Íðorðapistlar 1-130

030-Semja og hjásemja

Í síðasta pistli voru tilgreind nokkur dæmi um íslenskun fræðiorða úr miðtaugakerfinu og í lok pistils voru nefndar til sögunnar semja og hjásemja.

Í neðanmálsgrein á bls. 147 í 2. útgáfu Íslenzkra líffæraheita Guðmundar Hannessonar segir orðrétt: "Nafnorðið semja er ekki til í málinu, en Halldór Halldórsson docent kastaði þessu nýyrði fram við mig. Íslenzk heiti á sympathia byrja á "sam" s.s. samúð, samhyggð og samkennd og systema nervosum sympathicum hefur verið nefnt samkenndartaugar og samlíðunartaugakerfi. Af "sam" og líkingu við skreyja er semja dregið. Ég hef tekið það upp í merkingunni sympathicus vegna nauðsynjar á að fá munntamt, stutt orð á þessu heiti, sem jafnframt væri auðvelt að nota í afleiddum myndum. Hnoðataug, hnoðtaug, hnútataug og fléttutaug, sem notuð hafa verið um n. sympathicus eru ekki sérkennandi fyrir þessa taug eina og hafa þann annmarka, að hnoða, hnoð o. s. frv. geta ekki staðið ein sér fyrir sympathicus, því að þá hafa þau allt aðra merkingu."



Taugakerfið

Taugakerfinu (systema nervosum) er oftast skipt í tvær megindeildir: miðtaugakerfi (pars centralis eða systema nervosum centrale) og úttaugakerfi (pars peripherica eða systema nervosum peripherica). Nomina Anatomica bætir við þriðju deildinni, sjálfvirka taugakerfinu (systema nervosum autonomicum), sem sumar aðrar heimildir telja hluta af úttaugakerfi og nefna sjálfvirkan hluta (pars autonomica). Lýsingarorðið autonomos er komið úr grísku þar sem forskeytið auto- merkir sjálf-, eigin- eða sam-, en nomos vísar í lögmál eða lög. Sá sem er autonomos lýtur því eigin lögmálum eða lögum, stjórnar sér sjálfur, er sjálfstæður, óháður öðrum eða sjálfur virkur.

Systema autonomicum hefur ýmist verið kallað sjálfvirka kerfið eða ósjálfráða kerfið. Þetta hefur stundum vafist fyrir nemendum í líffærafræði, því að fyrra heitið vísar í "sjálf" kerfisins, það er að kerfið hafi eigin virkni og stjórni sjálft, en síðara heitið vísar í "sjálf" mannsins, það er að kerfið sé óháð vilja mannsins og að meðvitað ráði hann ekki starfsemi þess. Tilraunir með lífræna afturverkun (biofeedback) hafa þó bent til ýmis konar viljastjórnunar, en það er önnur saga!

Meginhlutar sjálfvirka kerfisins eru semja eða semjuhluti (pars sympathica) og hjásemja eða hjásemjuhluti (pars parasympathica). Forskeytið para- er komið úr grísku og merkir meðfram, hjá eða nærri, og í líffærafræðiheitunum hefur verið farin sú leið að samræma þýðingar, eftir því sem kostur er, með forskeytinu hjá-, samanber hjámiðlægur (paracentral) og hjákjarni (paranucleus). Í fyrstu útgáfu Íðorðasafns lækna er þessi samræming hins vegar mun styttra á veg komin.

Semja og hjásemja eru stutt og lipur orð, þó framandleg séu, og það er sjálfsagt að reyna að koma þeim inn í málið. Vera má að þau venjist betur en sýnist í fyrstu.



Syndroma canalis carpi

Taugasjúkdómalæknir lét frá sér heyra og var að fást við þýðingu á carpal tunnel syndrome. Í tiltækri uppflettibók voru gefin samheitin: median neuropathy; median neuritis; tardy median palsy; tenosynovitis stenosans canalis carpi; carpal-thenar amyotrophy og constrictive median neuropathy. Orsökin er talin vera ósértæk bólga eða fyrirferðaraukning í sinaslíðrum úlnliðsganga sem leiði til þrýstings á miðtaug (nervus medianus) og valdi dofa, skyntruflunum og kraftleysi í þumalfingri, vísifingri, löngutöng og hálfum baugfingri. Í líffærafræðinni er canalis alltaf þýtt sem göng. Bein þýðing á þessu heiti er því heilkenni úlnliðsganga eða úlnliðsgangaheilkenni (7 atkvæði í stað 6), sem hlýtur að vera skömminni skárra en heiti það sem tekið hefur verið upp í Íðorðasafnið, heilkenni miðtaugarþvingunar (9 atkvæði). Getur nú einhver gert betur?



Situs inversus

Annar læknir var að fást við situs inversus viscerum og svo vel hittist á að starfshópur Orðanefndar er einmitt að vinna við heiti í rang- eða vanskapnaðarfræðum fósturfræðinnar. Þar var ákveðið að nota orðið set um situs og þá getur situs inversus orðið umhverfuset, situs transversus verður þverset og situs perversus villuset. Situs solidus mætti síðan nefna réttset.



E.S. Pétri Haukssyni, lækni, er þakkað bréf um somatization disorder og conversion disorder (sjá FL 1992;10:8). Nýyrðið skrokkun geðjast mér ekki, en dettur í hug hvort ekki megi nefna þetta líkömnunarkvilla eða yfirfærslukvilla. Svolítið stirðlegt að vísu en auðvelt að skýra og skilja. Fleiri hugmyndir???



FL 1992; 10(5): 7-8
Til baka Senda grein



Þetta vefsvæði byggir á Eplica