Fræðigreinar
  • Tafla I
  • Tafla II
  • Tafla III
  • Tafla IV
  • Tafla V
  • Tafla VI

Viðhorf skjólstæðinga til starfsendurhæfingar á vegum Tryggingastofnunar ríkisins

Ágrip

Tilgangur: Að kanna viðhorf matsþega til endurhæfingarmats og starfsendurhæfingarúrræða á vegum Tryggingastofnunar ríkisins (TR) og áhrif þessa ferlis á sjálfstraust og sjálfsbjargarviðleitni þeirra.

Efniviður og aðferðir: Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands kannaði viðhorf matsþega fyrir TR í október 2001. Reynt var að finna þá 109 einstaklinga sem metnir höfðu verið af matsteymi á árinu 2000 og tekið viðtal við þá í síma. Við úrvinnslu var notuð lýsandi tölfræði.

Niðurstöður: Svör fengust frá 83 (76,1%) af matsþegum. Fjörutíu (48,2%) hafði að tillögu matsteymis verið vísað í atvinnulega endurhæfingu á Reykjalundi, 19 (22,9%) á tölvunámskeið í Hringsjá og 15 (18,1%) í fullt starfsnám í Hringsjá. Um fjórir af hverjum fimm reyndust ánægðir með þá starfsendurhæfingu sem TR hafði boðið þeim uppá á Reykjalundi eða í Hringsjá. Rúmlega helmingur þeirra sem metnir voru af matsteyminu töldu það hafa verið gagnlegt fyrir sig að hitta teymið og 59% matsþega töldu teymið hafa vísað á úrræði sem þeir vissu ekki um fyrir. Um helmingur þátttakenda sagði sjálfstraust sitt og sjálfsbjargarviðleitni hafa aukist frá því mat teymis fór fram.

Ályktun: Um 80% þeirra sem vísað var í starfsendurhæfingu á vegum TR voru ánægðir með hana og um helmingur hafði öðlast aukið sjálfstraust og aukna sjálfsbjargarviðleitni við endurhæfinguna.





English Summary

Thorlacius S, Guðmundsson GK, Jónsson FH



Opinions of clients on vocational rehabilitation organized by the State Social Security Institute of Iceland



Læknablaðið 2002; 88: 641-4



Objectives: Evaluation of opinions of those evaluated by a multidisciplinary team on the evaluation, vocational rehabilitation they participated in and on the effect of the process on their self-confidence and self-reliance.

Material and method: The Institute of Social Sciences carried out a telephone survey in October 2001, where it was attempted to contact the 109 individuals evaluated for rehabilitation potential by a multidisciplinary team in the year 2000. The data was analysed using descriptive statistics.

Results: 83 (76.1%) replied. After the evaluation 40 individuals were referred to vocational rehabilitation for approximately 2 months in a rehabilitation clinic; 19 were referred to a 6 week personal computer training at a vocational rehabilitation centre and 15 to a longer (usually 18 months) rehabilitation program in the same centre. Approximately 80% were content with the vocational rehabilitation offered. 54% of those evaluated by the multidisciplinary team said that it had been useful for them to meet the members of the team and 59% said that the team had informed them on resources they had not been aware of. Approximately half of the participants said that their self-confidence and self-reliance had increased.

Conclusion: Approximately 80% of the participants were content with the vocational rehabilitation offered and approximately 50% had gained more self-confidence and self-reliance.



Key words: vocational rehabilitation, evaluation of rehabilitation potential, multidisciplinary team.



Correspondance: Sigurður Thorlacius, sigurdur.thorlacius@tr.is




Inngangur

Kostnaður vegna örorku er mikill (1). Starfsendurhæfing er áhrifarík leið til að fyrirbyggja ótímabæra örorku (2-5). Því kom Tryggingastofnun ríkisins (TR) á fót teymi til að meta endurhæfingarmöguleika óvinnufærs fólks og gerði þjónustusamninga við Hringsjá (Starfsþjálfun fatlaðra) og Reykjalund um starfsendurhæfingarúrræði (6). Þetta endurhæfingarstarf hófst haustið 1999 og hefur reynst auka starfshæfni og draga úr örorku (7).

Endurhæfingarlæknir veitir matsteyminu forystu. Í því eru, auk læknisins, félagsráðgjafi, sálfræðingur og sjúkraþjálfari. Læknirinn ákvarðar hversu marga í teyminu hver og einn sem þangað er vísað þarf að hitta. Teymið metur hvort endurhæfing sé líkleg til að auka starfshæfni matsþega og ef svo er, hvernig henni verði best háttað. Teyminu er einnig ætlað að leiðbeina matsþegum um "frumskóg" velferðarkerfisins. Tillaga um tilvísun til teymisins getur komið frá tryggingalækni eða lækni utan TR. Tillögur um tilvísun til teymisins hafa verið afgreiddar á vikulegum samráðsfundi lækna TR.

Í atvinnulega endurhæfingu á Reykjalund koma einstaklingar sem hafa það að markmiði að snúa aftur til vinnu á almennum vinnumarkaði. Mikilvægt er að áður sé búið að takast á við þætti sem geta torveldað þessa endurhæfingu, svo sem ofneyslu lyfja eða ómeðhöndlaða sjúkdóma. Einstaklingarnir verða að vera tilbúnir til að fara í þessa endurhæfingu af heilindum og ytri aðstæður þurfa að vera heppilegar. Við komu á Reykjalund fer fram vinnuprófun og kortlagning á færniskerðingu og hæfni og styrkleikum hvers og eins. Að því loknu er gerður samningur um markmið og leiðir að settu marki. Unnið er einstaklingsbundið og í hópum. Mikil áhersla er á fræðslu og kennslu. Lögð er áhersla á að bæta líkamsvitund og vinnustellingar, auka vinnuþol og styrktar- og úthaldsþjálfun. Skjólstæðingurinn er aðstoðaður við að setja sér raunhæf markmið miðað við færni og getu. Megináhersla í endurhæfingunni er á vinnueflingu með því að auka vinnuþol með fræðslu, æfingum og vinnuprófun við ýmis verk, bæði innan staðar og utan. Einnig er lögð áhersla á vinnuaðlögun þar sem athugað er hvort hægt sé að breyta vinnuumhverfi, vinnutíma og vinnuferli. Veittur er stuðningur við atvinnuumsóknir og athugun á vinnumarkaði. Meðaldvalartími á Reykjalundi er um tveir mánuðir.

Í Hringsjá fer fram starfsendurhæfing fyrir einstaklinga sem vegna afleiðinga sjúkdóma eða slysa þurfa að endurmeta og styrkja stöðu sína á vinnumarkaði. Fólk fær kennslu, þjálfun og ráðgjöf sem miðar að því að það verði fært um að vinna störf á almennum vinnumarkaði eða takast á við frekara nám. Almenn þekking og færni er endurnýjuð og aukin eftir þörfum, en einnig er veitt sérhæfing sem tekur mið af skrifstofu- og þjónustustörfum, meðal annars með kennslu í tölvunotkun og bókhaldi. Raunhæft sjálfsmat, aukið sjálfstæði, sjálfstraust og þor og aukin lífsgæði eru einnig höfð að leiðarljósi. Staða einstaklingsins er metin og hann lærir að þekkja sjálfan sig betur, óskir sínar, hæfileika, getu og takmarkanir. Stundaskrá er fjórar til sex kennslustundir daglega. Einnig eru einstaklingsviðtöl hjá náms- og starfsráðgjafa og einstaklingviðtöl og umræðutímar hjá sálfræðingi. Hver einstaklingur er að jafnaði í starfsþjálfun í eitt og hálft ár. Auk þess er boðið uppá skemmri (30 til 60 kennslustunda) tölvu- og bókhaldsnámskeið. Kennt er í litlum hópum og getur hver unnið á sínum hraða. Nemendum námskeiða er boðið upp á náms- og starfsráðgjöf.

Til að meta viðhorf matsþega til endurhæfingarmatsins, til þeirra starfsendurhæfingarúrræða sem vísað var til í kjölfar þess og áhrif þessa ferlis á sjálfstraust og sjálfsbjargarviðleitni þeirra, var gerð viðhorfskönnun hjá þeim sem metnir voru af matsteyminu árið 2000. Það ár var fyrsta heila almanaksárið sem starfsemin fór fram.





Efniviður og aðferðir

Rannsóknin er byggð á viðhorfskönnun sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gerði fyrir TR í október 2001. Reynt var að finna þá 109 einstaklinga sem metnir höfðu verið af matsteymi á árinu 2000. Viðtölin voru tekin í síma. Þátttakendum var heitið nafnleynd og fullum trúnaði. Við úrvinnslu var notuð lýsandi tölfræði. Engar persónutengdar upplýsingar voru notaðar í úrvinnslu. Könnunin var gerð með vitund Persónuverndar.





Niðurstöður

Svör fengust frá 83 af 109 matsþegum, eða 76,1%. Brottfall (23,9%) mátti einkum rekja til þess að ekki náðist til viðkomandi, meðal annars vegna búsetu erlendis þegar könnunin fór fram eða að fólk vildi ekki taka þátt í könnuninni.

Allir 83 þátttakendurnir höfðu hitt endurhæfingarlækni, 80 (96%) félagsráðgjafa, 79 (95%) sjúkraþjálfara og 55 (66%) sálfræðing matsteymis. Fjörutíu einstaklingum (48%) hafði að tillögu matsteymis verið vísað í atvinnulega endurhæfingu á Reykjalundi, 19 (23%) á tölvunámskeið í Hringsjá og 15 (18%) í fullt starfsnám í Hringsjá.

Tafla I sýnir afstöðu til starfsendurhæfingar á Reykjalundi. Reyndist drjúgur meirihluti þátttakenda ánægður með fræðsluna þar og þær æfingar og verkefni sem þeir tóku þátt í og talsverður meirihluti var í heildina ánægður með endurhæfinguna.

Töflur II og III sýna afstöðu til starfsendurhæfingar í Hringsjá. Í töflu II sést að fjórir af hverjum fimm voru ánægðir með námsefni og allir með þann undirbúning sem fullt starfsnám veitti fyrir vinnu. Tafla III sýnir að 84,2% þátttakenda voru ánægðir með námsefni og þann undirbúning sem tölvunámskeið veitti fyrir vinnu og 63,1% voru í heildina ánægð með tölvunámskeiðið.

Einnig var könnuð þekking þátttakenda á þeirri endurhæfingu sem þeim stóð til boða. Eins og sést í töflu IV þá vissu fæstir (16,9%) hvaða möguleikar um endurhæfingu stóðu þeim til boða áður en þeir fóru í endurhæfingarmat. Taflan sýnir einnig að meirihluta (59,0%) var vísað á úrræði sem þeir vissu ekki um.

Þá var spurt um gagnsemi endurhæfingarinnar. Almennt séð voru viðmælendur jákvæðir til endurhæfingarmatsins áður en þeir fóru í það (63,9% voru jákvæðir en aðeins 15,7% neikvæðir). Eins og kemur fram í töflu V þá taldi tæplega helmingur (47%) að endurhæfingarmatið hefði verið gagnlegt og rúmlega helmingur (54,2%) taldi að gagnlegt hefði verið að hitta meðlimi matshópsins. Matið var í samræmi við væntingar hjá stórum hópi (38,9%), stóðst ekki væntingar nokkuð margra (34,9%) og fór fram úr væntingum sumra (20,5%).

Þátttakendur voru spurðir hvort sjálfstraust þeirra og sjálfsbjargarviðleitni hefði vaxið eða minnkað við að fara í gegnum þetta endurhæfingarferli (tafla VI). Eins og sjá má þá taldi tæpur helmingur (47,0%) að sjálfstraust hefði aukist og aðeins lítill hluti taldi að það hefði minnkað (10,8%). Þegar á heildina er litið hafði sjálfstraustið aukist hjá hópnum (M=5,7). Meiri áhrif voru á sjálfsbjargarviðleitni og taldi rúmlega helmingur að hún hefði aukist (53,8%) og mjög fáir töldu að hún hefði minnkað (6,2%). Þegar á heildina er litið var sjálfsbjargarviðleitni hópsins mun meiri eftir endurhæfinguna en áður (M=6,3).





Umræða

Fylgt var eftir þeim 109 einstaklingum sem metnir voru af endurhæfingarmatsteymi á árinu 2000 sem var fyrsta heila almanaksárið sem starfsendurhæfing á vegum TR fór fram. Konur voru í meirihluta matsþega (helmingi fleiri en karlar), stór hluti hafði ekki menntun umfram grunnskóla og stoðkerfisraskanir og geðraskanir voru helstu læknisfræðilegar forsendur tilvísunar til endurhæfingarmatsteymis (7). Þessi samsetning er sambærileg og hjá þeim sem orðið hafa öryrkjar á Íslandi á undanförnum árum (8-11). Starfsendurhæfingarúrræði TR taka mið af því að þetta fólk hefur almennt þörf fyrir frekari menntun til að bæta stöðu sína á vinnumarkaði.

Áttatíu af hundraði þeirra sem voru í starfsendurhæfingu á Reykjalundi reyndust ánægðir með fræðsluna sem þeir fengu þar, 75% voru ánægðir með æfingar og verkefni þar og 62,5% þátttakenda voru í heildina ánægðir með atvinnulegu endurhæfinguna á Reykjalundi. Af þátttakendum á tölvunámskeiði í Hringsjá reyndust 84,2% ánægðir með námsefnið og þann undirbúning sem námskeiðið veitti þeim fyrir áframhaldandi nám eða starf. Áttatíu af hundraði voru ánægðir með það námsefni sem var á dagskrá í fullu starfsnámi í Hringsjá og allir voru ánægðir með þann undirbúning sem starfsnámið veitti þeim fyrir áframhaldandi nám eða starf. Þannig eru um fjórir af hverjum fimm ánægðir með þá starfsendurhæfingu sem TR hefur boðið þeim uppá, sem hlýtur að teljast góð niðurstaða. Til samanburðar er rannsókn þar sem könnuð voru viðhorf fólks á þremur svæðum í Suður-Svíþjóð til endurhæfingar á vegum tryggingastofnunar sem þeir höfðu verið sendir í eftir mat hjá teymi sem í voru læknir, iðjuþjálfi, sjúkraþjálfari og félagsráðgjafi. Aðeins þrír af 31 voru ánægðir með endurhæfinguna, þrír voru í vafa, en 24 töldu endurhæfinguna ekki hafa komið sér að neinu gagni. Sumir litu á ferlið sem eins konar próf af hálfu tryggingastofnunarinnar og margir kvörtuðu um að innbyrðis samskipti þeirra sem hefðu verið í teyminu hefðu verið ófullnægjandi og einnig samskipti teymis og tryggingastofnunar (12).

Drjúgur meirihluti þeirra sem metnir voru af matsteyminu í þessari rannsókn töldu það hafa verið gagnlegt fyrir sig að hitta teymið. Þetta er jákvæðari niðurstaða en búast mátti við, þar sem teyminu er fyrst og fremst ætlað að meta endurhæfingarmöguleika, en ekki veita meðferð. Búast má við að í mörgum tilvikum séu þeir sem þangað er vísað að missa trúna á að þeir geti gert eitthvað í sínum málum og séu því farnir að huga að örorkubótum og komi því með fremur neikvæðu hugarfari. Væntanlega hefur fólk hins vegar fengið uppörvun, upplýsingar og ráðgjöf við að koma til meðlima teymisins. Sú niðurstaða að 59% matsþega töldu teymið hafa vísað á úrræði sem þeir vissu ekki um fyrir staðfestir þetta raunar. Jafnframt taldi um helmingur þeirra sem metnir voru af matsteyminu sjálfstraust sitt og sjálfsbjargarviðleitni hafa aukist frá því matið fór fram.

Starfsendurhæfing á vegum TR hefur þannig orðið til að bæta stöðu margra sem farið hafa í gegnum mats- og endurhæfingarferlið og um 80% þeirra sem farið hafa í starfsendurhæfingu hafa verið ánægð með hana.





Heimildir

1. Bjarni Þórðarson, Sólveig A. Svavarsdóttir. Tryggingastærðfræðilegur útreikningur á kostnaði vegna örorkulífeyrisgreiðslna lífeyrissjóða og Tryggingastofnunar ríkisins. Tryggingastofnun ríkisins, 2001.

2. Marnetoft S-U, Selander J, Bergroth A, Ekholm J. Vocational rehabilitation - early versus delayed. The effect of early vocational rehabilitation compared to delayed vocational rehabilitation among employed and unemployed, long-term sick-listed people. Int J Rehab Research 1999; 22: 161-70.

3. Timpka T, Leijon M, Karlsson G, Svensson L, Bjurulf P. Long-term economic effects of team-based clinical case management of patients with chronic minor disease and long-term absence from working life. Scand J Soc Med 1997; 25: 229-37.

4. Larsson G. Rehabilitering til arbete. En reform med individen i centrum. Slutbetänkande av utredningen om den arbetslivsinriktade rehabiliteringen. Stokkhólmur 2000, Statens offentliga utredningar 2000; 78: 127-39.

5. Selander J, Marnetoft S-U, Bergroth A, Ekholm J. Arbetslivsinriktad rehabilitering och senare sjukfrånvaro. Socialmedicinsk tidsskrift 1997; 74: 390-5.

6. Sigurður Thorlacius. Breytt fyrirkomulag örorkumats á Íslandi og starfræn endurhæfing á vegum Tryggingastofnunar ríkisins. Læknablaðið 1999; 85: 481-3.

7. Sigurður Thorlacius, Gunnar Kr. Guðmundsson, Friðrik H. Jónsson. Starfshæfni eftir starfsendurhæfingu á vegum Tryggingastofnunar ríkisins. Læknablaðið 2002; 88: 407-11.

8. Sigurður Thorlacius, Sigurjón Stefánsson, Stefán Ólafsson. Umfang og einkenni örorku á Íslandi árið 1996. Læknablaðið 1998; 84: 629-35.

9. Sigurður Thorlacius, Sigurjón Stefánsson, Stefán Ólafsson, Vilhjálmur Rafnsson. Breytingar á algengi örorku á Íslandi 1976-1996. Læknablaðið 2001; 87: 205-9.

10. Sigurður Thorlacius, Sigurjón Stefánsson, Haraldur Jóhannsson. Örorkumat fyrir og eftir gildistöku örorkumatsstaðals. Læknablaðið 2001; 87: 721-3.

11. Sigurður Thorlacius, Sigurjón Stefánsson, Stefán Ólafsson. Menntun, störf og tekjur þeirra sem urðu öryrkjar á Íslandi árið 1997. Læknablaðið 2001; 87: 981-5.

12. Andersson SI. Appraisal, coping, motivational factors and gender in vocational rehabilitation. Scand J Soc Med 1996; 24: 161-8.

Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica