Íðorðapistlar 1-130

002-Líffæra- og vefjafræðiheitin

Orðanefnd læknafélaganna starfar áfram að þýðingum fræðiorða. Nýlega var lokið við fyrstu yfirferð á líffæraheitunum, Nomina Anatomica. Það verk hefur nú tekið um það bil eitt ár. Ætlun nefndarinnar er að líffæraheitin komi út í bókarformi þegar endanlegum samlestri og frágangi er lokið.

Alþjóðleg og íslensk líffæraheiti Guðmundar Hannessonar voru gefin út í endurskoðaðri útgáfu af prófessor Jóni Steffensen árið 1956. Líffæraheitin hafa verið endurskoðuð með reglulegu millibili af alþjóðlegri samstarfsnefnd og full þörf er orðin á nýrri íslenskri þýðingu.

Næsta verkefni Orðanefndarinnar er þýðing vefjafræðiheitanna, Nomina Histologica. Jafnframt því verður tekið til við að safna orðum og setja saman valin orðasöfn fyrir sérgreinar læknisfræðinnar eftir því sem tími og áhugi standa til. Mikilvægt er að þau sérgreinafélög, sem áhuga kynnu að hafa, láti frá sér heyra eða tilnefni menn til samstarfs við Orðanefndina.



Snjöll nýyrði

Vafalítið hafa margir íslenskir læknar spreytt sig á íslenskun fræðiorða og eiga þeir sjálfsagt mörg snjöll nýyrði í fórum sínum. Orðanefndinni væri mikill fengur að því að fá sendar tillögur lækna að íslenskum þýðingum á hvers kyns erlendum fræðiorðum sem þeir nota í starfi sínu. Íðorðasafnið þarf að vera í stöðugri endurskoðun, meðal annars vegna þess að ný þekking og ný tækni krefjast nýrra orða og hugtaka. Þá ber þess að gæta að íðorðasmíð er fremur í ætt við tillögugerð en lagasetningu og að sum orðin ná ekki fótfestu, hversu góð sem þau annars kunna að vera. Nýrra tillagna er því stöðug þörf.



Íslenskun læknisfræðiheita

Heyrst hefur að sumum læknum þyki lítið til þessa starfs Orðanefndarinnar koma. Dæmi um slíkt kom fram í bréfi sem Læknablaðinu barst nýlega: "Auk þess tröllríður íslenskun læknisfræðiheita svo síðum blaðsins, að margar greinar eru nánast óskiljanlegar. Ástkæra ylhýra málið er okkur öllum mikilvægt, en fyrr má nú rota en dauðrota. Hvað um það, íslenskukunnátta undirritaðs er enn nóg til að skilja Fréttabréfið,..."

Vonandi heyrir þetta sjónarmið þó til undantekninga því að oftar heyrist einmitt gagnrýni á hendur læknum fyrir það að nota ekki íslensku þegar þeir eru að tala um sjúkdóma og sjúkdómseinkenni við sjúklinga sína. Læknaslangur tröllríður enn mörgum fundum og samkomum lækna, dagleg umræða fer að verulegu leyti fram á "læknamáli" og sjúkraskrár og skýrslur lækna eru oft ekki til neinnar fyrirmyndar. Enginn vafi er þó á því að málfar lækna í rituðu máli, bæði í Læknablaðinu og á ýmsum öðrum vettvangi, hefur batnað á síðustu árum. Almenningur hefur vaknað til vitundar um málvernd og háskólaborgarar mega nú ekki láta sitt eftir liggja varðandi málvöndunarátak í fræðigreinum sínum. Það væri læknum til sóma að efla enn frekar málræktarstarfið og að gera notkun íslenskra fræðiheita að daglegum viðburði.



FL 1990; 8(1): 2
Til baka Senda grein



Þetta vefsvæði byggir á Eplica