Íðorðapistlar 1-130

Fylgt úr hlaði

Síðastliðinn áratug hefir Jóhann Heiðar Jóhannsson læknir annast fastan íðorðapistil í Læknablaðinu. Hér er um nýmæli að ræða, þó íðorðasmíð í læknisfræði eigi sér langa hefð hér á landi.

Til er íslenzkur texti með þýðingum úr Liber herbarum, latneskum texta handbókar danska læknisins Henriks Harpestræng, sem var samtímamaður Hrafns Sveinbjarnarsonar á Eyri. Íslenzka handritið, sem varðveitt er í Trinity College í Dublin, er hins vegar frá lokum fimmtándu aldar, rúmri hálfri öld eldra en þýðing Odds Gottskálkssonar á Nýja testamentinu. Yngri handrit sýna, að áfram rituðu Íslendingar á móðurmálinu um lækningar og vísindi og á upplýsingaöldinni var málverndarstefnan skýrt mörkuð.

Á átjándu öld seig hins vegar á ógæfuhliðina. Kjartan G. Ottósson segir frá því í sögulegu yfirliti um íslenzka málhreinsun, að Guðmundur Björnsson, kennari við Læknaskólann og síðar landlæknir, hafi leitast við að setja íslenzk heiti í stað þeirra erlendu, en reyndin þó orðið sú, að lengi vel hafi læknar verið mjög tregir til að nota íslenzku orðin, jafnvel á prenti. Guðmundur birti árið 1916 í Læknablaðinu harða ádrepu um málfarið á málgagni læknastéttarinnar og taldi það þjóðarhneisu.

Vilmundur Jónsson landlæknir, eftirmaður Guðmundar, var einnig frjór nýyrðasmiður og átti við um báða að orðasmíð þeirra var ekki bundin við læknisfræðina. Frá Vilmundi og samstarfsmönnum hans komu meðal annars þýðingar á alþjóðlegu sjúkdómaskránum. Eitthvað virðist hafa bögglast fyrir læknum að fylgja góðu fordæmi, því að árið 1955 telur Vilmundur málfari Læknablaðsins afar ábótavant og telur að máli lækna hafi stórhrakað síðan 1916.

Guðmundur Hannesson prófessor ræddi á fjórða áratugnum um það, að alþjóðleg menning hafi brotizt inn í landið og flætt yfir alla bakka og erlendu heitin, sem hafi fylgt, hafi verið margvíslega brengluð og afskræmd í daglegu tali. Hann taldi að íslenzkað skyldi allt sem íslenzkað yrði og hann lagði ásamt Vilmundi Jónssyni grunninn að íðorðastarfi í læknisfræði.

Áfram er þó við sama vanda að stríða, því sífellt bætast við erlend hugtök og heiti. Það er í ljósi þessa, sem mat verður lagt á framlag Jóhanns Heiðars. Mikilvægi þess felst í því, að hann veitir okkur innsýn í umræðu um íðorðasmíð í læknisfræði og við fræðumst um það, hvernig má mynda ný íðorð og hvaða aðferðum er hægt að beita. Í þessu yfirlitsriti sýnist mér kominn efniviður í kennslubálk í íðorðasmíðum.

Ég las pistlana mér til gagns og ánægju jafn óðum og þeir birtust. Það var ekki fyrri en ég las yfir handritið í heild, að ég gerði mér grein fyrir því, hvílíka feiknavinnu Jóhann Heiðar hefir þegar lagt í verkið. Hafi hann þökk fyrir frábært starf.



Á Þorra árið 2001

Til baka Senda grein



Þetta vefsvæði byggir á Eplica