Umræða fréttir

Íðorð 146: SvefnraskanirIngibjörg Jakobsdóttir, geðhjúkrunarfræðingur, er að gera rannsókn á svefnleysi. Hún sendi tölvupóst og bað um tillögur að íslenskum heitum á fyrirbærum sem á ensku nefnast: primary insomnia, secondary insomnia og rebound insomnia.

Í upphafi má nefna að flokkunarkerfi ameríska geðlæknafélagsins (DSM-IV) skiptir svefnröskunum í tvo meginflokka, primary sleep disorders og other sleep disorders. Síðari flokkinn má nefna aðrar svefnraskanir, en þannig flokkast til dæmis svefnraskanir af völdum geðrænna eða líkamlegra sjúkdóma og svefnraskanir af völdum ýmiss konar efna og lyfja. Í fyrri flokknum koma meðal annars fyrir heitin dyssomnia, hypersomnia, insomnia og parasomnia.

Nafnorðið dyssomnia er flokkunarheiti sem fær þýðinguna svefntruflanir í Íðorðasafni lækna. Samkvæmt DSM-IV er um að ræða truflanir á lengd svefns eða tímasetningu og jafnframt á þeirri svefnhvíld sem vænst er. Insomnia og hypersomnia heyra undir dyssomnia. Hypersomnia einkennist af syfju á venjulegum vökutíma og tilhneigingu til að sofa á daginn, þrátt fyrir eðlilegan nætursvefn. Sumir sjúklinganna eiga einnig mjög erfitt með að vakna á morgnana og eru þá úrillir. Þetta fyrirbæri nefnist svefnsækni í íðorðasafninu. Parasomnia er einnig flokkunarheiti, notað um svefnraskanir sem einkennast af afbrigðilegri hegðun eða viðbrögðum meðan á svefni stendur. Þar má sem dæmi nefna martröð og svefngöngu. Þetta heiti er ekki að finna í íðorðasafninu og í bili kemur ekki nein liprari þýðing í hugann en svefnhegðunarröskun. Rifja má upp að forskeytið para- er úr grísku. Læknisfræðiorðabók Dorlands tilgreinir merkingarnar: a) við hliðina á, nærri, b) líkur, c) auka-, d) hinum megin, e) aðskilinn frá, f) óeðlilegur.Svefnleysi

Heitið insomnia er latneskt að uppruna, samsett úr þremur liðum, neitandi forskeytinu in- (ekki, án, ó-), miðhlutanum somn- og loks viðskeytinu -ia, sem er notað í mörgum læknisfræðilegum orðum til að tákna ástand. Latneska nafnorðið somnus merkir svefn eða mók. Bein orðhlutaþýðing á insomnia er því "ástand án svefns" og Íðorðasafn lækna tilgreinir íslensku heitin svefnleysi og andvökur. Þeir sem þjást af svefnleysi eiga ýmist erfitt með að sofna þegar svefntími er kominn eða erfitt með að sofa allan þann tíma sem þeir vildu vera sofandi.

Enska lýsingarorðið primary er komið úr latínu þar sem primarius merkir aðal- og primus merkir fyrstur. Í læknisfræðilegum heitum er primary oft notað til að einkenna sjúkdóm sem ekki er afleiðing af öðrum sjúkdómi eða sjúkdómsmeðferð. Íðorðasafnið birtir þýðingarnar upphafs-, byrjunar- og frum-. Andstætt er lýsingarorðið secondary, oft notað til að tákna sjúkdóm eða ástand sem er afleiðing af öðru sjúklegu fyrirbæri. Secondary er einnig notað um ýmislegt það sem kemur aftar í röð eða síðar í tíma. Í íðorðasafninu má finna ýmsar þýðingar á secondary, svo sem fylgi-, síð- og annars stigs. Sumir læknar hafa einnig notað orðin frumkominn og síðkominn til að tákna andstæðurnar primary og secondary.

Þegar flokka þarf svefnleysi af þeirri nákvæmni sem DSM-IV gerir ráð fyrir, má grípa til heitanna frumkomið svefnleysi eða frumsvefnleysi á primary insomnia og síðkomið svefnleysi eða síðsvefnleysi á secondary insomnia. Í samræmi við ýmis önnur heiti í íðorðasafninu má einnig tala um fylgisvefnleysi.

Undirrituðum tókst ekki að finna formlega lýsingu eða skilgreiningu á rebound insomnia. Í íðorðasafninu er nafnorðið rebound þýtt sem afturkast og í öðrum orðabókum má einnig finna endurkast og frákast. Fræðiheitinu rebound insomnia er sennilega ætlað að tákna svefnleysi sem kemur aftur eftir eðlilegt svefntímabil. Þess vegna er stungið upp á því að nefna fyrirbærið endurkomið svefnleysi.Meira um hvekk

Í síðasta pistli var rætt um blöðruhálskirtilinn, hvekk, og tilgreind nokkur samsett heiti úr Íðorðasafni lækna, mynduð með stofnsamsetningu (hvekk-). Eignarfallssamsetning (hvekks-) reyndist sjaldgæfari, en meðal slíkra heita eru hvekksauki (hypertrophia prostatae), hjáhvekksbólga (paraprostatitis), hvekksstarfsvefur (parenchyma prostatae), hvekksgrenndarbólga (periprostatitis) og hvekksskurður (prostatectomy). Undirritaður komst að þeirri persónulegu niðurstöðu að stofnsamsetningin færi alls staðar betur.Hvekkur

Í ritmálssafni Orðabókar háskólans eru mörg dæmi um orðið hvekkur, allt frá 17. öld. Fram á 20. öld virðist það merkja hrekkur, grikkur, gabb, blekking eða svik. Í öðrum orðabókum má þó einnig finna merkingarnar flog, sár verkur og bugða. Líffærafræðilega merkingin, blöðruhálskirtill, er eignuð Vilmundi Jónssyni, landlækni. Íslensk læknisfræðiheiti Guðmundar Hannessonar frá 1954 tilgreina heitin hvekknám (prostatectomia) og hvekkbólga (prostatitis) og eigna þau Vilmundi (VJ). Meðan aðrar upplýsingar liggja ekki fyrir, er freistandi að setja fram þá tilgátu að skopskyn Vilmundar hafi ráðið því að orðið hvekkur var tekið upp sem læknisfræðiheiti. Sögnin að hvekkja er þannig útskýrð í Íslenskri orðabók Máls og menningar: 1. gremja, gera graman. 2. gabba, blekkja; svíkja, draga á tálar. 3. hrekkja, áreita; hræða. Vilmundur hefur sjálfsagt minnst þeirrar gremju sem ofstækkun blöðruhálskirtilsins (hvekkauki) olli sjúklingum hans.

Tengd skjöl
Þetta vefsvæði byggir á Eplica