Umræða fréttir
  • Ólafur Baldursson
  • Bjarni Þjóðleifsson

Framhaldsnám - straumar og stefnur

ÞaÐ hefur lengi verið aðalsmerki íslenskra lækna að leita framhaldsmenntunar á fremstu stöðum í mörgum löndum og bera til Íslands það besta úr læknisfræði ýmissa landa. Eftir heimkomu hefur samvinna lækna með ólíka þjálfun og viðhorf enn frekar auðgað íslenska læknisfræði. Það er hins vegar megin veikleiki greinarinnar að ekki hefur tekist að koma á fót skipulegu framhaldsnámi í læknisfræði hérlendis. Ástæður fyrir því eru margar og verða þær raktar hér og einnig ræddar leiðir til úrbóta.

Stjórn framhaldsnáms

Á Landspítala háskólasjúkrahúsi (LSH) stýra kennslustjórar og sviðsstjórar náminu sem er undir yfirstjórn framkvæmdastjóra kennslu, rannsókna og þróunar sem einnig sér um ráðningu unglækna. Á öðrum sjúkrahúsum (FSA og Akranesi) stýra yfirlæknir og kennslustjórar náminu. Framhaldsnám í heimilislækningum er undir stjórn kennslustjóra í þeirri grein. Framhaldsmenntunarráð á að skipuleggja og hafa eftirlit með framhaldsnámi lækna og setja staðla um þær deildir sem eru hæfar til að kenna. Ráðið hefur sérstakan framkvæmdastjóra og er skipað fulltrúum sjúkradeilda þar sem framhaldsnám er viðurkennt, fulltrúa heimilislækna, Læknafélags Íslands, Læknadeildar, Félags læknanema, Félags ungra lækna og áheyrnarfulltrúum.

Vinnumarkaður ungra lækna

Samkvæmt könnun Framhaldsmenntunarráðs Læknadeildar eru 65-70 stöður fyrir nýútskrifaða lækna þegar saman eru taldar stöður í heilsugæslu og á sjúkrahúsum en þar að auki bjóðast ungum læknum störf hjá líftæknifyrirtækjum og á fleiri stöðum. Árlega útskrifast 30-40 læknar og því augljóst að nýútskrifaðir læknar eru of fáir. Það liggur fyrir að næsta starfsár vanti í fjölmargar stöður unglækna á LSH. Til að öðlast lækningaleyfi þurfa kandídatar að ljúka 12 mánaða verknámi á viðurkenndum deildum eða stofnunum, þar af eru fjórir á handlæknisdeild, sex á lyflæknisdeild og þrír á heilsugæslustöð en þrír eru valfrjálsir. Á síðastliðnum vetri var til umræðu í Framhaldsmenntunarráði tillaga um að lengja kandídatsárið í 15 eða 18 mánuði en sú tillaga var felld.

Veikleikar framhaldsnáms á Íslandi

1. Kennsla á framhaldsstigi krefst mikillar vinnu og skipulagningar. Kennslan er að stórum hluta verkleg og felst í eftirliti og tilsögn sérfræðinga þar sem þarf að fara saman ábyrgð unglækna og eftirlit sérfræðinga í réttum hlutföllum eftir stigi námsins. Kennsla verður ekki útfærð á framhaldsmenntunarstigi nema allir sérfræðingar deildanna leggi sitt af mörkum. Skyldur sérfræðinga með tilliti til klínískrar kennslu hafa hvorki verið skilgreindar á stúdentsstigi né á framhaldsstigi. Í nýjum samstarfssamningi LSH og Háskólans er bætt úr þessu og þar er einnig lagður grunnur að framgangi sérfræðinga í kennslu- og háskólastöður.

2. Kennsluáætlanir hafa verið vanþróaðar en Framhaldsmenntunarráð hefur síðastliðinn vetur unnið að gerð kennsluáætlana fyrir flestar sérgreinar læknisfræðinnar og liggja þær nú fyrir.

3. Aðstaða, svo sem aðgangur að tölvum, gagnagrunnum, rafrænum tímaritum og bókasöfnum, fundasölum og herbergjum, er nauðsynleg til að kennsla geti farið fram og gildir það jafnt fyrir stúdenta sem unglækna. Mikið hefur skort á þessa aðstöðu en þróunarsvið kennslu og fræða hefur gert verulegar umbætur.

4. Vinnuframlag ungra lækna er mjög veigamikið og illmögulegt er að reka sjúkrastofnanir án framlags þeirra. Það er enn fremur erfitt að útfæra kennsluáætlanir þegar aðeins um helmingur af stöðum unglækna er skipaður.

5. Samningar um launakjör kandídata, deildarlækna og stúdenta eru í uppnámi og hefur það haft verulega truflandi áhrif á þróun framhaldsmenntunar.

Sóknarfæri í framhaldsmenntun

Við sameiningu deilda á LSH eru að skapast einingar sem hafa burði til að annast framhaldsmenntun unglækna í eitt til þrjú ár eftir kandídatsár og á það einkum við um lyflæknis- og handlæknisdeildir og undirgreinar þeirra. Sameiningu er ekki að fullu lokið en það er skoðun greinarhöfunda að eftir eitt til tvö ár, þegar öldurót breytinganna lægir, verði veruleg sóknarfæri í framhaldsmenntun. Jafnframt því að styrkja stoðir framhaldsmenntunar hér heima þarf að stofna til meiri samvinnu við erlenda læknaskóla. Nú þegar hafa nokkrar deildir fengið mat erlendra stofnana um hæfi til kennslu og má þar nefna að Handlæknisdeild LSH hefur fengið viðurkenningu Royal College of Surgeons í Bretlandi. Blóðmeinafræðideild LSH hefur fengið viðurkenningu Royal College of Pathology og Rannsóknarstofa í meinafræði fékk viðurkenningu frá sömu stofnun í Bretlandi. Samvinna við erlenda læknaskóla þarf að fela í sér samræmingu í kennsluáætlunum og viðurkenningu á námstíma ásamt samningi um að taka við unglæknum til framhaldsnáms, í því efni munu kennsluáætlanir auðvelda samanburð íslenskra og erlendra deilda. Samvinna af þessu tagi skapast oftast fyrir vinnu einstakra sérfræðinga sem hafa getið sér gott orð við erlenda læknaskóla og hafa sambönd við yfirmenn. Framhaldsmenntunarráð hvetur yfirlækna deilda og stjórnendur LSH til að rækta slík sambönd. Framhaldsmenntunarráð mun byrja að safna og halda til haga upplýsingum um erlend tengsl og hvetjum við lækna til þess að senda ráðinu upplýsingar um þau. Stefnt er að því að efna til málþings um erlend tengsl er varða framhaldsnám lækna á hausti komanda.

Framhaldsnám í Bandaríkjunum

Vegna formlegra og strangra prófa, lækningaleyfa, vegabréfsáritana og fleiri mála eru tengsl við bandaríska háskóla þyngri í vöfum en við evrópska skóla. Ekki bætti úr skák það styrjaldarástand sem skapaðist eftir árásirnar 11. september síðastliðinn. Þrátt fyrir þetta eiga Íslendingar greiðan aðgang að framhaldsnámi við öfluga háskóla og stofnanir vestanhafs eins og glæsilegur árangur unglækna í að fá námsstöður á þessu ári ber vitni um. Við höfum nýlega átt viðræður við tvo bandaríska prófessora um þessi mál. Nils Hasselmo, forseti samtaka amerískra háskóla (Association of American Universities), telur að hið akademíska samfélag sé að byrja að jafna sig eftir áfallið í september og bendir á að samtök hans vinni sérstaklega að því að vernda alþjóðleg tengsl háskóla. Á hinn bóginn er ljóst að kennslu- og háskólastarfsemi var misnotuð af hryðjuverkamönnum og verður slík starfsemi því óhjákvæmilega undir mun strangara eftirliti en áður. Michael W. Peterson, prófessor og kennslustjóri lungnalækninga við háskólann í Iowa, er kunnugur íslenskum aðstæðum. Hann kom hér árið 1997 og hélt námskeið um notkun margmiðlunar við kennslu í lyflækningum og hefur að auki haft Íslendinga í læri. Hann hefur nú tekið við nýrri stöðu sem yfirmaður lyflækninga við Kali-forníuháskóla í Fresno. Hann hefur mikinn áhuga á að halda tengslum við Háskóla Íslands og Land-spítala og telur ákjósanlegt að íslenskir unglæknar fái stöður á sinni deild. Við háskólann í Fresno er vönduð kennsla í lyflækningum með öflug tengsl við Kaliforníuháskóla í San Fransisco (UCSF) þar sem nemendur taka þátt í valmánuðum. Einnig var rætt við dr. Peterson um framhaldsnám í lyflækningum almennt. Sérstaklega um þann möguleika að Íslend-ingar tækju hluta námsins hér á Íslandi og annan ytra. Kostir þessa eru augljósir en ókostir því miður ýmsir. American Board of Internal Medicine (ABIM) krefst þess að nemendur ljúki formlegu námi á ákveðnum deildum í þrjú ár ytra áður en nemar fá leyfi til að þreyta sérfræðipróf ("board eligible" - leyfi til að taka sérfræðipróf, er formlegt menntunarstig). Við gætum sniðgengið þetta með því að hanna íslenskt sérfræðipróf sem menn tækju í lok námsdvalarinnar ytra og lykju þannig formlega þessu blandaða námi. Ljóst er að vinna við gerð slíks prófs yrði mjög mikil og þyrfti að huga vandlega að kostnaði og framkvæmd. Verulegur ókostur við þessa lausn er sá að nám í undirsérgreinum (Fellowship) er aðeins unnt að hefja hafi menn lokið bandaríska sérfræðiprófinu ("board certified") í lyflækningum. Blandaða námið gæti því aðeins nýst þeim til framdráttar sem hygðu ekki á frekara nám eða ætluðu sér í undirsérgrein í Evrópu. Ef til vill er það ásættanlegt en með tímanum þyrfti að nást hagstæðara samkomulag við ABIM.

Forystumenn Handlæknisdeildar hafa unnið ötullega að tengslum við erlenda háskóla. Margrét Oddsdóttir yfirlæknir hefur skipulagt vinnuheimsóknir deildarlækna frá skurðdeild Massachusettháskóla í Worcester þannig að þeir starfi hér á skurðdeild í mánuð í senn. Dvölin verður metin sem hluti af sérnámi þeirra. Þetta er mjög mikilvægt framtak og leggur grunn að raunverulegu og virku sambandi stofnana í stað samninga sem liggja í dvala í möppum. Stefnt er að því að íslenskir deildarlæknar geti unnið um hríð í Worcester. Til þess að slík námsdvöl nýtist sem best þarf því miður að yfirstíga nokkrar hindranir, sérstök viðamikil próf til lækningaleyfis og vandamál í sambandi við vegabréf. Samkvæmt heimildum okkar er hins vegar óvenju sterkur vilji ráðamanna við Massachusettháskóla til þess að ryðja sumum þessum hindrana úr vegi Íslendinga.

Forsvarsmenn bráðalæknisfræði á Íslandi vinna einnig að auknum samskiptum við stofnanir erlendis með svipaðar vinnu- og námsdvalir í huga og lýst er hér að ofan. Víst er að aðilar innan mun fleiri greina en okkur er kunnugt um starfa að þessum málum og óskum við eftir að sem flestir tilkynni slíka starfsemi til Framhaldsmenntunarráðs svo unnt verði að samræma aðgerðir.

Að lokum

Innan Framhaldsmenntunarráðs er mikill áhugi á að gera tengsl við erlenda háskóla formlegri og virkari. Í þessu tilliti eru viðurkenningar sem íslenskt nám í skurðlækningum, meinafræði og meinefnafræði hefur hlotið frá æðstu menntastofnunum í Bretlandi sérlega ánægjulegar og til fyrirmyndar. Ekki verður annað séð en framhaldsnám í klínískum grunngreinum þar sem hluti náms fer fram á Íslandi sé vænlegur kostur. Slíkt fyrirkomulag gæti eflt háskólasjúkrahús okkar mjög, meðal annars með því að fá til starfa þann kraftmikla hóp ungra lækna sem er að hefja framhaldsnám. Að auki yrðu tengsl okkar við erlenda háskóla mun gagnlegri og lífvænlegri.

Tengd skjöl
Þetta vefsvæði byggir á Eplica