Tryggvi Stefánsson læknir hringdi fyrir nokkru síðan og óskaði eftir umfjöllun um
recurrence, endurkomu sjúkdóms eða einkenna. Íðorðasafn lækna birtir enska nafnorðið
recurrence,
upptekning; og lýsingarorðin
recurrens (L),
afturhvarfs-; og
recurrent (E),
1. ítrekaður. 2. afturhvarfs-. Uppruni orðanna er rakinn til latnesku sagnarinnar
recurrere,
að hlaupa aftur. Læknisfræðiorðabók Dorlands gefur þýðingu á nafnorðinu
recurrence,
endurkoma einkenna eftir hlé (remission) og vísar í annað nafnorð,
relapse,
endurkoma sjúkdóms eftir að hann virðist genginn yfir. Íðorðasafn lækna hefur þar valið þýðinguna
bakslag.
Endurkoma einkenna og teikna sjúkdóms sem virðist læknaður. Aftur er uppruna að leita í latínu þar sem
lapsus er
flótti, fall, galli eða
villa.
Enn eitt fræðiheitið er
recrudecence sem Íðorðasafn lækna nefnir:
uppblossun.
Ný elnun sjúkdóms sem virtist í afturbata. Rifja má upp að sögnin
að elna merkir að aukast eða vaxa. Enn er uppruni fræðiheitisins rakinn til latínu þar sem lýsingarorðið
crudus merkir
hrár, grófur eða
hrjúfur. Heitið
recrudecence mun fyrst og fremst hafa verið notað um sár sem opnuðust eða komu fram aftur. Þegar flett er upp í öðrum erlendum læknisfræðiorðabókum kemur í ljós að læknisfræðilegur merkingarmunur orðanna
recurrence, relapse og
recrudecence er að mestu horfinn. Æskilegt væri því að samræma þau í Íðorðasafninu einnig.
Undirritaður svaraði Tryggva þannig að
endurkoma (einkenna eða sjúkdóms) væri það heiti sem hann helst vildi nota um
recurrence. Íslenska samheitaorðabókin gefur samheitin
afturhvarf og
afturkoma, en þau hafa enga augljósa yfirburði. Til ítrekunar má nefna dæmi:
recurrent tumor verður þá
endurkomið æxli eða
endurkomuæxli og
recurrent disease verður
endurkominn sjúkdómur eða
endurkomusjúkdómur.
Í 137. pistli (Lbl 2001; 87: 843) var að beiðni Runólfs Pálssonar lyflæknis fjallað um íslenskt heiti á þeim hluta sjúkraskrárupplýsinga sem læknar safna kerfisbundið við komu og innlögn sjúklings á sjúkrastofnun. Runólfur vildi losna við slanguryrðið
"sjúrnall" sem oft er notað í samsetningunni
"að taka sjúrnal" til að vísa í þessa fyrstu upplýsingasöfnun. Runólfur virtist í staðinn vilja nota heitið "innlagnarnóta", en undirritaður lagðist gegn því að tökuorðið "nóta" fengi þennan virðulega sess og stakk upp á því að heitið
sjúkraskrá mætti nota þarna í þrengri merkingu:
2. þær sjúkdóms- og heilbrigðisupplýsingar sem safnað er við innlögn á heilbrigðisstofnun eða við komu til heilbrigðisstarfsmanns; auk hinnar hefðbundnu:
1. heildarsafn sjúkragagna ákveðins sjúklings, sem geymd eru hjá heilbrigðisstofnun eða sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmanni. Sá sem safnar upplýsingunum getur sagst vera
"að safna í sjúkraskrá" án þess að misbjóða máltilfinningu annarra.
Nýlega var á förnum vegi kastað fram þeirri tillögu við undirritaðan að fyrsti hluti sjúkraskrárinnar heiti
komuskrá. Hugmynd hins ónefnda tillöguhöfundar var sú að komuskránni tilheyrðu:
innlagnarástæða og saga núverandi veikinda, fyrri heilsufarssaga, lýsing á líkamsskoðun og samantekt og fyrsta niðurstaða læknis. Ekki er ástæða til annars en að taka tillögunni vel og biðja menn að taka hana til vandlegrar skoðunar. Í umræðunni kom einnig fram önnur tillaga:
innlagnarskrá. Undirritaður hvatti þennan tillöguhöfund til að ráðast einnig í það verkefni að koma með tillögu að lipurri rammíslenskri samsetningu sem næði yfir þann algenga verknað sem á slangurmálinu nefnist
"að taka sjúrnal af sjúklingi" eða
"að sjúrnalísera sjúkling". Er ekki líka hugsanlegt að einhver annar orðhagur læknir sé búinn að leysa þrautina?
Í 135. pistli (Lbl 2002; 87: 667) var rætt um fyrirbærið
exposure, það að verða fyrir ytri áhrifum, oftast skaðvænlegum. Hugljómum hefur enn ekki orðið og óskað er eftir aðstoð. Til að koma mönnum af stað má benda á uppruna frá latnesku sögninni
exponere sem hefur margar skráðar merkingar:
að bera út, setja út, setja fram, setja upp á strönd, skilja eftir óvarinn, yfirgefa, gefa út, sýna, leggja til, útskýra. Enska nafnorðið
exposure er í læknisfræðilegu samhengi oftast notað til að gefa til kynna magn, tímalengd eða alvarleika ýmissa ytri áhrifa, til dæmis af smitverum, efnum eða skaðlegum geislum. Rétt er að benda á að hér er enn eitt dæmið um mikla notkun nafnorða í ensku. Setninguna "The patient was subjected to minimal radiation exposure" er ekki vandi að þýða á íslensku þannig að innihaldið skili sér fyllilega: "Sjúklingurinn varð fyrir lágmarksgeislun". Glöggir menn sjá hins vegar að nafnorðið
exposure hefur ekki verið þýtt sérstaklega og virðist ekki koma að sök. Engu að síður verðum við sennilega að eiga tiltækt samsvarandi íslenskt nafnorð. Íðorðasafn lækna birtir þýðingarnar:
1. afhjúpun, opnun. 2. berskjöldun. Það að láta verða fyrir áhrifum sem geta haft skaðvænleg áhrif, svo sem af miklum hita, kulda, geislun eða sóttkveikjum. 3. geislaskammtur. Óskað er eftir hugmyndum og tillögum.