Íðorðapistlar 1-130

025-Dyspepsia

Í síðasta þætti var fjallað um dyspepsia, uppruna orðsins, merkingu orðhluta og skilgreiningu á hugtakinu. Undirritaður er sammála því áliti meltingarsérfræðingsins að þýðingar Íðorðasafnsins á dyspepsia, meltingartruflun og meltingartregða séu ekki nógu góðar. Meltingartruflun er að vísu rétt þýðing á gríska orðinu dyspepsia, en það er einu atkvæði lengra og heldur stirðlegra. Meltingartruflun er auk þess tæpast nógu sértækt heiti þegar vísað er í fyrrgreinda skilgreiningu: Samsafn óþægilegra einkenna sem tengjast efri hluta meltingarvegar.

Orðið dyspepsia virðist hafa tekið sérstakri merkingarlegri umbreytingu frá því almenna, (samanber upptalningu í síðasta pistli á ýmsum tegundum dyspepsia), til hins sértæka, (samanber non-ulcer dyspepsia). Þetta orð, sem upphaflega var notað sem samheiti til að tákna margs konar óþægileg einkenni frá kviðarholi, er nú fyrst og fremst notað um tiltekin einkenni frá ákveðnum hluta meltingarvegar. Segja má því að liðir þessa samsetta orðs hafi glatað ákveðinni merkingu um leið og orðið varð sérheiti.

Við íslenskun fræðiorðsins þarf að huga að því hvort leyfa eigi sömu merkingarþróun á íslenska orðinu, til dæmis hvort orðið meltingartruflun eigi að vísa eingöngu til einkenna frá efri hluta meltingarvegar eða hvort það eigi að ná yfir einkenni frá meltingarveginum öllum, þannig að finna verði nýtt orð fyrir hugtakið dyspepsia. Síðari kosturinn er án efa fýsilegri. Það hlýtur að vera óæskilegt að taka almenn orð sem eru vel þekkt og viðurkennd í almennri notkun og gefa þeim sértæka fræðilega merkingu.



Melting

Fræðiorðið melting er sömu merkingar og latneska orðið digestio, en aðalmerking þess er sundrun fæðu í meltingarvegi þannig að fæðuefni geti frásogast. Hugtakið að baki orðinu dyspepsia felur hins vegar ekki í sér truflun á meltingu í þessum þrönga skilningi. Í daglegu tali er orðið melting auk þess oftast notað sem almennt samheiti um alla þá starfsemi sem fram fer í meltingarvegi. Stundum virðist melting vísa enn frekar í það sem gerist í neðri hluta meltingarfæra, þannig að orðið meltingartregða er notað þegar verið er að ræða um hægðatregðu (constipatio).

Þó hægðatregða sé ekki til umræðu í þetta sinnið þá rifjast það nú allt í einu upp að margir eldri læknar gera skíran greinarmun á latnesku orðunum constipation og obstipation, þannig að hið fyrra merki hægðatregða en hið síðara hægðastífla. Þetta virðist að mestu horfið úr læknisfræðiorðabókum og þessi tvö orð eru nú oftast tilgreind sem samheiti. Þarna hefur því átt sér stað merkingarlegur samruni tveggja fræðiorða, ef til vill að skaðlausu, en þó er alltaf viss eftirsjá að orðum sem geta aðgreint hugtök. Einföldun er ekki alltaf til góðs. Notkunarþróun orðsins dyspepsia kallar einmitt á nýja sundurgreiningu á hugtökum, þannig að með einhverju móti sé hægt að aðgreina þá samstæðu einkenna sem vísar til efri hluta meltingarvegar, frá þeim samstæðum sem vísa til annarra hluta meltingarvegar, svo sem gallvega og ristils.



Þýðingartilraunir

Fyrrgreind einkenni, verkir, brjóstsviði, fyllitilfinning, ógleði, uppþemba og svo framvegis, eru öll óþægileg og því mætti ef til vill nota samheitið meltingarónot um dyspepsia í víðustu merkingu, um öll óþægileg einkenni frá meltingarvegi. Lipurt er það vissulega ekki, en hins vegar auðskiljanlegt og getur vel komið að gagni í viðtali. "Ertu með meltingarónot?" "Hver eru þau?" "Hvernig lýsa þau sér?" Tilraunir til meiri nákvæmi, svo sem heilkenni meltingarónota, eru varla æskilegar þegar rætt er við leikmenn. Umræðan hefur nú teygst á langinn, en vonir standa til að henni megi ljúka í næsta blaði.



FL 1991; 9(12): 9
Til baka Senda grein



Þetta vefsvæði byggir á Eplica