Ritstjórnargreinar

Að grípa í skottið á skugganum

Hrun heilsugæslunnar í landinu heldur áfram. Fyrir rúmu ári höfðu á þriðja tug sérmenntaðra heimilislækna horfið til annarra starfa vegna óánægju með starfskjör sín. Um síðustu áramót ákvað ráðherra heilbrigðismála að herða enn að þeim sem starfa við þessa sérgrein með því að setja sérstaka reglugerð um vottorð. Reglugerðin hafði í för með sér að annars vegar hurfu þessar verktakagreiðslur læknanna í einni svipan og hins vegar fluttist vinna við vottorðagerðina inn á hefðbundinn vinnutíma lækna sem aftur leiddi til þess að lengri bið varð eftir tímum hjá læknum. Læknar fengu að vísu tekjutapið síðar bætt að hluta með úrskurði Kjaranefndar. Þessi aðgerð ráðherra hafði því í för með sér frekari flótta heimilislækna úr faginu og skaðleg áhrif á starfsemi heilsugæslustöðva. Nú eru alls fimmtíu heimilislæknar farnir eða eru að hverfa á braut úr heilsugæslunni.

Heimilislæknar hafa, einir sérfræðimenntaðra lækna, ekki fengið gjaldskrársamning við Tryggingastofnun Ríkisins (TR). Enginn eiginlegur rökstuðningur hefur fylgt þeim ákvörðunum að leyfa heimilislæknum ekki að fá slíkan samning. Tvískiptingu kerfisins sem einhvers staðar er til í gömlum lögum en aldrei í raunveruleikanum, er gjarnan borið við. Nú hafa heimilislæknar sett þá kröfu á oddinn að fá að njóta jafnréttis á við aðra sérfræðimenntaða lækna. Þeir vilja sömu laun fyrir vinnu á stofnunum og sama rétt til að reka sjálfstætt starfandi læknastofur eins og aðrir sérfræðingar. Þessu hefur ráðherra heilbrigðismála ekki viljað verða við. Hann hefur ýmist borið fyrir sig því að hendur hans væru bundnar og hins vegar að hann hreinlega vilji þetta ekki. Á meðan hefur hrunadans heilsugæslunnar haldið áfram og ráðherrann horft á og lengi vel biðlað til Kjaranefndar um að höggva á hnút þessarar óvissu. Ráðherra hefur viljað doka við.

Í þeirri umræðu sem fram hefur farið í haust um málefni heilsugæslunnar og reyndar heilbrigðismál almennt hefur því verið haldið á lofti að stærsta vandamál heilsugæslunnar sé að það vanti afkastahvetjandi þátt í launakjör heimilislækna. Þó nokkrir stjórnmálamenn hafa tekið undir þetta og svo virðist sem menn haldi að með því að láta þá fáu fótgönguliða sem eftir eru í faginu hlaupa hraðar þá leysist vandamál heilsugæslunnar. Minna hefur heyrst af þeirri umræðu að stjórnvöld hafi brugðist hvað varðar uppbyggingu heilsugæslunnar og stórlega þurfi að fjölga stöðugildum heimilislækna þannig að heilsugæslan geti staðið undir nafni. Aðstoðarmaður ráðherra hefur einnig haldið því fram að afköst heimilislækna hafi minnkað, hún "heldur og telur að svo sé" og vitnar í því samhengi í óbirtar niðurstöður rannsókna og skoðana sem til séu í ráðuneyti heilbrigðismála. Engin rannsókn hefur í raun verið gerð um þetta þar sem skoðaðir eru allir þættir málsins. Ljóst er að starf heimilislæknisins hefur breyst umtalsvert á síðustu árum. Heimilislæknar taka sér nú fullt sumarfrí en tóku áður fyrr oft á tíðum aðeins eina til tvær vikur í orlof. Þá hafa fleiri og fleiri sett fram kröfur um vottorð og umsagnir heimilislækna um ýmis mál. Þessi þáttur er auðvitað líka krefjandi og ljóst að hann tekur tíma. Aldurssamsetning íbúanna breytist einnig og fleiri þætti mætti nefna sem þarf að skoða áður en menn fullyrða um breytingu á afköstum. Aðstoðarmaðurinn hefur einnig gefið í skyn að sjálfstæð heilbrigðisstarfsemi sé hættuleg og þeir sem þangað leita hafi verri horfur en þeim sem sinnt er á miðstýrðum opinberum stofnunum.

Löng hefð er fyrir starfsemi sjálfstæðra sérfræðilækna á Íslandi. Það ríkir nokkuð góð sátt um valfrelsi, það er að sjúklingar megi leita þangað sem þeir vilja. Tilvísanakerfi var mikið til umræðu fyrir átta árum síðan. Ákveðið var þá að taka það ekki upp. Útilokað er að taka slíkt kerfi upp í dag og það í raun alls ekki á dagskrá. Í vandræðum sínum við að finna rök fyrir því að halda heimilislæknum innan girðingar reyna stjórnvöld að vekja upp þennan gamla draug um tilvísanir, ómögulegt sé að leyfa heimilislæknum að fá sömu kjör og aðrir. Þá þurfi tilvísanakerfi frekar að koma til. Slíkar fullyrðingar eru til þess eins ætlaðar að reyna að reka fleyg á milli heimilislækna og annarra sérfræðilækna.

Kjaranefndarúrskurður sá er ráðherra heilbrigðismál hafði beðið eftir leit síðan dagsins ljós þann 15. október síðastliðinn. Örfáum mínútum eftir að úrskurðurinn var birtur boðaði yfirstjórn Heilsugæslunnar í Reykjavík til blaðamannafundar og kynnti úrskurðinn sem tímamótaúrskurð. Heimilislæknar gætu nú nánast ákveðið sín laun sjálfir, bara nefna töluna og rétta út hendina. Við nánari skoðun kemur í ljós að úrskurðurinn hefur það í för með sér að unglæknar snarlækka í launum og ljóst að þeir hverfa hratt úr heilsugæslunni, læknar á heilbrigðisstofnunum úti á landi tapa stórum hluta af sínum vaktagreiðslum og laun heimilislækna á höfuðborgarsvæðinu hreyfast ýmist lítið eitt upp á við eða verulega niður á við. Þannig hefur þessi úrskurður enn aukið á vanda heilsugæslunnar í landinu og búast má við frekari uppsögnum og flótta úr stétt heimilislækna bæði af þéttbýli en ekki síður úr dreifbýli.

Einhugur ríkir meðal félagsmanna um þá réttindastefnu Félags íslenskra heimilislækna að óska sömu kjara og aðrir sérfræðilæknar hafa. Sá einhugur var staðfestur á fjölmennum félagsfundi 22. október síðastliðinn. Ljóst er að tilvera heimilislæknisfræðinnar sem sérgreinar er í húfi. Jafnframt er ljóst að það hriktir hressilega í grunnstoðum heilbrigðiskerfisins og hrunadansinn heldur áfram. Ráðherra heilbrigðismál getur ekki horft lengur á, hann verður að taka af skarið. Lausnin felst í samkomulagi við heimilislækna sem felur í sér þrennt. Í fyrsta lagi sömu grunnlaun og aðrir sérfræðilæknar. Í öðru lagi sömu réttindi til stofureksturs og í þriðja lagi samkomulag um að fara undan kjaranefnd.

Haldi heilbrigðisráðherra áfram að horfa á hrunadans heilsugæslunnar er hætt við að hann grípi aðeins í skottið á skugganum þegar loksins verður brugðist við.

Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica