Íðorðapistlar 1-130

029-Somatization disorder

Í síðasta pistli var nokkuð rætt um sjúkdómsfyrirbærið somatization disorder, sem fyrrum var nefnt hysteria. Lýst var eftir tillögu að íslensku heiti sem væri í senn nógu nákvæmt sem fræðiheiti og nógu lipurt til að nota í almennri umræðu og viðtölum við sjúklinga. Nýjar og betri tillögur hafa þó ekki borist og ástæða er því til að ítreka beiðni um tillögur eða athugasemdir.

Í pistlinum var gagnrýnd sú þýðing, sem nýlega var tekin inn í sjúkdómsgreiningasafn geðlækna, heitið líkamarask, vegna þess hversu almenn merking þess orðs væri, það er líkamleg truflun. Somatization disorder er hins vegar sértækt og vandlega skilgreint sjúkdómsfyrirbæri, sem eingöngu kemur fyrir hjá ungum konum og felst meðal annars í holdtekju eða líkömnun (somatization) persónulegra eða félagslegra vandamála.Conversion disorder

Hjá karlmönnum þekkist nokkuð sambærilegt fyrirbæri, sem kallast á fræðimálinu conversion disorder og er væntanlega sama fyrirbæri og Íðorðasafnið kallar conversion hysteria eða fötlunarsvörun. Það nefnist fötlunarrask í fyrrgreindu safni geðlækna. Þessu fyrirbæri er lýst svo, að það feli í sér brottfall eða breytingu á einhverri líkamsstarfsemi þannig að um líkamlegan sjúkdóm virðist vera að ræða. Engin vefræn skýring einkenna finnst þó við rannsóknir og geðrænar ástæður eru taldar valda trufluninni. Líkamleg einkenni sjúklings eru ekki undir stjórn viljans, en þó gera þau honum kleift að komast hjá einhverju óþægilegu eða erfiðu og að fá stuðning, sem hann annars ekki hefði fengið. Röksemdin að baki þessu sérkennilega heiti er sú að um sé að ræða umsnúning eða umbreytingu (conversion) geðrænna vandamála í líkamlega mynd.Fötlunarrask

Heitið fötlunarrask stríðir illa gegn máltilfinningu undirritaðs, sérstaklega í samanburði við orðið jarðrask. Síðarnefnda orðið er notað þegar jörð eða jarðvegi er raskað, til dæmis af mönnum, tækjum eða náttúruhamförum. Rask merkir truflun, ónæði eða umrót samkvæmt Íslenzkri orðabók Menningarsjóðs. Fötlunarrask má því í allri einfeldni skilja þannig, einkum í samanburði við fyrrgreint líkamarask, að um rask á fötlun sé að ræða! Svo mun þó ekki vera, heldur er orðið vafalítið hugsað þannig að á ferðinni sé geðrask sem leitt hafi til líkamlegrar fötlunar.

Í Ensk-íslenskri orðabók Arnar og Örlygs er nafnorðið conversion meðal annars þýtt sem ummyndun, umbreyting og breyting. Fyrirbærið conversion í sálarfræði, er þar útskýrt sem yfirfærsla geðræns vanda í líkamleg einkenni. Nafnorðið disorder er meðal annars þýtt með orðunum kvilli, veila eða truflun og sögnin to disorder með íslensku sögnunum rugla, raska og trufla. Ekki virðist þó neitt betra að nota þessar þýðingar í samsetningar til að tákna conversion disorder, til dæmis með heitunum umbreytingarkvilli eða yfirfærsluveila. Raunar læðist að manni sá grunur að somatization disorder og conversion disorder séu ekki sérlega góð heiti fyrir þau hugtök, sem lýst hefur verið hér að ofan og í fyrri pistli, og er þá varla við að búast að beinar þýðingar verði góðar!Miðtaugakerfið

Í febrúarpistlinum var sagt frá því að vinnu við þýðingu á Nomina Anatomica væri að ljúka. Af því tilefni verða birt hér nokkur orð úr því safni.

Encephalon kallast heili en cerebrum hjarni eða stóri heili og cerebellum hnykill eða litli heili. Hemispherium verður hvel hvort sem vísað er í hjarnahvel eða hnykilhvel. Í heilanum eru svo nokkur heilahólf eða heilahol (ventriculi) og eru þau klædd þelju (ependyma) á innra borði. Á ytra borði eru hins vegar hinar gamalþekktu heilahimnur (meninges), sem nú ber að kalla mengi.

Heilahimnurnar eru bast (dura mater), skúm (arachnoidea mater), og reifar (pia mater). Gráfylla og hvítfylla eru nokkuð liprar þýðingar á substantia grisea og substantia alba. Hins vegar á undirritaður erfitt með að venjast heitinu blað fyrir lobus, hvort sem um er að ræða heila eða lunga. Víst verður að viðurkenna að ennisblað (lobus frontalis) er lipurt heiti, en eftir stendur óljós tilfinning um að heilablað sé meira en blað í bók. Sumir læknar kalla lungnahlutana lappa, en er heilanum ekki óvirðing gerð með því að tala um hnakkalappa?

Á yfirborði hjarna er börkurinn (cortex) með gárum (gyri), glufum (fissurae) og skorum (sulci). Heilabrú (pons), mæna (medulla spinalis) og mænukylfa (medulla oblongata) eru á sínum stað, en fram til næsta pistils geta menn velt því fyrir sér hvar finna megi semju og hjásemju.FL 1992; 10(4): 4
Til baka Senda greinÞetta vefsvæði byggir á Eplica