Umræða fréttir

Eldri ökumenn með heilabilun

Grein um "ökumenn og heilabilun" eftir Jón Snædal yfirlækni og Helgu M. Hallgrímsdóttur félagsráðgjafa birtist í Læknablaðinu nýlega (Læknablaðið 2002; 88: 303-6).

Rannsókn náði til 346 einstaklinga er leituðu á minnismóttöku Öldrunardeildar Landspítalans á Landakoti. Af 346 voru 121 virkur ökumaður (35%), 110 höfðu hætt akstri, þar af 84% af eigin hvötum en 48 höfðu aldrei haft ökuskírteini. Vitræn skerðing var greind með skilmerkjun MMSE (Mini-Mental State Examination). Vitræn skerðing var talin alvarleg ef stigin voru 20 eða færri af 30, en væg eða þó nokkur (mild to moderate) ef stigin voru fleiri en 20. Af þeim er höfðu vægari skerðingu óku 104 eða 40%. Alls höfðu 12 einstaklingar, eða 5,2%, lent í óhöppum síðustu þrjú ár á undan eftir að einkenni vitrænnar skerðingar komu fram. Aðstandendur 27 virkra ökumanna höfðu áhyggjur af akstri þeirra. Alvarleg slys eru ekki tíð en hafa þó komið einstaka sinnum fyrir.

Niðurstaða höfunda er að akstur einstaklinga með byrjandi heilabilun sé í heild ekki stórt vandamál. Talið er að 65 ára og eldri séu í 1,6-2,0 meiri hættu en fólk á aldrinum 25-64 ára að lenda í óhappi. Slysa- og árekstrartíðni ungra ökumanna á fyrsta ári eftir ökupróf er um 40%. En skýrari reglur skortir. Eigum við að láta þetta lönd og leið eða bregðast við? Við teljum einfaldast að mat á ökuhæfni nái einnig til minnishæfni. Heimilislæknar eru vel í stakk búnir að mæla slíkt. Ef ökubeiðandi hefur töluverða minnisskerðingu er rétt að vísa honum til taugasálfræðings eða taugasérfræðings sem gætu þá metið réttilega dómgreind, innsæi, fjarlægðar- og rýmdarskynjun viðkomandi. Þessu er kastað hér fram til nánari athugunar.

Að lokum ein tillaga: að láta þá 65 ára og eldri er lenda í árekstrum gangast undir ökupróf (meðal annars minnispróf). Í grein 21 er kveðið á um að dómsmálaráðuneytið setji í samráði við landlækni leiðbeinandi reglur um útgáfu og endurnýjun ökuskírteina.Fyrir hönd stjórnar Félags eldri borgaraÓlafur Ólafsson

Tengd skjöl
Þetta vefsvæði byggir á Eplica