Umræða fréttir

Gallup-könnun á afstöðu lækna til frum- og hermilyfja

Í kjölfar umræðu um notkun hermilyfja fór Frumlyfjahópur Félags íslenskra stórkaupmanna þess á leit við Gallup að könnuð yrði afstaða lækna til hermi- og frumlyfja. Í desember 2001 var hringt í 787 lækna og fengust svör frá 500 þeirra (svarhlutfall 69,3%).

Þegar læknar voru spurðir um hversu mikinn mun þeir teldu vera á virkni frum- og hermilyfja, sögðu 83% að sá munur væri lítill og aðeins 6% að munurinn væri mikill. Þetta viðhorf er athyglisvert sé miðað við svör læknanna við þeim spurningum sem á eftir fylgdu.

Í könnuninni kemur í ljós að rúmlega 35% lækna hafa stundum lent í því að sjúklingum finnist hermilyf ekki virka jafnvel og frumlyf og 7% lækna verða oft fyrir þessari reynslu með sína sjúklinga. Aðeins 23% lækna segjast aldrei hafa meðhöndlað sjúkling sem finnst frumlyf virka betur en hermilyf.

Þegar læknar eru spurðir hvort þeir hafi breytt lyfjagjöf eftir að sjúklingi finnst hermilyf ekki virka eins vel og frumlyf, svara 83% því játandi. Séu svörin flokkuð eftir sérgreinum kemur í ljós að 94% heimilislækna, 87% geðlækna, 77% lyflækna, 69% barnalækna, 65% skurðlækna og 80% annarra lækna hafa breytt lyfjagjöf vegna þessa.

Læknarnir voru einnig spurðir um hvort þeir R-merktu einhvern tíma lyfseðla. Í ljós kom að 69% þeirra lækna sem skrifa lyfseðla R-merkja einhverja þeirra. 95% geðlækna og 78% bæði heimilis- og lyflækna R-merkja lyfseðil stundum.

Þegar þau 31% lækna sem ekki R-merkja voru spurð um ástæður þess komu fram ýmis svör. Sem dæmi má nefna að nokkur hópur lækna taldi ranglega ekki möguleika á R-merkingum.

Að lokum var hópurinn spurður hvort sjúklingar þeirra hefðu tekið inn tvö lyf með sama innihaldsefninu (þ.e. frumlyf og hermilyf). Í ljós koma að fjórðungur lækna hafði einhvern tíma lent í því. Séu svörin flokkuð eftir sérgreinum kemur í ljós að 34% heimilislækna, 18% skurðlækna, 20% geðlækna, 41% lyflækna, 10% barnalækna og 19% annarra hafa séð dæmi um slíkt.

Af þessari rannsókn má draga þá ályktun að þrátt fyrir að flestir íslenskir læknar hafi lent í vandræðum með sjúklinga á hermilyfjum, þá eru þeir samt trúir þeirri túlkun yfirvalda að enginn munur sé á þessum lyfjum.



F.h. Frumlyfjahóps



Ársæll Arnarsson

Hadda Björk Gísladóttir

Sigrún Elsa Smáradóttir

Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica