Íðorðapistlar 1-130

013-Segulómskoðun

Orðið segulómskoðun hefur nÝlega komið fram sem þýðing á erlenda heitinu Magnetic Resonance Imaging (MRI). Hér er annars vegar vísað til segulsviðs og hins vegar til samómunar eða samhljómunar eins og í erlenda orðinu. Gallar þessarar þýðingar eru þrenns konar:



Magnetic resonance

Við magnetic resonance rannsókn er sjúklingi stungið inn í risavaxinn, tunnulaga segul og er hann baðaður þar í sterku segulsviði. Það eru í raun róteindir vetnisfrumeindanna í líkama sjúklings, sem skoðaðar eru við þessa rannsókn. Þar sem róteindir eru rafhlaðnar og snúast um öxul sinn eru þær sem litlir seglar. Staða þessara segla í segulsviði, og breytilegt orkustig, er forsenda þeirra boða, sem berast til nema tækisins. Boðmiðillinn er rafsegulöldur af þeirri bylgjulengd sem oftast flokkast undir útvarpsöldur. Inn í líkama sjúklings eru sendar útvarpsöldur af ákveðinni bylgjulengd, endurvarp þeirra numið og tölva síðan látin byggja upp sneiðmynd. Róteindirnar endurvarpa rafsegulöldunum, en þessar eindir eru eins og litlar snældur eða snúðar, eins og fyrr segir.



Íslensk heiti

Þar eð boðmiðillinn er útvarpsalda, væri hægt að tengja íslenskt heiti því fyrirbæri, en þar eð orðið útvarp er þegar tengt svo mörgu í nútíma þjóðfélagi, verður að telja það fullnýtt. Ef höfðað væri til róteindanna, sem snúast um öxul sinn, væri hugsanlegt að mynda orð sem tengdust snældu, snúð eða spuna og þá væri til dæmis hægt að kalla rannsóknartækið rokk. Ekki er þó verið að mæla með þessu, en því slegið fram meir til gamans. Beinna liggur við að höfða til seglanna og segulsviðsins og væri rannsóknartækið þá kallað segulsjá, rannsóknin segulskoðun og myndirnar segulsneiðar. Fellur þetta ágætlega að þeirri staðreynd, að sjúklingurinn er rannsakaður í sterku segulsviði, litlir seglar skoðaðir og þéttni og orka þeirra séð sem heild á sneiðmynd. Orðið segull í slíku samhengi skyggir á engan hátt á þetta orð á öðrum sviðum og því er ekki nein hætta á ruglingi eins og þeim sem gæti hent ef orðið segulómun væri notað, það er ruglingur við ómskoðun.



Tölvusneiðmyndun

Þegar computerized tomography-rannsóknir litu dagsins ljós var erlenda orðið þýtt með hinu fjór-liðaða, sjö atkvæða orði, tölvusneiðmyndatæki. Í raun og veru eru ómsjá og segulsjá einnig tölvusneiðmyndatæki, þar sem tölva byggir upp sneiðmynd. En vegna hefðar er eðlilegt að orðið tengist því tæki, sem fyrst leit dagsins ljós. Hins vegar væri eðlilegt að reyna að finna styttri orð en tölvusneiðmyndatæki og tölvusneiðmyndir, til dæmis að tala um tölvusniðil og tölvusneiðar.



Niðurstaða

Hér hefur verið greint frá og færð nokkur rök fyrir því að nota megi orðin segulskoðun um þá rannsókn þegar hinir litlu seglar, vetniskjarnar líkamans, eru skoðaðir í sterku segulsviði, segulsjá um rannsóknartækið og segulsneiðar um myndir þær sem tækið gefur.



FL 1990; 8(12): 9
Til baka Senda grein



Þetta vefsvæði byggir á Eplica