Íðorðapistlar 1-130

012-Erlend lyfjaheiti

Í Þessum Þætti verÐur fjallaÐ um ÞaÐ hvernig rita skuli erlend lyfjaheiti í íslenskum texta. Ritstjórn Læknablaðsins boðaði Orðanefnd lyfjafræðinga og Orðanefnd lækna til samráðsfundar um þetta efni nú í byrjun október. Tilefnið var meðal annars skoðanamunur, sem fram hafði komið í ritstjórninni, en tilgangurinn var að freista þess að ná formlegu samkomulagi milli lækna og lyfjafræðinga um rithátt lyfjaheita. Undirrituðum var falið að kynna þetta mál fyrir læknum í íðorðapistli Fréttabréfs lækna.Fastur ritháttur

Hugmyndin er sú að koma megi á fastri venju um rithátt erlendra lyfjaheita þegar þau koma fyrir í íslenskum texta, helst með því að setja einfaldar reglur um umritun erlendu heitanna og stafsetningu þeirra á íslenska vísu. Ljóst er að lyfjaheiti er almennt ekki hægt að þýða á íslensku svo vel fari, enda vafasamt að stirðlegar íslenskar þýðingar og fornleg heiti yrðu notuð í stað þeirra erlendu. Hvernig væri til dæmis hægt að þýða diazepamum eða acidum acetylsalicylicum svo að skiljanlegt yrði? Auk þess má gera ráð fyrir að þýðingar á heitum nýrra lyfja tækju oft meiri tíma en svo að þau næðu að festa sig í sessi áður en þau erlendu væru orðin mönnum munntöm.Umritun lyfjaheita

Gert er því ráð fyrir að erlend lyfjaheiti verði ekki þýdd heldur umrituð þannig að þau fái á sig yfirbragð og útlit íslenskra orða og geti síðan meðal annars tekið íslenskum beygingum eins og samhengi textans kallar á. Þessi stefna er ekki ný af nálinni því að um nokkurt árabil hafa verið gerðar tilraunir með að stafsetja lyfjasamheiti á íslenska vísu. Til staðfestingar nægir að vísa í meðferð samheita í þeim íslensku lyfjabókum, sem út hafa komið á síðustu árum, og í Sérlyfjaskrá Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins. Rétt er að taka það fram að hér er ekki gert ráð fyrir neinni umritun sérlyfjaheita, enda væri það sjálfsagt ólöglegt. Hitt er svo annað mál hvort ekki megi síðar taka upp þá stefnu að sérlyfjaheiti fái íslenskan rithátt við skráningu þeirra á Íslandi.Latnesku lyfjaheitin

Gera má ráð fyrir að til grundvallar íslensku lyfjaheitunum megi leggja þau latnesku lyfjaheiti sem samþykkt hafa verið af Alþjóða heilbrigðismálastofnuninni (WHO), svonefnd INN-nöfn (International Non-proprietary Names). Síðan verði þessi latnesku heiti umrituð til notkunar í íslenskum textum eins og reglur eða venjur segja til um. Þó verður að gera ráð fyrir að ýmis almenn heiti verði þýdd, svo sem acidum og oleum, sömuleiðis heiti lyfjaflokkanna samkvæmt ATC-kerfi (Anatomical-Therapeutical-Chemical Classification). Stefna verður að því að breyta lyfjaheitunum ekki meira en svo með umritun, að auðvelt verði að fletta upp í INN-skránni eða sambærilegum erlendum lyfjabókum. Í mörgum heitum munu latneskar endingar falla niður og íslenskar koma í staðinn og nauðsynlegt getur orðið að velja sumum lyfjaheitunum kyn svo að þau geti tekið við ákveðnum greini og beygingarendingum.Hljóðrétt stafsetning

Stafsetningu lyfjaheitanna verði hagað þannig að hún sé nánast hljóðrétt miðað við latínuna, en að sérstakar venjur úr öðrum tungumálum, til dæmis ensku eða amerísku, fái ekki að ráða. Talið er að ritháttur latínu hafi upphaflega verið nánast hljóðréttur og því ætti þetta að geta tekist. Hitt er svo annað mál að ýmsar venjur hafa þegar skapast í framburði erlendra lyfjaheita hér á landi og vera má að í sumum tilvikum verði að gera einhverja málamiðlun.FL 1990; 8(11): 7
Til baka Senda greinÞetta vefsvæði byggir á Eplica