Íðorðapistlar 1-130

003-Orðaþáttur

"Ritstjórar Læknablaðsins hafa áþreifanlega orðið varir við það, að oft er erfitt, að hafa upp á nýyrðum við hæfi og oft eru mismunandi heiti á sama hugtaki í gangi samtímis. Það hefur verið og er stefna ritstjórnar Læknablaðsins, að íslenzka skuli allt það, sem íslenzkað verður."

Með þessum orðum Arnar Bjarnasonar, formanns Orðanefndar læknafélaganna er fram haldið orðaþætti í Fréttabréfi lækna. Svo hefur um samist að undirritaður leggi til efni fyrst um sinn. Það er þó að nokkru leyti undir viðtökum lesendanna komið hvert framhaldið verður. Læknar og aðrir þeir, sem fréttabréfið lesa, eru hér með beðnir að koma á framfæri athugasemdum í orðaþáttinn og tillögum, sem gætu komið að gagni við vinnslu og endurskoðun Íðorðasafns lækna. Senda má slíkt bréflega til undirritaðs, Orðanefnd læknafélaganna, Domus Medica, Egilsgötu, 101 Reykjavík, en símleg og óformleg skilaboð hvers konar eru einnig velkomin á vinnustað á Rannsóknastofu Háskólans, Barónsstíg, sími: 601900, en þá einungis á venjulegum umsömdum vinnutíma ríkisstarfsmanna! Hvatleg hróp og köll á götum úti, eða símtöl að næturlagi eru frábeðin nema erindið sé þeim mun brýnna og geti alls ekki beðið næsta dags.Íðorðasafnið

Íðorðasafnið er í raun og veru hin skemmtilegasta lesning og oft hefur það komið fyrir undirritaðan að hlæja upphátt þegar augun hafa hlaupið útundan sér og staðnæmst á ýmsum furðuorðum sem læknar virðast nota. Nefna má amor insanus, whisky nose, nasus aduncus, facies abdominalis og quinsy. Íðorðasafnið er þó ekki fyrst og fremst hugsað sem skemmtiefni heldur sem hjálpargagn til þess að koma læknisfræðilegri hugsun til skila á íslensku og til þess að losna við það málfjöllyndi sem læknar iðka í daglegu starfi. Reyndar fer ekki hjá því að sumir frasar í sjúkdómstali og sjúkraskrám missi einhvern svip þegar þeir birtast á íslensku, svo sem: "maðurinn konfabúlerar" verður einfaldlega "maðurinn þvælir" og fullyrðingin "sjúklingurinn er með konfúsíó mentis" gæti á sama hátt orðið "sjúklingurinn er létt ruglaður". Þann hátíðleika, sem tapast við íslenskun, má hins vegar endurheimta með því að nota forn orð eða flóknar samsetningar, til dæmis vélindisgapshaull, njóratá, sinarslíðursrisafrumuhnútur, linkuþverlömun, slagbilsnötur eða aðfallsmurr.Orðanefndin

Að öllu gamni slepptu þá vinnur Orðanefndin áfram af kappi og af einlægni við að þýða erlend fræðiorð og safna íslenskum læknisfræðiorðum, sem aðgengileg eru.

Í lokin er lýst eftir tillögum að íslenskun á eftirtöldum orðum og hugtökum: agonal, bioelement, chelate, dysplasia, epicrisis, fusion beat, gavage, hypercalciuria, infestation, keratoacanthoma, lichen planopilaris, menometrorrhagia, normokalemic, prosthetic.

FL 1990; 8(2): 2
Til baka Senda greinÞetta vefsvæði byggir á Eplica