Umræða fréttir

Bráðalækningar eru sérgrein í sókn

Bráðalækningar eru ung sérgrein innan læknisfræðinnar. Greinin á uppruna sinn í Bandaríkjunum þar sem læknar á bráðadeildum sjúkrahúsa í Virginíufylki fóru að kalla störf sín bráðalækningar fyrir um það bil þrjátíu árum. Þessi skilgreining breiddist smám saman út og er nú viðurkennd sérgrein í Bandaríkjunum.

Allt frá upphafi hefur skilgreining bráðalækninga sem fullgildrar sérgreinar mætt mótspyrnu og víða í Evrópu er hún ekki viðurkennd sem slík. Hér á landi eru bráðalækningar viðurkenndar en Ísland er eitt af sex Evrópuríkjum sem það gerir og fyrst Norðurlanda. Í júnímánuði verður Reykjavík vettvangur fjölmennrar ráðstefnu um bráðalækningar þar sem margir þekktustu sérfræðingar og brautryðjendur greinarinnar vestanhafs og austan verða meðal fyrirlesara.

Það eru Félag íslenskra bráðalækna, Landspítalinn-háskólasjúkrahús og læknadeild Háskóla Íslands sem standa að ráðstefnunni sem verður haldin í Háskólabíó dagana 9.-13. júní. Í undirbúningsnefnd eru þau Brynjólfur Mogensen, Mary Palmer og Theodór Friðriksson sem öll starfa á slysa- og bráðasviði Landspítala. Þar hitti blaðamaður Læknablaðsins Mary Palmer að máli og innti hana eftir ráðstefnunni.

Mary er bandarískur læknir sem hefur starfað hér undanfarin tvö ár. Hún hefur fylgst með þróun bráðalækninga í heimalandi sínu og starfað við greinina í þarlendum sjúkrahúsum. Hún segir að greinin hafi mætt andstöðu, ekki síst hjá öðrum læknum sem telja bráðalækna vera að seilast inn á sitt starfssvið.

"Bráðalækningar snerta margar sérfræðigreinar og tengja þær við samfélagið. Við erum ekki bara að búa um brotin bein heldur breiðum við okkur út yfir æ fleiri greinar. Við fáum líka inn á borð hjá okkur alls konar sjúkdóma, svo sem í öndunarfærum, hjarta og fleira. Við erum hér á vakt og greinum vandann þegar hann kemur upp.

Mig langaði að stuðla að viðgangi greinarinnar og sýna hvað í henni felst og lagði því til að við efndum til ráðstefnu hér á landi. Ég hef ágætis sambönd við ýmsa forystumenn bráðalækninga og tókst að fá fyrirlesara sem margir eru heimsþekktir innan greinarinnar. Það reyndist auðveldara en ég hélt því flestir voru spenntir fyrir því að koma hingað til Íslands," sagði Mary.Fjögur meginsvið

Ráðstefnan verður með hefðbundnum hætti þar sem skiptast á fyrirlestrar og verklegar æfingar. Hún skiptist í fjögur meginþemu sem eru:

o Helstu áhættusvið sem bráðalækningar koma nærri: öndunarfæri, blóðrás, lost og eitranir.

o Algengustu viðfangsefni bráðadeilda.

o Þörfin fyrir mýkri umönnun, svo sem þegar fórnarlömb nauðgana og annars kynferðisofbeldis eiga í hlut.

o Þróun bráðalækninga og slysavarna á alþjóðavísu.

Meðal fyrirlesara er fólk frá ýmsum löndum sem mun gefa ráðstefnugestum innsýn í bráðalækningar í svo ólíkum löndum sem Skotlandi, Eistlandi, Noregi, Frakklandi og Alaska, svo dæmi séu tekin. Þá má ekki gleyma bandarískum sjálfboðaliðum sem vinna við að móta viðbrögð við hryðjuverkum þar sem beitt er lífrænum efnum ("bíóterrorismi") og öðrum hópi sem sérhæfir sig í tölvunotkun fyrir bráðadeildir.

Varpað verður fram ýmsum spurningum um stöðu bráðalækninga, svo sem hvað læknar þurfi að hafa til einkað sér til þess að öðlast sérhæfingu í greininni. Efnt verður til pallborðsumræðna um stöðu bráðalækninga á Íslandi með þátttöku evrópskra og bandarískra sérfræðinga. Mary sagðist einmitt vera að senda þeim gögn um stöðuna hér á landi svo þeir geti lagt mat á hana.Bráðalækningar vinsælt viðfangsefni

Heiti ráðstefnunnar er Bráðalækningar milli heimsálfa eða Emergency Medicine Between Continents. Mary sagði að þetta væri draumaráðstefnan hennar og að hún vonaðist til þess að hún leiddi til bættrar almannaheilsu. "Þessi ráðstefna höfðar til lækna úr mörgum sérgreinum og ekki síst til lækna af landsbyggðinni. Vonandi verður þátttakan góð og ef marka má aðsókn að öðrum ráðstefnum um bráðalækningar sem haldnar hafa verið að undanförnu þá verður hún góð. Ég sótti ráðstefnu á Ítalíu á síðastliðnu hausti og þar voru þátttakendur hartnær tvöfalt fleiri en upphaflega hafði verið reiknað með. Við vitum ekki hversu margir koma hingað en getum allt eins átt von á hátt í 500 manns," sagði Mary Palmer.

Nánari upplýsingar um ráðstefnuna má nálgast á heimasíðu hennar:

www2.landspitali.is/congress/emergency2002/

-ÞH

Tengd skjöl
Þetta vefsvæði byggir á Eplica