Umræða fréttir

Af lyfjakynnum og líflækni Viktoríu drottningar

Í síðasta Læknablaði andaði köldu aÐ norðan frá Pétri Péturssyni í garð lyfjafyrirtækja, og um samskipti starfsmanna þeirra við lækna.

Víða var komið við sögu í umræddri grein og ekki er ætlunin hér að elta ólar við allar fullyrðingar greinarhöfundar. Fyrir hönd Lyfjahóps Samtaka verslunarinnar vil ég þó koma með eftirfarandi athugasemdir.

Lyfjafyrirtækin og starfsmenn þeirra eru hluti heilbrigðiskerfisins og hafa það skilgreinda hlutverk að þróa, framleiða og tryggja aðgengi að lyfjum. Óumdeilt er að lyfjafyrirtækjum er bæði skylt og nauðsynlegt að koma á framfæri upplýsingum um framleiðslu sína. Þetta gerist með faglegri og markvissri upplýsingagjöf, markaðssetningu og auglýsingum til heilbrigðisstétta og almennings þegar við á. Framtíð lyfjaiðnaðarins er háð slíkri starfsemi, enda stuðlar hún að því að afla fyrirtækjunum tekna sem eru forsenda þróunar nýrra og betri lyfja.

Engin önnur starfsgrein ver hærra hlutfalli tekna til rannsókna og þróunar en breytilegt er hve miklum hluta tekna sinna lyfjafyrirtæki verja til markaðsstarfs. Öll eiga það þó sammerkt að verja því fé til þessara hluta sem þau telja hagkvæmt fyrir eðlilegan vöxt og viðgang starfsemi sinnar. Starfsmenn fyrirtækjanna leitast við að sinna lyfjakynningum af fagmennsku og áreiðanleika enda gerð sú lagalega krafa að fræðslu- og kynningarstarf sé eingöngu unnið af sérþjálfuðu starfsfólki.

Lyfjaóhóf eða röng notkun lyfja er ekki hagsmunamál lyfjafyrirtækja og ætti samstarf Lyfjahóps SV og Landlæknisembættisins um kynningar á klínískum leiðbeiningum að vera óræk sönnun þess. Rétt lyf notuð á réttan hátt á réttum tíma er og verður undirstaða lyfjanotkunar og forsenda í starfsemi lyfjafyrirtækja. Einnig teljum við að læknum sé fyllilega treystandi til að vega og meta upplýsingar sem þeim berast og auglýsingar sem ber fyrir augu, enda sérstaklega skólaðir í vísindalegri nálgun við viðfangsefni sín.

Þegar William Osler markaði sín spor á þróun klínískrar læknisfræði á Viktoríutíma 19. aldar voru úrræði læknisfræðinnar og lyflækninga fátæklegri en þau eru í dag. Það er ekki forgangsatriði læknisfræðinnar að taka fólk af lyfjum þótt það hafi verið góð latína fyrir hundrað árum. Forgangsatriðið hlýtur að vera að nýta þau úrræði sem tiltæk eru og studd eru bestri þekkingu með hag skjólstæðings að leiðarljósi.

Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica