Umræða fréttir

Lýðheilsa snertir okkur öll - segir Geir Gunnlaugsson formaður nýstofnaðs Félags um lýðheilsu

Í byrjun desember var haldinn stofnfundur Félags um lýðheilsu og fór hann fram í Heilsuverndarstöðinni í Reykjavík. Fundurinn var vel sóttur og meðal fundarmanna voru heilbrigðisráðherra, landlæknir og forystumenn úr læknafélögunum. Félaginu var kosin stjórn en formaður hennar er Geir Gunnlaugsson yfirlæknir á Miðstöð heilsuverndar barna til húsa í Heilsuverndarstöðinni. Læknablaðið tók Geir tali og innti hann fyrst eftir því hver tildrög þessarar félagsstofnunar hafi verið.

"Upphafið má rekja til námskeiðs um heilsufræðslu og lýðheilsustarf sem haldið var á vegum Endurmenntunarstofnunar Háskóla Íslands síðastliðið vor. Námskeiðið sótti á fjórða tug þátttakenda og í umræðum meðal þátttakenda var þeirri spurningu varpað fram hvort ekki væri tímabært að stofna félag um lýðheilsu. Lýðheilsa er í sjálfu sér ekkert nýnæmi. Hún felst fyrst og fremst í forvarnarstarfi og hefur verið unnið að henni alla síðustu öld ef ekki lengur. Menn finna hins vegar fyrir því núna að það er vaxandi þörf fyrir þverfaglegt samstarf á þessu sviði enda verður forvarnarstarf ekki unnið nema til komi samvinna margra úr ólíkum fögum og mörgum ráðuneytum.

Í framhaldi af þessu var efnt til undirbúningsfundar í maí en þar mætti allstór hópur fólks úr ýmsum starfsgreinum. Þar var Sigrúnu Gunnarsdóttur á Landspítalanum og Önnu Björgu Aradóttur hjá Landlæknisembættinu falið að undirbúa stofnfund og þær höfðu svo samband við mig til skrafs og ráðagerða. Eftir að hafa samið drög að samþykktum félagsins ákváðum að efna til stofnfundar 3. desember. Þangað buðum við heilbrigðisráðherra og landlækni en þeir hafa báðir sýnt þessu málefni mikinn áhuga og stutt okkur með ráðum og dáð."

- Hvernig félag er Félag um lýðheilsu?

"Það er hvorki flokkspólitískt né útibú frá ráðuneytinu eða landlækni heldur vettvangur til þess að ræða lýðheilsu og forvarnir. Þetta er ekki lokaður klúbbur fólks með menntun á sviði heilbrigðismála heldur er félagið opið öllum sem hafa áhuga á lýðheilsu."



Komin í Evrópusamstarf

Félög um lýðheilsu eru starfandi víða um heim og er íslenska félagið þegar orðið aðili að Evrópusamtökum um lýðheilsu. Að þeim samtökum eiga aðild landssamtök um lýðheilsu í 26 löndum Evrópu en samtökin hafa starfað í rúm níu ár.

"Þetta gekk hratt fyrir sig," segir Geir. "Stofnfundurinn var haldinn 3. desember en þann 6. desember var búið að leggja fram umsókn um aðild að Evrópusamtökunum sem þá héldu aðalfund sinn í Brussel. Þar var hún samþykkt með lófataki svo við erum nú fullgildir aðilar. Að þessum samtökum eiga aðild félög í flestum löndum Vestur-Evrópu og æ fleiri lönd í austanverðri álfunni sýna því áhuga og eru með. Samtökin gefa út fræðirit um lýðheilsu, European Journal of Public Health, sem allir félagsmenn fá sent heim til sín sem hluta af félagsgjaldinu.

Mönnum verður æ ljósara að starf að lýðheilsu verður ekki unnið af neinu viti í einu landi því sjúkdómar virða engin landamæri á tímum hnattvæðingar. Sem dæmi má nefna að stuðningur við lýðheilsu í austurhluta Evrópu er óbeinn stuðningur við lýðheilsu hér á landi. Það hrundi ýmislegt með Berlínarmúrnum, þar á meðal mörg forvarnarkerfi sem höfðu verið í gangi. Þar nægir að nefna berklavarnir. Þessi mál snerta því okkur öll."

En hvaða skilning leggur Geir í hugtakið lýðheilsu? Eru það fyrst og fremst forvarnir og almennur áróður fyrir því að fólk stundi holla lífshætti?

"Eigum við ekki að segja að starf okkar snúist um að vekja athygli almennings á flóknu sambandi lífshátta og heilsu. Hin hefðbundna lýðheilsa er fólgin í forvarnarstarfi á borð við það sem unnið er hér á Heilsuverndarstöðinni við heilsuvernd barna og mæðravernd. Slysavarnir eru hluti af lýðheilsu, skimun fyrir krabbameini og starfsemi Hjartaverndar og einnig starf íþróttafélaga svo nokkur dæmi séu tekin. Og ekki má gleyma öllu því starfi sem fram fer í skólum landsins.

Lýðheilsa spannar því mjög vítt svið og vonlaust fyrir okkur að ætla að sinna því öllu. Við eigum eftir að finna hvar við getum gert mest gagn. Við erum að búa til nýjan vettvang þar sem fólk úr ólíkum áttum kemur saman og við eigum eftir að læra að ganga í takt. Það getur verið nógu erfitt innan stétta að finna sameiginlegt göngulag, hvað þá þegar fleiri stéttir koma saman. Þessi mál tengjast líka fleiri ráðuneytum en heilbrigðis- og tryggingaráðuneytinu, til dæmis eru málefni fatlaðra að stórum hluta á vegum félagsmálaráðuneytisins þótt margt í þeirra hagsmunamálum snúi að heilbrigðismálum. Þetta krefst þess að menn vinni saman, ekki bara á þverfaglegan hátt heldur einnig þvert á kerfi og stofnanir."



Þörf fyrir forvarnarmiðstöð

Nú eru ýmis forvarnarkerfi í gangi víða um samfélagið og ekki alltaf mikið samband á milli þeirra. Ráðherra nefndi það á fundinum að hann hefði áhuga á að koma á fót forvarnarmiðstöð. Hvernig líst ykkur á þá hugmynd?

"Ég held að það sé almennur stuðningur við að koma á fót vettvangi þar sem menn vinni saman að forvörnum og málefnum sem snerta lýðheilsu. Kannski var Heilsuverndarstöðin stofnuð sem slík miðstöð, sú var í það minnsta hugmynd Vilmundar Jónssonar landlæknis á sínum tíma. Hér hafa verið berklavarnir, mæðra- og ungbarnaeftirlit og fleira. Þörfin fyrir slíka forvarnarmiðstöð er öllum ljós en menn greinir ef til vill á um endanlegt form hennar og starfssvið.

En hvað sem því líður þá eru verkefni Félags um lýðheilsu ærin en það ræðst þó af þátttöku félagsmanna og dugnaði okkar í stjórninni hvernig okkur gengur að sinna þeim. Við ákváðum á stofnfundinum að allir þeir sem gerast félagsmenn fyrir janúarlok teljist stofnfélagar og því vil ég hvetja alla áhugamenn um lýðheilsu til þess að setja sig í samband við okkur í stjórninni sem fyrst og ganga í félagið og taka þátt í mótun og uppbyggingu þess," sagði Geir Gunnlaugsson.

Auk hans eiga sæti í stjórninni Valgerður Gunnarsdóttir ritari og varaformaður (netfang: vgu@decode.is), Kristinn Tómasson gjaldkeri (kristinn@ver.is), Helga Þorbergsdóttir (helga@sudurland.is) og Sigrún Gunnarsdóttir (sigrugu@landspitali.is) meðstjórnendur og í varastjórn eru Laufey Steingrímsdóttir (laufey@manneldi.is) og Anna Björg Aradóttir (annabara@land-laeknir.is). Netfang formannsins er: geir.gunnlaugsson@hr.is

-ÞH

Tilgangur Félags um lýðheilsu



Í 2. grein laga hins nýstofnaða félags segir svo um tilgang félagsins:

Félag um lýðheilsu er félag fagmanna og áhugafólks um lýðheilsu á Íslandi. Tilgangur félagsins er að:

o Hvetja til þess að heilbrigðissjónarmiða sem byggð eru á bestu þekkingu á hverjum tíma sé gætt við stefnumótun og aðgerðir stjórnvalda.

o Vekja athygli almennings á möguleikum til að hafa áhrif á eigið heilbrigði og leiðir til heilsueflingar.

o Hvetja til samstarfs þeirra sem starfa á vettvangi lýðheilsu og þeirra sem geta haft áhrif á heilsufar og velferð landsmanna, s.s. sveitarfélaga, skóla og stofnana.

o Vinna að bættu heilsufari þjóðarinnar með því að standa vörð um gæði þjónustu á sviði lýðheilsu og jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu.

o Stuðla að menntun, þróun og rannsóknum á sviði lýðheilsu og beitingu viðurkenndra aðferða við mat á árangri verkefna.

Starf félagsins grundvallast á hugmyndum um jafnræði til heilbrigði. Félagið leggur áherslu á félagslegt réttlæti, jafnrétti, tjáningarfrelsi, frið, gagnkvæma virðingu og umburðarlyndi í samskiptum og skoðanaskiptum ...

Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica