Íðorðapistlar 1-130

039-Ráðstefnumálsumræða

Í síðasta pistli var sagt frá könnun sem undirritaður gerði á málvöndun og orðanotkun fyrirlesara á Ráðstefnu um rannsóknir í læknadeild sem fram fór í desember 1992. Könnunin var gerð af hugdettu einni saman, til gamans og án nokkurs undirbúnings. Margt má því gagnrýna. Æskilegast hefði til dæmis verið að taka alla fyrirlestrana upp á segulband, fá þá síðan skrifaða og kanna málfar og orðanotkun af meiri gaumgæfni og á lengri tíma en hlustunin ein leyfði. Með því móti hefði mátt ná meiri nákvæmni og hugsanlega meira samræmi í mati á mismunandi fyrirlestrum. Þá hefði verið æskilegt að ná til fleiri fyrirlesara, en undirritaður hlustaði á rúmlega þriðjung allra fyrirlesara á ráðstefnunni. Engu að síður verður að telja að könnunin hafi gefið þokkalega vísbendingu um tilraunir til málvöndunar á formlegri ráðstefnu.

Það er mat undirritaðs að betur megi gera og að betur eigi að gera þegar íslenskir fræðimenn koma saman til að segja frá rannsóknum sínum á íslensku. Reyndar var augljóst að meiri hluti fyrirlesara gerði tilraun til að vanda mál sitt og að miklu betur var talað en venja er á þeim fræðslufundum á sjúkrahúsunum, sem undirritaður sækir reglulega.



Dæmi um slanguryrði

Hér verða tekin dæmi um slanguryrði sem undirritaður skrifaði hjá sér eftir fyrirlesurum. Latnesk eða ensk líffæraheiti, sem þeir notuðu óbreytt, voru þó ekki talin með slanguryrðunum. Orðin eru hér stafsett í samræmi við framburð og beygingarendingarnar eru þær sem voru notaðar af viðkomandi fyrirlesurum. Þýðingar Íðorðasafns lækna fylgja með eða aðrar tilögur eftir því sem við á.



að mappa út að kortleggja

að treisera að rekja, skrá

abstrakt útdráttur, úrdráttur

affinítet sækni, samsækni

alarmerandi hræðandi

analýsa greining, efnagreinig

apparatið tækið

ballanseraður í jafnvægi

benign góðkynja

bípólar tvískauta

bradíkardía hægsláttur

debíll þróttlaus, veikur

defínera skilgreina

dómínans yfirráð

drenering tæming, fráveita

exklúsjón útilokun

extendera rétta, lengja

híperplasía ofvöxtur

innvasíf ífarandi, inngrips-

kanser krabbi

komment athugasemd

komplexið fléttan, flækjan

komplíkasjón aukakvilli, fylgikvilli

konstrúera gera, búa til

kríteríur skilmerki, auðkenni

köttoff endastig, lokamið

levell stig, jafnvægi

malign illkynja

normal eðlilegur

palpasjón þreifing

parenteralt utan meltingarvegar, í æð

períóður tímabil

plasebó lyfleysa

postúlera staðhæfa, frumhæfa

presentera kynna

pródúsera framleiða

prótókollinn aðferðarlýsingin

randomíseraður handahófstekinn

rapport frásögn, skýrsla

reit hraði, mælihlutfall

repónerast lagast, lagfærist

reseksjón brottnám

risk áhætta

rútína venja, regla

sekúnder auka-, síð-

sensitivítet næmi

sósíal félagslegur

spesifískur sértækur

sporadískur stakur, stakstæður

stúdía könnun, rannsókn

súbjektív huglægur

súbklínískur forklínískur!

súppressor bælir

transformera ummynda

trendinn tilhneigingin

túmor æxli



Nokkru fleiri voru slangurorðin reyndar, en þessi upptalning er gerð til að vekja athygli manna á ýmsu af því sem betur má fara. Mörg af þessum orðum stinga vafalaust minna í stúf þegar þau eru notuð í daglegri umræðu inni á sjúkradeildum, en undirrituðum finnst að þau eigi ekki heima í vandaðri frásögn á virðulegri ráðstefnu eða á formlegum fræðslufundi. Lýkur nú umræðu um ráðstefnumál að sinni.

FL 1993; 11(2): 9
Til baka Senda grein



Þetta vefsvæði byggir á Eplica