Umræða fréttir

Árangur næst með markvissum aðgerðum

Eins og kunnugt er af fréttum stendur nú yfir tóbaksvarnarátak á vegum Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar (WHO). Einn þáttur í því var fundur heilbrigðisráðherra Evrópu sem fram fór í Póllandi dagana 18. og 19. febrúar. Þar var lögð fram skýrsla sem stofnunin lét semja um tóbaksneyslu og árangur af tóbaksvörnum í Evrópu en hún nær til 48 ríkja.

Helsta niðurstaða skýrslunnar er sú að hægt sé að ná árangri í baráttunni gegn tóbaksneyslu og sjúkdómum sem henni fylgja. Í sumum ríkjum álfunnar hefur náðst verulegur árangur og eru þar nefnd sem dæmi fimm lönd þar sem tekist hefur að fækka tóbaksneytendum niður fyrir fjórðung íbúa 15 ára og eldri en þau eru Finnland, Ísland, Ítalía, Slóvenía og Svíþjóð. Í þessum löndum og fimm öðrum hefur dauðsföllum sem rekja má til tóbaksnotkunar fækkað og tengja skýrsluhöfundar það við þá staðreynd að í öllum þessum ríkjum hefur verið gripið til opinberra aðgerða í þá veru að hamla gegn reykingum.

En á móti þessum árangri sem að mestu leyti er einskorðaður við Vestur-Evrópu kemur að reykingar eru enn að aukast í austurhluta álfunnar. Í heild hefur tóbaksneysla því staðið í stað undanfarin fimm ár sem hlutfall af íbúafjölda álfunnar. Um það bil 30 af hundraði Evrópubúa reykja, 38% karla og 23% kvenna. Með öðrum orðum þýðir þetta að 215 milljónir Evrópubúa reykja, 130 milljónir karla og 85 milljónir kvenna.

Skýrsluhöfundar hafa mestar áhyggjur af aukinni tóbaksnotkun ungmenna og kenna um stöðugum áróðri og markaðssetningu tóbaksfyrirtækjanna sem beinist einkum að yngstu aldursflokkunum. Meðal 15-18 ára ungmenna er sáralítill munur á austur- og vesturhluta álfunnar en á báðum svæðunum reykja um 30% þessa aldurshóps. Og það sem meira er: í þessum aldurshópi er ekki sami munur á kynjunum og hjá þeim eldri. Í 12 ríkjum eru unglingsstúlkur alveg jafnvirkar í reykingum og piltarnir.

Skýrsluhöfundar segja að virkustu aðferðirnar í baráttunni gegn tóbakinu séu fólgnar í verðlagningu, algeru banni við auglýsingum, stuðningi við fólk sem reynir að hætta að reykja og viðleitni í þá veru að skapa reyklaus svæði. Í flestum löndum álfunnar eru ýmsar þessara leiða lítt eða ekki nýttar. Til dæmis hefur innan við fjórðungur ríkja eyrnamerkt ákveðna tekjustofna baráttunni gegn reykingum og einungis fimm ríki verja meira en einu prósenti þeirra tekna sem þau hafa af skattlagningu tóbaks til þess að verjast skaðlegum áhrifum þess.

-ÞH, fréttatilkynning frá WHO.

Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica