Umræða fréttir
Smásjáin: Vitundarvakning um ristilkrabbamein
Vitundarvakning um ristilkrabbamein
Hleypt hefur veriÐ af stokkunum fræðsluátaki sem ber yfirskriftina Vitundarvakning um ristilkrabbamein. Að því standa Félag sérfræðinga í meltingarsjúkdómum, landlæknir og Krabbameinsfélagið og felst það meðal annars í útgáfu tveggja bæklinga, annar er ætlaður heilbrigðisstéttum og verður dreift á heilbrigðisstofnunum en hinn er ætlaður almenningi og verður honum dreift í hús á næstu vikum.
Ristilkrabbamein er þriðja algengasta krabbamein á Íslandi og önnur algengasta dánarorsök af þeim völdum. Árlega greinast að meðaltali 110-120 tilvik hér á landi og er nýgengi svipað hjá konum og körlum. Nýgengi er lágt meðal fólks undir fimmtugu en fer síðan vaxandi. Á hverju ári deyja 40-50 manns af völdum ristilkrabbameins.
Þetta krabbamein hefur þá sérstöðu að vera með greinanlegt, góðkynja forstig og er því mikilvægt að upplýsa almenning um einkennin og hvernig hægt er að fylgjast með þeim. Í könnun sem gerð var árið 2000 meðal fólks á aldrinum 17-75 ára kom í ljós að tæplega helmingur aðspurðra vissi um fyrstu einkenni ristilkrabbameins og einungis helmingur þeirra sem hafði greint blóð í hægðum hafði leitað sér meðferðar.
Á hinn bóginn kom í ljós mikill áhugi á fræðslu um sjúkdóminn og nú er ætlunin að svala þeirri þörf. Auk bæklinganna verða birtar greinar og auglýsingar í blöðum með upplýsingum um ristilkrabbamein.
Á blaðamannafundi þar sem átakið var kynnt spunnust nokkrar umræður um fjöldaskimun þeirra sem teljast vera í áhættuhópi vegna ristilkrabbameins en forsvarsmenn átaksins lögðu áherslu á að slíkt væri ekki á döfinni. Hins vegar ætlar landlæknir að skipa starfshóp til að kanna hvort slík skimun er æskileg eða möguleg. Með henni mælir ýmislegt, svo sem fordæmið frá skimun vegna leghálskrabbameins, en á móti kemur að slík skimun er ákaflega dýr.