Íðorðapistlar 1-130

007-Ýmislegt smálegt

Í þessum orðaþætti verður fjallað um ýmislegt smálegt. Læknar og aðrir, sem lesa þessar línur, eru hvattir til að senda hugmyndir, tillögur og athugasemdir til Orðanefndar Læknafélaganna, Domus Medica, Egilsgötu 3, 101 Reykjavík, eða til undirritaðs á Rannsóknastofu Háskólans v. Barónsstíg, pósthólf 1465, 121 Reykjavík. Nokkrir læknar hafa þegar komið á framfæri tillögum og verða þeim gerð skil síðar. Sérstaklega er óskað eftir tillögum að orðum fyrir þau fræðiorð í Íðorðasafninu, sem eru merkt með spurningarmerki "?" í stað þýðingar.



Heiladauði

Fyrst verður gripið niður í ritstjórnargrein um dauðaskilgreiningu og líffæraflutninga í febrúarhefti Læknablaðsins 1990. Höfundur ræðir meðal annars um notkun orðsins heiladauði, sem er þýðing á "brain death". Hann telur að þetta orð, "heiladauði", geti valdið misskilningi í umræðu og stingur upp á að hugleitt verði hvort í þess stað megi nota orðið "heiladrep".

Undirritaður leggst eindregið gegn því að orðið drep verði notað í þessu samhengi. Íslenska orðið drep er haft til þýðingar á fræðiheitinu necrosis, en það táknar hvorki frumu- né líkamsdauða heldur "þá myndbreytingu sem verður í frumum og vefjum eftir dauða þeirra í lifandi líkama". Höfundur vísar í orðið hjartadrep og telur það sambærilegt við heiladrep = brain death, en svo er ekki, því að hjartadrep táknar infarctus myocardii = fleygdrep í hjarta. Heiladrep merkir því infarctus cerebri, staðbundið drep í heilavef. Brain death táknar hins vegar heilaskemmd sem er svo alger og útbreidd að engin merki finnast um heilastarfsemi. Í Íðorðasafninu er brain death þýtt sem heiladauði, en segja má að það sé að vissu marki óheppilegt, til dæmis í samanburði við notkun orðsins "hjartadauði" í merkingunni "dauðsfall af völdum hjartasjúkdóms".

Hér er því ekki nóg að þýða ensku orðin beint, heldur þarf hugmyndin um hugtakið, sem að baki liggur, að komast til skila. Um brain death mætti nota samsetningar eins og til dæmis "alger heilaskemmd", en betra væri að finna eitt lipurt orð um þetta hugtak, svo sem heilaþurrð, heilabrigð eða heilaspell. Óskað er eftir fleiri hugmyndum og tillögum.



Heiti á æxlum

Þýðingar á heitum ýmissa sjúkdóma geta verið mjög erfiðar, en sérstaklega á það við um heiti á æxlum, bæði góðkynja og illkynja, því að æxli fá heiti eftir ýmsum leiðum. Fyrrum voru ýmis æxli kennd við þá lækna eða vísindamenn, sem fyrstir gerðu skilmerkilega grein fyrir þeim. Það nægir að nefna Wilms´ tumor og Ewing´s tumor sem dæmi um slíkt. Önnur tóku nöfn eftir efnum, sem æxlin framleiddu, til dæmis insulinoma og mucinous carcinoma; frumugerð, til dæmis basal cell carcinoma og squamous cell carcinoma; eða útlitseinkennum, til dæmis papilloma, cystadenoma og svo framvegis.

Kerfisbundnar nafngiftir eiga sér einnig langa sögu og eru meðal annars gagnlegar til að auðvelda samanburð á árangri meðferðar. Ýmist er þá miðað við vefjauppruna, frumugerð eða önnur atriði, sem gefa lýsingu á útliti eða eðli hvers æxlis. Mörg af þessum kerfisbundnu heitum verða löng og flókin, til dæmis large cell carcinoma, nonkeratinizing type, og verða af þeim sökum tæpast þýdd lipurlega á íslenska tungu.



Stefnumörkun

Því má spyrja um stefnumörkun í þýðingum á heitum æxla, en ýmislegt virðist koma til greina á því sviði. Í fyrsta lagi mætti fylgja þeirri meginstefnu, sem tekin hefur verið við þýðingar á heitunum í Nomina Anatomica og Nomina Histologica, og þýða beint yfir á íslensku, bæði orð og orðhluta. Þetta hefur þann kost að kerfissetningin kemst vel til skila, en þann ókost að mörg heitin verða löng og flókin. Í öðru lagi mætti fylgja þeirri stefnu, sem er að verulegu leyti viðhöfð við nafngiftir lyfja, að þýða sem minnst, en færa þess í stað fræðiorð til hljóðréttrar íslenskrar stafsetningar.

Þess konar samræming við erlend heiti getur verið æskileg, en hætt er við að ýmsum þyki niðurlæging í því fólgin að nota ekki séríslensk heiti þegar það er hægt, enda hafa mörg æxlisheiti þegar verið íslenskuð svo að sómi er að. Nefna má nokkur vel þekkt dæmi. Latneska orðið cancer er notað um illkynja æxli, en þau fá heitið krabbi á íslensku. Tveir meginflokkar illkynja æxla eru carcinoma (G: karkinos = krabbi), og sarcoma (G: sarx = kjöt- eða holdkenndur útvöxtur). Carcinoma eru illkynja æxli af þekjuvefsuppruna og kallast á íslensku krabbamein, en sarcoma eru hins vegar af stoðvefjauppruna og nefnast sarkmein. Þessi aðgreining er gagnleg, en hins vegar er orðið krabbamein oftast notað sem samheiti um öll illkynja æxli og því má segja að æskilegt væri að finna nýtt samheiti á illkynja æxli af þekjuvefsuppruna. Jafnframt væri rétt að huga að kerfisbundnum en liprum nafngiftum til aðgreiningar á góðkynja og illkynja æxlum, eins og gert er á latínu með heitunum adenoma og adenocarcinoma eða leiomyoma og leiomyosarcoma.



Gamalt sendibréf

Prófessor Ólafur Bjarnason, fyrrum ritstjóri Læknablaðsins, skaut að undirrituðum sendibréfi úr ritstjóratíð sinni: "Kæri ritstjóri Læknablaðsins! Það er sagt að læknamál nú á dögum sé ömurlegust íslenska bæði í ræðu og riti síðan Kansellístíllinn var aflagður. Þó finnst mér það brot á öllu velsæmi að fara að prenta hluta af Læknablaðinu á dönsku (samanber 2. hefti ´63) og það jafnvel grein eftir íslenzkan höfund. Það er líkast því að skjóta sjúkling, sem er að vísu dálítið lasinn en engan vegin ólæknandi. Collegialiter." (Sign).

Þetta bréf er birt til gamans og til að sýna að á öllum tímum hafa læknar haft ákveðnar skoðanir á því hvernig staðið skuli að málvernd í læknisfræði.



Læknaslangur

Íðorðasmíð, þýðingar og stöðlun ritmáls í Læknablaðinu duga þó ekki til að ráða bug á því læknaslangri sem við látum okkur um munn fara dag hvern. Áður hefur verið drepið á nauðsyn þess að taka til hendinni við málvöndun í gögnum og skýrslum heilbrigðiskerfisins. En við verðum einnig að vanda okkur á fundum, í kennslustundum og hvar sem rætt er um læknisfræðilegt efni.

Tilefni þessara orða er annars ágætur læknisfræðilegur fyrirlestur sem undirritaður hlýddi á fyrir skömmu. Þar mátti heyra læknaslangur eins og það gerist verst. Auk ótal fræðiheita hirti fyrirlesari ekki um að þýða orðin: data (gögn, upplýsingar), stúdía (rannsókn, könnun), lesjón (meinsemd), test (próf), fatal (banvænn), abnormal (óeðlilegur), extensívur (stór, útbreiddur), lókalíserað (staðbundið) og intressant (áhugaverður). Er nema von að manni blöskri!



Tillögur óskast

Að lokum er lýst eftir tillögum að þýðingum á nokkrum fræðiorðum: adenolymphoma, anisocytosis, atopy, dispermy, dystaxia, epitope, epithelioid cell, fenestration, eventration, fibrosing, gynandroblastoma, homocytotropic, hydropericarditis, normokalemic og mesangial cell.

FL 1990; 8(6): 16-17
Til baka Senda grein



Þetta vefsvæði byggir á Eplica