar? Bæði og. Réttar hvað það snertir að læknisfræðivæðing tröllríður nútíma menningarþjóðfélögum. Rangar hvað það snertir hverjir ráða ferðinni. Læknar og aðrar heilbrigðisstéttir hafa misst tökin á þróuninni. Hún er komin í hendurnar á hinu yfirþjóðlega fjármálavaldi. Auðmagnið og þeir sem stjórna því ráða ferðinni. Heilbrigðisstéttirnar eru nú í hlutverki bakradda sem þjóna því hlutverki að styrkja kór heilsukapítalistanna. Þróunin leiðir ef svo heldur sem horfir til lækningafasisma sem ekki verður stjórnað af heilbrigðisstéttum heldur yfirþjóðlegu fjármagnsflæði, sem ákveður hverjir skuli njóta ávaxta læknavísindanna.





Heimildir

1. Íslenska alfræðibókin. Örn og Örlygur, 1990.

2. Íslensk heilbrigðisáætlun til ársins 2000.

3. Íslensk heilbrigðisáætlun til ársins 2010.

4. Illich Ivan. Medical Nemesis, Open Forum/Ideas in Progress. Marion Boyars publisher. 1975.

Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica