Íðorðapistlar 1-130

019-Vinnubrögð við íðorðasmíð

Þegar unnið er að þýðingu fræðiorða, hvort sem um er að ræða stök orð eða reglubundna orðasöfnun, er mikilvægt að fylgja ákveðnum vinnureglum. Eitt það fyrsta sem gera þarf er að kynna sér mjög nákvæmlega hvert er inntak eða merking orðsins sem þýða skal. Æskilegt er að fyrir liggi ótvíræð skilgreining á hugtakinu eða fullnægjandi lýsing og útskýring á fyrirbærinu. Auk þess þarf orðasmiðurinn einnig að hafa nokkra hugmynd um þær óskráðu reglur sem hugsanlega eru í gildi varðandi notkun orðsins í þeim fræðigreinum sem það tilheyrir. Í öðru lagi getur verið gagnlegt að þekkja uppruna fræðiorðsins, úr hvaða tungumáli og af hvaða stofni það er komið og hver er merking einstakra orðhluta, ef um samsett orð er að ræða. Jafnframt er oft nauðsynlegt að þekkja helstu samheiti og andheiti og hver er merkingar- eða blæbrigðamunur í notkun þeirra. Í þriðja lagi er íðorðasmiðum nauðsynlegt að þekkja nokkuð nákvæmlega það flokkunarkerfi sem fræðiorðið tilheyrir, hvort hugtakið sé hluti af stærri heild og hvort það feli í sér undirfyrirbæri eða undirflokka, hvernig það greinist frá þessum fyrirbærum og hvaða fræðiorð og þýðingar séu notuð um hvert þeirra. Í fjórða lagi er oft gagnlegt að vita hvort og hvernig umrætt fræðiorð og önnur skyld orð og hugtök hafi verið þýdd eða meðhöndluð áður.



Hypoventilation - vanöndun

Heilsugæslulæknir einn lét frá sér heyra og benti á að betur mætti gera við þýðingu á nafninu hypoventilation í Íðorðasafni lækna og að engin ástæða væri til þess að forðast heitið vanöndun.

Þegar málið var kannað kom í ljós að Íðorðasafnið gefur upp tvo þýðingarmöguleika: 1. grunnöndun, 2. ? minnkuð loftskipti um lungnablöðrur. Spurningarmerkið táknar að Orðanefndin hefur ekki fundið þýðingu við hæfi. Þegar hins vegar er litið á andheitið hyperventilation kemur í ljós ósamræmi, því að þar eru einnig tveir þýðingarmöguleikar, en þeir hafa ekki verið meðhöndlaðir á fyllilega sambærilegan hátt: 1. ofuröndun, 2. oföndun.

Venjulega er forskeytið of- notað þegar tákna þarf of mikið af einhverju, samanber ofát, ofdrykkja, ofnæmi og ofvirkni.

Orðin ofheyrn og ofsjónir eru skemmtileg frávik sem teygja merkingu forskeytisins til hins ítrasta, heyrn og sjón eru svo mikil að það heyrast hljóð eða sjást sýnir sem ekki eru einu sinni til. Forskeytið ofur- er hins vegar notað þegar tákna þarf eitthvað mjög mikið, samanber ofurafl, ofurhugi, ofurmagn. Þannig gæti sá Hafnfirðingur sem heyrir mælt mál alla leið úr Kópavogi haft ofurheyrn, en verið saklaus af ofheyrnum.

Máltilfinning undirritaðs varðandi þessi tvö forskeyti er á þann veg að ofur- tákni meira magn eða gefi meiri áherslu en of-, til dæmis þannig að ofskammtar lyfs séu einfaldlega of háir skammtar, en að ofurskammtar séu risaskammtar. Oföndun er samkvæmt þessum skilningi of mikil öndun, en ofuröndun enn meiri öndun, svo mikil að kalla mætti gríðaröndun. Framhald í næsta blaði.



FL 1991; 9(6): 4
Til baka Senda grein



Þetta vefsvæði byggir á Eplica