Íðorðapistlar 1-130

011-Athugasemdir við tillögur

Nokkrar athugasemdir hafa verið gerðar við þær tillögur sem settar voru fram í síðasta orðapistli.

Cyclopia er komið af grísku orðunum kyklos sem merkir hringur og ops sem merkir auga. Þetta orð er hins vegar ekki notað um hringlaga augu heldur um samrunnin augu og samheiti er synopthalmia. Einn orðanefndarmanna taldi að eineygð færi betur en einglyrnun, samanber rangeygð. Þá gæti sameygð einnig komið til greina.

Menometrorrhagia er einnig komið úr grísku, men sem merkir mánuður, metra sem merkir leg og -rrhagia sem merkir flóð eða flæði. Auk tillögu um að þýða með samsetningunni asa- og ringultíðir er stungið upp á öðrum samsetningum, asa- og óreglutíðir eða rosa- og ringultíðir.



Þrengsli

Á síðasta orðanefndarfundi var meðal annars rætt um ýmis af þeim orðum sem notuð eru um þrengsli í holi, rás eða göngum. Ástæða er til að greina frá nokkrum atriðum úr þeirri umræðu. Í Íðorðasafninu er arctation þýtt sem þrengsli, þröng eða herping, coarctation sem þrenging, constriction sem herping eða reyring, stenosis ýmist sem þrengsli eða þröng, strangulation sem kyrking, kæfing eða reyring og stricture sem þrengsli, þröng eða herping.

Þegar flett er í erlendum orðabókum kemur í ljós að þessi fræðiorð eru að miklu leyti samheiti, en vafalítið eru þó blæbrigði í merkingu. Arctation er nú lítið eða ekkert notað og coarctation virðist eingöngu notað um ósæðarþrengingu. Constriction kemur fyrir í constrictive pericarditis, sem reyndar er ekki nógu nákvæmlega þýtt í Íðorðasafni lækna, því að með þýðingunni gollursþrenging tapast tilvísun í þá bólgu, sem leiðir til þrengingar. Samsetningarnar þrengjandi gollursbólga eða herpandi gollursbólga eru nákvæmari, en ef til vill mætti stytta með því að búa til nafnorðið "herpa" og tala um gollursbólguherpu. Stenosis er fyrst og fremst notað um þrengsli í hjartalokum og vel fer á því að halda til streitu þeirri stefnu sem örlar á í Íðorðasafninu, en það er að nota orðið þröng, til dæmis míturlokuþröng og þrílokuþröng. Strangulation er notað um kyrkingu, til dæmis þegar öndunarfærum er lokað með snöru um háls, og einnig þegar haull eða görn lenda í snöru þannig að blóðrás stöðvast. Orðin haulkyrking eða kyrkingarhaull virðast nothæf og því óþarft að þýða þetta sem haulkreppa.



Adrenogenital syndrome

Virtur starfsbróðir kom að máli við undirritaðan og sagðist vera að hugsa um þýðingarmöguleika. Hann var hins vegar ekki enn tilbúinn til þess að deila hugleiðingum sínum með lesendum íðorðapistils. Til að koma umræðu af stað má þó kasta fram einhverjum tillögum.

Íðorðasafnið þýðir syndrome sem heilkenni og útskýrir á þann veg að um heild einkenna og teikna sé að ræða. Syndrome er annað en sjúkdómur, því að sjúkdóm auðkenna ekki eingöngu einkenni og teikn, heldur einnig orsakir, vefjabreytingar og starfrænar truflanir. Það verður að viðurkennast að undirrituðum hefur aldrei líkað við orðið heilkenni og hefur þótt eðlilegra að nota orðið samstæða. Adreno- vísar að sjálfsögðu í nýril eða nýrahettu og genital- vísar í kynfæri. Ofannefnd samstæða kemur fram þegar um er að ræða ofseytingu (hypersecretion) hormóna úr nýrnahettum, þannig að kynfæri kven- eða karlgerast óeðlilega, auk annarra áhrifa hormónanna.

Beinar þýðingar væru til dæmis nýril- og kynfærasamstæða, nýril- og kynfæraheilkenni, nýrahettu- og skapasamstæða og svo framvegis. Gott væri að fá fleiri hugmyndir til að vinna úr.



FL 1990; 8(10): 9
Til baka Senda grein



Þetta vefsvæði byggir á Eplica