Íðorðapistlar 1-130

028-Hysteria

Nýlega var haldinn fræðslufundur á Landspítala þar sem sagt var frá því sjúkdómsfyrirbæri sem áður var kallað hysteria en hefur nú fengið fræðiheitið somatization disorder. Í útsendu fundarboði var þetta nefnt sjúkdómasótt (óskýrðar líkamlegar kvartanir). Þakka ber fyrirlesara og fræðslunefnd fyrir að koma með tillögu að íslensku heiti á fyrirbærinu. Hins vegar finnst undirrituðum ástæða til að taka þessa tillögu til nánari umræðu.

Íðorðasafn lækna þýðir fræðiorðið hysteria sem sefasýki eða móðursýki, en í almennri merkingu þýðir orðið hysteria æsingur eða geðshræring. Uppruna þessa orðs er vafalítið helst að finna í gríska orðinu hystera sem þýðir móðurkviður eða leg, en ekki í gríska orðinu hysteros sem þýðir seinn eða síðkominn. Somatization er þýtt sem geðvefræn svörun í Íðorðasafninu og disorder sem veila eða truflun. Orðhlutinn soma er kominn úr grísku og merkir þar líkami. Samsetningin somatization disorder finnst hins vegar ekki í Íðorðasafninu, en gárungar í læknastétt gætu gert sér mat úr þessu og nefnt fyrirbærið geðvefræna svörunarveilu!Somatization

Hugtakið somatization felur því í sér líkamlega tjáningu andlegra, tilfinningalegra eða geðrænna vandamála. Slíkt er vissulega ekki óvenjulegt og er vafalítið ekki sjúklegt fyrr en líkamlegu einkennin eru farin að hafa veruleg áhrif á líf og hegðun manna. Í nýrri þýðingu á sjúkdómsgreiningasafni geðlækna er somatization disorder nefnt líkamarask. Sú þýðing er ekki nógu góð að dómi undirritaðs. Orðið líkamarask er of almennt - rask merkir truflun eða umrót - og gefur harla lítið til kynna um það hvaða fyrirbæri verið er að tákna.Somatization disorder

Fyrrgreindur fyrirlesari var svo vinsamlegur að lána undirrituðum sumt af fundarefni sínu. Fram kemur að fyrirbærinu er þannig lýst að sjúklingarnir séu eingöngu konur og að sjúkdómsferillinn hefjist fyrir þrítugt með margvíslegum líkamlegum einkennum. Einkennin eru það mikil eða alvarleg, að áhrifanna gætir í daglegu lífi þeirra og hegðun, og fyrr eða síðar leita þær sér meðferðar. Líkamleg skýring finnst ekki þrátt fyrir nákvæma skoðun og rannsóknir. Einkennin halda áfram og ný bætast við þrátt fyrir ýmis konar meðferð. Í flestum tilfellum leiða kvartanir sjúklinganna fyrr eða síðar til ýmis konar inngripsrannsókna og aðgerða, sem ekki gera þeim neitt gagn hvað varðar linun einkenna og þjáninga. Hins vegar spilla þær iðulega líkama kvennanna og gefa tilefni til fylgikvilla og nýrra einkenna. Rannsóknir virðast hafa leitt í ljós að einkenni þeirra séu ekki fleiri eða alvarlegri en annarra, en að mat á eigin líkamsástandi og heilsufari sé brenglað þannig að öll líkamleg einkenni séu oftúlkuð.Tillögur

Fyrirlesari lagði meðal annars til að þær konur, sem fengið hafa ofangreinda sjúkdómsgreiningu svo óyggjandi sé, fái að vita hvað á seyði er. Í því felst vafalítið að þeim skuli gefin fullnægjandi lýsing á fyrirbærinu og tjáð heiti þess. Heitið verður því bæði að vera lýsandi og lipurt. Það þarf að vera sæmilega nákvæmt sem fræðiheiti og má ekki vera særandi eða meiðandi fyrir þá sjúklinga sem þjást af kvillanum.

Hér með er óskað eftir nýjum tillögum að fræðiorði fyrir somatization disorder. Sjúkdómasótt hugnast undirrituðum ekki sem best. Orðið sótt væri gott að geta notað eingöngu um smitsjúkdóma og farsóttir. Sótt hefur hins vegar án efa verið tekið hér upp í merkingunni þrálát ásókn í eitthvað. Af ofangreindri lýsingu verður þó ekki ráðið að um beina ásókn í sjúkdóma sé að ræða. - Meira í næsta pistli, en til bráðabirgða er kastað fram tveimur tillögum: einkennasýki eða kvillaveiki.FL 1992; 10(3): 4
Til baka Senda greinÞetta vefsvæði byggir á Eplica