Íðorðapistlar 1-130

006-Kyrningur

Kyrningur er vafalítið gott heiti á granulocytus ef það er frátekið til þeirra nota. Vissulega kæmi einnig til greina að hafa orðið kyrningur almennara og nota það um allar kornóttar frumur. Síðan mætti velja samsett orð fyrir kornótt hvítkorn, til dæmis hvítkyrningur eða blóðkyrningur. Heppilegra er þó að velja stutt og þjál heiti á algeng fyrirbæri. Kyrningur getur farið vel í samsetningum þegar verið er að nefna undirtegundir hvítkornanna, til dæmis getur granulocytus eosinophilicus heitið rauðkyrningur, vegna kornanna sem litast sterkrauð með eósíni, og granulocytus basophilicus gæti þá heitið blákyrningur, á sama hátt dregið af sterkbláum lit frymiskornanna eftir litun. Sýrusækinn kyrningur og lútsækinn kyrningur eru hins vegar stirðlegar samsetningar, sem vafalítið munu ekki ná mikilli útbreiðslu. Sýrukyrningur og lútkyrningur eru óheppileg orð, meðal annars vegna þess að þau heiti geta valdið ónauðsynlegum heilabrotum hjá nemendum, en lútsækin korn binda lút af því að þau eru súr, og sýrusækin korn binda sýru af því að þau innihalda lút!



Daufkyrningur

Þá er komið að granulocytus neutrophilicus, sem í handriti Orðanefndar nefnist hlutleysiskyrningur. Auðvelt er að spá því að það orð verði ekki vinsælt í daglegu amstri við úrlestur blóðrannsókna. Hér er því þörf á nýjum tillögum. Sé kyrningaleiknum haldið áfram má stinga upp á öðrum orðum eins og til dæmis bleikkyrningur, vegna litunarviðbragða; daufkyrningur, vegna lítilla viðbragða gegn sýrum og lút; eða tvíkyrningur, vegna þess að þessar frumur innihalda tvær tegundir af frymiskornum. Gaman væri að heyra fleiri tillögur og ferskar hugmyndir.



Kjarnar kyrninganna

Umræðu um hvítkyrninga er þó síður en svo lokið. Kjarnar kyrninganna eru margbreytilegir að útliti og því eru þessar frumur oft nefndar polymorphonuclear leukocytes á ensku. Enn má leita í grísku til útskýringar, en orðið polys merkir þar marg- eða fjöl- og morphe táknar form eða gerð. Kjarna þessara frumna mætti því kalla fjölgerðarkjarna og frumurnar fjölgerðarkjörnunga. Þetta er ekki nógu lipurt og stytting í fjölkjörnunga gengur heldur ekki, því það orð hæfir betur frumum, sem hafa marga kjarna.

Flipkjörnungar, geirkjörnungar

Á ensku og amerísku læknaslangri er polymorphonuclear leukocyte oft stytt í "poly". Þá kemur í hugann íslenska gælunafnið Fjölli (fjölkjörnungur) sem notað er fyrir mannsnafnið Fjölnir. Íðorðasafnið nefnir þessar frumur flipkjarna hvítfrumur, en þar er verið að vísa í útlit kjarnanna. Kjarnar fullþroska hvítkyrninga greinast venjulega í 3-5 samtengda flipa eða snepla, og eftir því nefnast frumurnar segmented leukocytes, sem vel fer á að nefna flipkjörnunga. Önnur tillaga í Íðorðasafninu gerir ráð fyrir að segmented cell fái hið stirðlega heiti kjarnadeildafruma. Þá liggur fyrir tillaga í Nomina Histologica um að klofinn kjarni, nucleus segmentalis, fái heitið geirakjarni til samræmingar við heiti í Nomina Anatomica þar sem segmentum í líffæri er kallaður geiri. Í framhaldi af því má gera tillögu um að frumurnar verði kallaðar geirkjörnungar.



Stafir og sneplar

Þessar tvær tillögur má skoða í samhengi við aðgreiningu á óþroskuðum kyrningum með staflaga kjörnum, sem í daglegu tali nefnast stafir, og þroskuðum kyrningum með margskipta kjarna (segment), sem mætti þá nefna flipa, snepla eða geira. Það kæmi jafnvel til greina að taka upp nýyrðið flipill, en samstæðan "stafir og sneplar" hljómar þó óneitanlega betur en "stafir og fliplar".

FL 1990; 8(5): 4
Til baka Senda grein



Þetta vefsvæði byggir á Eplica