Íðorðapistlar 1-130

038-Funda- og ráðstefnumál

Í orðapistli í janúar 1991 var rætt lítillega um íslenskt "læknamál", og tekin dæmi um óþarfa slangurorð sem notuð voru á tveimur fræðslufundum á Landspítala. Það hefur lengi verið skoðun undirritaðs að læknar geti gert betur á slíkum fundum og að þeir eigi að leggja metnað sinn í það að nota íslensk fræðiorð og forðast erlendar slettur og óþörf slanguryrði. Á Ráðstefnu um rannsóknir í læknadeild í desember 1992 tóku ýmsir eftir því að heiðursfyrirlestur prófessors Þorsteins Loftssonar var fluttur á sérlega vönduðu máli. Augljóst var að fyrirlesarinn gerði sér far um að nota íslensk fræðiorð og að þau örfáu erlendu slanguryrði, sem þó flutu með, virtust notuð af ráðnum huga. Undirritaður skrifaði hjá sér ýmis góð fræðiorð úr fyrirlestrinum, en um leið fæddist sú hugmynd að gera könnun á orðanotkun annarra fyrirlesara á ráðstefnunni. Nú skal frá henni sagt.Efniviður

Könnunin náði til 28 fyrirlestra hjá 15 körlum og 10 konum. Aldur þeirra var ekki sannreyndur, en útlit og hreyfingar á sviði voru notuð til að skipa þeim í þrjá aldursflokka: ungflokk (7), miðflokk (16) og meistaraflokk (2). Starfsheiti voru síðan notuð til að raða í aðalflokkana: læknar (17), hjúkrunarfræðingar (3) og aðrir (5), en læknum var einnig skipað í undirflokkana: sjúkrahúslæknar (10), heimilislæknar (4) og aðrir læknar (3). Fyrirlestrar voru úr flokkunum kvensjúkdómar, krabbamein, augu, slys, sýkingar, klínískar rannsóknir, lífeðlis- og lífefnafræði og réðist það val fyrst og fremst af áhuga undirritaðs á efninu. Orðanotkun hjá fundarstjórum var ekki skráð sérstaklega, en þegar líða fór á könnunina varð ljóst að hjá sumum þeirra var hún síst til eftirbreytni.Aðferðir

Hver fyrirlestur var metinn huglægt með tilliti til þess hvort fyrirlesari virtist gera sér far um að flytja efni sitt á góðri íslensku eða ekki. Óþarfar slettur og slanguryrði voru skrifuð niður, en þó þannig að hvert orð var einungis skráð einu sinni hjá hverjum fyrirlesara. Tilraun var gerð til að bera saman einkunnagjöf úr huglæga matinu og það hvort fyrirlesari virtist fylgja skrifuðu handriti eða ekki. Þá var gerð sérstök könnun á því hvort einkenni sessat-veikinnar væru til staðar eða ekki, en veikin felst í því að ómerkingarnir sessat, sensat, semsatt eða sesst skjóta upp kollinum þegar fyrirlesari hikar í flutningi. Auk ofantalins voru skráðar ýmsar athugasemdir og loks var tilraun gerð til að safna nýjum, íslenskum fræðiorðum.Niðurstöður

Huglæga matið leiddi í ljós að einungis 60% (15 af 25) fyrirlesara virtust gera sér sérstakt far um að íslenska fræðimál sitt og var þar enginn munur á konum og körlum. Af áður tilgreindum aldursflokkum var miðflokkurinn bestur (81%), síðan kom meistaraflokkurinn (50%), en ungflokkurinn var áberandi verstur (14%). Í starfsflokkum voru "aðrir" bestir (80%), þá komu læknar (65%) og loks hjúkrunarfræðingar (33%). Meðal lækna voru sjúkrahúslæknar verstir því að einungis 40% töldust hafa vandað orðanotkun, en allir heimilislæknar og allir "aðrir læknar" töldust hafa vandað fræðimál sitt. Almennt virtust þeir betri sem fylgdu skrifuðum texta og eins var augljóst að slettur voru fleiri við umræður að loknum fyrirlestri. Við lokaúrvinnslu gagna kom einnig í ljós að í flokki sjúkrahúslækna leyndist lítill hópur unglækna, en af þeim töldust einungis 25% hafa vandað sérstaklega til íslenskunar fræðiorða í fyrirlestum sínum. Tveir heimilislæknar, einn sjúkrahúslæknir og einn unglæknir fengu óformlegu athugasemdina "mjög gott". Þrír fyrirlesarar notuðu "ný" íslensk fræðiorð, sem undirritaður hafði ekki orðið var við áður.

Skráðar slettur og slanguryrði reyndust 132 hjá þessum 25 fyrirlesurum, að meðaltali 5,28 á mann (spönnun 0-15), en ekki var marktækur munur á aldursflokkum. Munur var hins vegar á starfsflokkum þannig að meðaltal slíkra orða á hvern sjúkrahúslækni var 6,3 (spönnun 0-15), á hvern heimilislækni 2,8 (spönnun 0-6), á hjúkrunarfræðing 2,7 (spönnun 2-4) og á hvern fyrirlesara í flokknum "aðrir" 6,8 (spönnun 0-11). Greinileg almenn fylgni var milli fjölda skráðra slangurorða og hins huglæga mats. Þannig reyndust skráðar slettur og slangurorð vera 4,3 að meðaltali á hvern fyrirlesara í hópi þeirra sem töldust hafa vandað orðanotkun, en 8 að meðaltali hjá þeim sem ekki töldust hafa vandað til notkunar íslenskra orða. Fylgni var hins vegar ekki eins augljós ef starfshópar voru bornir saman. Þannig töldust allir heimilislæknar og allir í hópnum "aðrir læknar" hafa vandað orðaval sitt, en þó var mikill munur á fjölda skráðra slanguryrða, 2,8 á mann í fyrri hópnum og 5,3 í þeim síðari.

Sessat-veikin greindist hjá 7 fyrirlesurum og þar af var hún á háu stigi hjá einum. Lauslega áætlað birtist "sessat" á 10 sekúndna fresti í fyrirlestri þessa einstaklings. Veikin hafði mjög greinileg aldurstengsl því hún fannst ekki í meistaraflokki, einungis hjá 12,5% fyrirlesara í miðflokki, en hjá 71,4% fyrirlesara í ungflokki. Allt voru þetta læknar og hjúkrunarfræðingar.Umræður

Könnunin sýndi að af 25 fyrirlesurum sem metnir voru huglægt á virðulegri vísindaráðstefnu á vegum læknadeildar Háskóla Íslands töldust einungis 60% vanda sérstaklega til notkunar á íslenskum fræðiorðum. Meðal lækna voru unglæknar og sjúkrahúslæknar í neðstu sætunum. Þetta verður að teljast áhyggjuefni, en jafnmikill sómi er að frammistöðu heimilislækna og "annarra lækna".

FL 1993; 11(1): 9-10
Til baka Senda greinÞetta vefsvæði byggir á Eplica