Umræða fréttir

Ályktanir aðalfundar LÍ

Aðalfundur Læknafélags Íslands haldinn 11.-12. október 2002 samþykkir að veita árlega 1.500.000 kr. til Fræðslustofnunar lækna til að standa straum af kostnaði við fræðslunámskeið, útgáfu símenntunarefnis og undirbúning að skráningu símenntunar lækna. Aðalfundurinn samþykkir að veita óbreytta upphæð til þriggja ára en að þeim tíma liðnum skal Fræðslustofnun gera grein fyrir nýtingu fjárins áður en ákvörðun um frekari fjárframlög til Fræðslustofnunar verður tekin.

Aðalfundur Læknafélags Íslands haldinn 11.-12. október 2002 hvetur heilbrigðisráðherra til þess að endurskoða reglugerðir um veitingu lækninga- og sérfræðileyfa til samræmis reglugerðum á Evrópska efnahagssvæðinu.

Aðalfundur Læknafélags Íslands haldinn 11.-12. október 2002 lýsir yfir fullum stuðningi við réttindabaráttu Félags íslenskra heimilislækna og gagnrýnir harðlega stefnuleysi stjórnvalda í málefnum heilsugæslunnar. Fundurinn skorar á heilbrigðisráðherra að marka stefnu í starfs- og launaumhverfi heimilislækna með því að auka sjálfstæði þeirra til jafns við aðra sérfræðilækna og hlúa þannig að þeim hornsteini heilsugæslunnar sem heimilislæknirinn er. Fundurinn skorar því á ráðherra að leita nú þegar samkomulags við heimilislækna um starfskjör þeirra.

Aðalfundur Læknafélags Íslands haldinn 11.-12. október 2002 lýsir yfir áhyggjum af skorti á stefnu og markmiðum Landspítala - Háskólasjúkrahúss í kjölfar sameiningar. Læknisfræðileg sjónarmið eru ekki nægjanlega höfð að leiðarljósi við mikilvægar ákvarðanir og skipulagsbreytingar, en óljós fjárhagsleg markmið ráðandi. Lækningar, vísindarannsóknir og kennsla eru hornsteinar háskólasjúkrahúss. Fundurinn skorar á yfirstjórn sjúkrahússins að marka stefnu á þessum grunni.

Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica