Íðorðapistlar 1-130

035-Meira um hjástoð

Í síðasta þætti var rætt um eitt orð úr ónæmisfræði, heitið á því fyrirbæri, sem á latínu kallast complementum og á ensku the complement system. Viðbrögð lesenda, ef einhver urðu, hafa enn ekki skilað sér til undirritaðs nema að litlu leyti.

Þó hringdi prófessor Þorkell Jóhannesson að bragði og benti á að í bók sinni Sýklalyfjafræði I (útg. Bóksala stúdenta 1990) hafi hann notað heitið fulltingisprótein (á ensku complement factor). Þetta orð kvaðst Þorkell hafa notað í kennslu sinni um árabil. Undirritaður hafði þó ekki heyrt það áður og hefur engar upplýsingar um frekari útbreiðslu þess, enda er heitið óþarflega langt og fremur stirðlegt. Hitt ber að virða að þarna er gerð ærleg tilraun til að íslenska.

Nokkrum dögum seinna birtist á sjónvarpsskjánum þáttur um Rannsóknastofu í ónæmisfræði. Margt var þar vel sagt, en þó vakti það sérstaka athygli undirritaðs að ekki var gerð nein tilraun til að þýða heitið complement. Spyrja má: Hafa æðstuprestar ónæmisfræða gefist upp á því verkefni að fullgera (L. complere) íslenska orðaforðann? Það er þá af sem áður var, því að á fyrstu árum sérstakrar ónæmisfræðikennslu við læknadeild Háskóla Íslands var mikið um nýjar hugmyndir og djarfar tillögur um íslensk fræðiorð, jafnvel svo að mönnum þótti nóg um!Sýklalyfjafræðin

Fyrrnefnd Sýklalyfjafræði prófessors Þorkels sýnist vönduð bók og ætti skilið að fá sérstaka umsögn og umfjöllun í Fréttabréfi lækna, eins og sennilega fleiri ritsmíðar kennara Háskólans. Hér verður þó látið duga að líta á nokkur orð í fyrsta kafla. Þar er á skilmerkilegan hátt gerð grein fyrir fjölmörgum orðum og grunnhugtökum sem varða sýkingar og sýklalyf. Fyrirbæri eins og sýkill, sníkill, smit, smitleið, smitmiðill, smitun, sýking, sótt og farsótt eru rækilega skilgreind og aðgreind. Þá er fjallað um sótthreinsun, smitvörn (antisepsis), smitgát (asepsis) og sæfingu (sterilization). Sumt má þó gagnrýna, til dæmis virðist mega skilja fyrstu orð kaflans þannig að enska orðið pathogen merki sýkill. Flestar orðabækur, þar með talið Íðorðasafn lækna, nota heitið pathogen í víðtækari merkingu sem hvers kyns sjúkdómsvaldur eða meinvaldur. Með samsetningunni pathogenic microorganism væri hins vegar ótvírætt vísað í sýkil, örveru, er veldur sýkingu. Í sömu málsgrein koma fyrir orðin pathogenicity, sem ekki er að finna í Íðorðasafninu en vel mætti nefna meinhæfni (stytting úr meinmyndunarhæfni), og virulence, sem þar er nefnt meinvirkni.Íðorðasafnið

Af þessu virðist nokkuð augljóst að höfundur hefur ekki notað Íðorðasafn lækna við þýðingar fræðiorða, að minnsta kosti er hvergi í það vísað. Undirrituðum finnst ástæða til að skora sérstaklega á alla kennara læknadeildar að nota Íðorðasafnið sem viðmiðun og grundvöll íslenskra þýðinga á fræðiorðum og hugtökum í kennslugreinum sínum. Það hlýtur að vera bagalegt og lítt traustvekjandi fyrir stúdenta þegar sama hugtakið fær nýtt íslenskt heiti í hverri kennslugrein. Ef til vill getur Orðanefnd læknafélaganna aðstoðað meir en gert er, til dæmis með því að lesa yfir kennsluefni eða með því að veita skyndiráðgjöf um einstakar tillögur eða vandamál í þýðingum. Nægt svigrúm ætti að vera til slíks þar sem starfshópur nefndarinnar kemur saman vikulega næstum allt árið. Íðorðasafnið og þýðingar þess vissulega gagnrýna, eins og oft er gert í þessum pistlum, en hitt má ekki gera, að leggja árar í bát og gefast alveg upp fyrir erlendu slangurorðunum. Við getum auk heldur ekki komið okkur saman um það hvort slangra skuli upp á latínu, ensku, amerísku, sænsku eða dönsku!E.S. Lýst er eftir heiti á sjúkdómnum acne hjá fullorðnum.

FL 1992; 10(10): 10
Til baka Senda greinÞetta vefsvæði byggir á Eplica