Ritstjórnargreinar

Af skottulæknum og öðrum

Bartskerastéttin deyr út með blóðtökumönnum 19. aldar, en að vísu höfðu     þessir lækningamenn áður hlotið hið nýja og óvirðulega nafn: skottulæknar, eftir að hinir lærðu læknar höfðu lagt undir sig landið.

Vilmundur Jónsson landlæknirAnnað árið í röð liggur fyrir AlÞingi tillaga til þingsályktunar um stöðu óhefðbundinna lækninga á Íslandi. Lagt er til að heilbrigðisráðherra skipi nefnd er geri úttekt á stöðu óhefðbundinna lækninga hér á landi og beri saman við stöðu mála á Vesturlöndum. Verkefni nefndarinnar yrðu mjög viðamikil. Atriði sem nefndinni ber að kanna sérstaklega varða menntun, viðurkenningu náms og starfsréttindi, samstarf við þá sem stunda hefðbundnar lækningaaðferðir og atriði er snerta skattamál. Nefndin skal safna saman aðgengilegum niðurstöðum úr rannsóknum sem gerðar hafa verið á áhrifum og virkni þessara aðferða og þeirri áhættu sem þeim fylgir. Ennfremur á nefndin að kanna viðhorf almennings til óhefðbundinna lækninga og hversu algengt það er að fólk leiti til þeirra sem bjóða slíka þjónustu. Gert er ráð fyrir að nefndin skili tillögum til heilbrigðisráðherra um hvernig best sé að koma til móts við vaxandi umsvif á sviði óhefðbundinna lækninga hér á landi og meta hvort rétt kunni að vera að viðurkenna í auknum mæli nám í þessum greinum með veitingu starfsréttinda.

Í læknalögum frá 1988 segir meðal annars að hvers konar skottulækningar séu bannaðar hér á landi. Í sömu lögum eru skottulækningar skilgreindar þannig að það séu skottulækningar er sá sem ekki hefur leyfi samkvæmt lögunum býðst til þess að taka sjúklinga til lækninga, gerir sér lækningar að atvinnu, auglýsir sig eða kallar sig lækni, ráðleggur mönnum og afhendir þeim lyf sem lyfsalar mega einir selja. Í lögunum segir einnig að lækni beri að tilkynna landlækni eins fljótt og við verður komið verði hann var við skottulækningar. Nokkuð er um að landlækni berist slíkar tilkynningar frá læknum. Einnig berast í þessu sambandi fyrirspurnir og ábendingar frá almenningi, svo og ábendingar frá aðilum sem stunda óhefðbundnar lækningar og vilja að landlæknir greini sauðina frá höfrunum! Alvarleiki mála sem tilkynnt eru til landlæknis er vissulega mismikill. Afskipti landlæknis af óhefðbundnum lækningum hefur því farið nokkuð eftir því. Dæmi um mál sem landlæknir lítur alvarlegum augum er ef aðili sem stundar óhefðbundnar lækningar villir á sér heimildir. Einnig ef slíkur aðili beitir hættulegum aðferðum, heldur fram ósönnuðum áhrifum, heldur fólki frá hefðbundnum lækningaaðferðum, til dæmis með því að ráðleggja fólki að hætta hefðbundinni lyfjameðferð eða er augljóslega að hafa fólk að féþúfu.

Það er engin ný saga að haldið hafi verið á lofti ólíkum sjónarmiðum varðandi óhefðbundnar lækningar. Í því sambandi hafa stangast á sjónarmið lækna, almennings, löggjafarvalds og framkvæmdavalds. Fram að 1760 voru engin fyrirmæli í lögum um réttindi lækna til starfa hér á landi. Með hinum fyrsta landlækni er sú skipun upp tekin að enginn megi stunda lækningar á Íslandi nema hafa öðlast til þess réttindi. Læknisréttindi öðluðust menn aðeins samkvæmt prófi við læknadeild eða með sérstöku leyfi landlæknis og stjórnvalda. Vegna skorts á læknum voru lagafyrirmæli um lækningaréttindi markleysa ein og skottulæknarnir voru athvarf alþýðunnar allt fram á 20. öld. Eftir að Alþingi var endurreist áttu skottulæknarnir jafnan hauk í horni þar sem Alþingi var. Árið 1879 samþykkti þingið lög um að heimila landshöfðingja að veita leikmönnum lækningaleyfi. Konungur neitaði að staðfesta lögin. Færðist þá þingið í aukana og samþykkti 1881 lög þess efnis að "eigi varðaði við lög" þótt leikmaður fengist við lækningar "nema það fullsannaðist að hann með þeim hafi gert einhverjum skaða". En þessi lög hlutu ekki heldur staðfestingu konungs. Þingið féllst að lokum á stjórnarfrumvarp árið 1883 um að lögskipa refsingar gegn skottulækningum, en setti hið veigamikla skilyrði: að refsingu yrði aðeins beitt gegn þeim sem yrði "uppvís að því að hafa gjört skaða með lækningatilraunum sínum". Þessi niðurstaða var í raun og veru viðurkenning á nauðsyn skottulækna og starfi þeirra. Árið 1911 samþykkti Alþingi lög um lækningaleyfi. Formælendur smáskammtalækna á Alþingi fengu það knúið fram að lögin voru ekki látin taka til smáskammtalækna og þar með voru smáskammtalækningar í raun og veru lögleyfðar. Hins vegar var bönnuð áfram öll önnur lækningastarfsemi ólærðra manna er eigi höfðu hlotið tilskilið leyfi. Núgildandi réttarskipun í þessu efni var síðan tekin upp með lögum árið 1932, en frá þeim tíma hafa þeir einir sem til þess hafa fengið leyfi ráðherra rétt til að stunda lækningar á Íslandi og kalla sig lækna.

Á sjötíu ára afmæli gildandi réttarskipunar er kominn tími til að staldra við og íhuga hvort endurskoðunar sé þörf. Forsendur eru að vísu allt aðrar en fyrr á tímum þar sem skortur á "hefðbundnum" úrræðum hefur vafalaust verið drifkraftur hinna "óhefðbundnu lækninga". Nú eru aðrir tímar. Óhefðbundin lækningaúrræði hafa sífellt orðið meira áberandi á undanförnum árum og ljóst að sjúklingar reyna í auknum mæli ný meðferðarúrræði. Grasalækningar og smáskammtalækningar eru ekki nýjar af nálinni hér á landi. Það á hins vegar frekar við um nálastungur, lið- og beinskekkjulækningar, heilun, höfuðbeina- og spjaldhryggjarmeðferð og jóga, svo eitthvað sé upp talið. Óraunhæft er að ætla sér að hindra tilkomu allra nýrra meðferðarúrræða þó þau teljist til hinna óhefðbundnu.

Frelsi er hugtak sem á mjög upp á pallborðið um þessar mundir. Þar með frelsi sjúklinga til að velja sér meðferð. En það er ekki nægjanlegt að yfirvöld láti málin afskiptalaus. Áhrif og ávinningur af setningu reglna um þetta efni eru margvísleg og að ýmsu leyti ótvíræð. Starfsemi þessi yrði frekar sýnileg en ekki er óvarlegt að fullyrða að núna séu þessar lækningar að miklu leyti stundaðar sem svört atvinnustarfsemi. Frekari grundvöllur fyrir eftirliti yfirvalda fæst með setningu reglna. Það styrkir möguleika stjórnvalda á að skilja á milli vandaðra og óvandaðra vinnubragða og taka frekar á fúskurum sem hættulegir geta reynst almannaheill.

Sagan kennir okkur að margvísleg sjónarmið hafa verið uppi um óhefðbundin lækningaúrræði. Svo mun áfram verða. Í seinni tíð hafa leikreglurnar í samfélaginu orðið óljósari um þessi mál og þarfnast því endurskoðunar. Að því munu koma sem fyrr: almenningur, löggjafinn, framkvæmdavaldið, "skottulæknarnir" og síðast en ekki síst: við læknarnir. Okkur mun verða það farsælast að taka af fullri alvöru þátt í umræðunni en standa ekki á úreltum lögum og reglum eins og hundar á roði.

Tengd skjöl
Þetta vefsvæði byggir á Eplica