Umræða fréttir

Frá Landlæknisembættinu. Öndunarmælingar á heilsugæslustöðvum

Til að greina lungnasjúkdóma eru tæki til öndunarmælinga mjög mikilvæg. Blástursmælir (spirometer) er eitt þessara tækja og ætti að vera hluti af þeim grunnbúnaði sem til er á heilsugæslustöðvum. Með slíku tæki má til dæmis greina hvort um er að ræða lungnasjúkdóm sem leiðir til herpu eða hvort um er að ræða teppu. Teppusjúkdómar í lungum eru algengir og er áætlað að 5% fullorðinna sé með asma og hjá börnum er hlutfallið enn hærra. Þá er áætlað að tíðni langvinnra lungateppusjúkdóma muni aukast mjög á komandi árum og verði enn meira heilbrigðisvandamál en nú er. Blástursmæli má nota til greiningar og mismunagreiningar þessara sjúkdóma og það má nota hann til að meta árangur meðferðar. Þá er einnig vaxandi áhugi á því að nota blástursmælingar til að greina langvinna lungnateppu á byrjunarstigi og beina reykleysismeðferð sérstaklega að þeim hópi. Með því mætti draga úr tíðni langvinnra lungateppusjúkdóma svipað og gert hefur verið við hjarta- og æðasjúkdóma. Nú reykja um það bil 25% fullorðinna Íslendinga. Af þeim hópi er líklegt að um 15-25% fái langvinna lungateppu. Um 45 ára aldur er hægt með lungnablástursprófum að greina þá reykingamenn sem eru í mestri hættu að fá langvinna lungnateppusjúkdóma. Með öflugu forvarnarstarfi og eftirliti má forða þessum einstaklingum frá frekari lungnaskaða sem kemur ekki í ljós klínískt fyrr en 10-15 árum seinna. Af ofanskráðu er ljóst mikilvægi blástursmæla í greiningu og meðferð lungnasjúkdóma.

Fyrri hluta ársins 2000 var gerð könnun á vegum Landlæknisembættisins á því hversu margar heilsugæslustöðvar ættu öndunarmæla. Kom þar í ljós að aðeins rúmlega helmingur heilsugæslustöðva í landinu átti slíkan búnað. Víða var um að ræða gömul tæki sem voru orðin lítið notuð og óáreiðanleg. Þá vantaði víða betri þjálfun starfsfólks bæði í að framkvæma prófin á réttan hátt og að lesa úr þeim. Var talið augljóst að hér þyrfti að bæta mikið úr.

Á vegum Landlæknisembættisins er starfandi vinnuhópur sem hefur að markmiði að efla notkun tækja til öndunarmælinga í heilsugæslu á Íslandi. Þessi vinnuhópur í samvinnu við Tóbaksvarnanefnd og lyfjafyrirtækið GlaxoSmithKline stofnaði árið 2001 félagsskap sem fékk nafnið Loftfélagið. Í þessum félagsskap starfa heilbrigðisstarfsmenn sem áhuga hafa á öndunarmælingum og að efla vitneskju um lungnasjúkdóma. Má þar nefna lækna með ýmsar sérgreinar, hjúkrunarfræðinga og lyfjafræðinga. Seinni hluta árs 2001 gaf Loftfélagið öndunarmæla af gerðinni Spiro 2000 frá Medikro á 25 heilsugæslustöðvar um land allt. Hér er um að ræða mjög fullkomna öndunarmæla sem eru tölvutengdir og vinna í PC-tölvuumhverfi og nýtast því vel á tölvuvæddum heilsugæslustöðvum. Jafnframt þessu var farið með fræðsluefni á fundi um allt land og kennd grundvallaratriði öndunarmælinga. Yfir 200 starfsmenn heilsugæslustöðva voru fræddir á þessum fundum og var afhent mappa með fræðsluefni um lungnasjúkdóma og öndunarmælingar. Fyrri hluta ársins 2002 fengu síðan fleiri stöðvar afhenta öndunarmæla þannig að alls eiga 35 af 53 heilsugæslustöðvum á Íslandi þessa gerð af öndunarmælum og auk þess eiga hinar stöðvarnar aðrar gerðir þannig að nú eiga allar heilsugæslustöðvar öndunarmæla. Að auki fékk Læknadeild Háskóla Íslands einn mæli til þjálfunar fyrir nema.

Vorið 2002 var aftur haldin fræðsla um öndunarmælingar og reykleysismeðferð með átta fundum um land allt. Þannig eiga allar heilsugæslustöðvar nú að geta framkvæmt öndunarmælingar og eru starfsmenn stöðvanna hvattir til að nota þessi tæki til að aðstoða við greiningu og meðferð lungnasjúkdóma.



Gunnar Guðmundsson

lungnalæknir

Sigurður Guðmundsson

landlæknir

Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica