Íðorðapistlar 1-130

046-Þarmahreyfilyf

Ásgeir Theódórs, læknir, hringdi seint í vetur og var þá að fást við þýðingar á heitum nokkurra lyfjaflokka sem hafa áhrif á þarmahreyfingar. Ekki hefur enn gefist ráðrúm til að taka málið til rækilegrar skoðunar, en fyrsta hugmyndin er sú að heitið þarmahreyfilyf verði allsherjar samheiti á slíkum lyfjum. Rétt er að minna á að Íslensk orðabók Menningarsjóðs og Íðorðasafn lækna gera ráð fyrir að eintöluorðin þarmur og görn séu samheiti. Þess vegna mætti fullt eins vel nota heitið garnahreyfilyf um slík lyf. Máltilfinning undirritaðs er þó á þann veg að þarmur sé heldur formlegra og virðulegra heiti en görn og því kýs hann það fyrrnefnda sem fræðiheiti. Síðan má setja saman heiti á undirflokka þarmahreyfilyfja. Lyf, sem örvar þarmahreyfingar, gæti fengið flokksheitið hreyfiörvi (ft. hreyfiörvar) og lyf, sem dregur úr þarmahreyfingum mætti nefnast hreyfihemill (ft. hreyfihemlar). Lyf, sem samhæfir (samstillir) þarmahreyfingar, mætti á svipaðan hátt nefnast hreyfistillir (ft. hreyfistillar).



Geðfræðiorð

Karl Strand, fyrrum yfirlæknir á geðdeild Borgarspítala, sendi formanni Orðanefndar stutta ritsmíð um íslenskun geðfræðiorða. Þegar eftir var leitað var góðfúslega veitt heimild til birtingar í íðorðapistli. Í þetta sinn verða einungis birtir valdir kaflar úr bréfi Karls, en síðar verður hugað að einstökum fræðiorðum. Kaflarnir eru aðgreindir með fyrirsögnum frá undirrituðum og nokkur orð feitletruð, með þeirri frómu ósk að efninu hafi ekki verið spillt.



Upphafið

"Upphaf þessa máls er það, að fyrir rúmlega þrjátíu árum kom það átakanlega í ljós við ritun bókar á erlendri grund á íslensku, hversu fátt var íslenskra orða til tjáningar geðlegra viðfangsefna. Varð þetta til þess að nokkur nýyrði sköpuðust, auk þess sem þekkt íslensk orð fengu hlutverk til nota í ræðu og riti um ofannefnt efni. Við störf heima á Íslandi síðar urðu til hugtakaheiti á íslensku til úrbóta í samskonar orðafátækt, eða þar sem eldri þýðingar voru óheppilegar."



Aðferðin

"Nýyrðasmíð, þegar þýtt er úr erlendu máli, er vandaverk. Reyna þarf að skilgreina sem gleggst hið erlenda hugtak án þess að áhrif hins erlenda máls spilli þýðingunni en gæta þess þó mest að íslenska orðið falli vel inn í eðlilegt tungutak og lúti íslenskum málfræðilögmálum. Ýms nýyrði íslensk, svo sem tölva, bera engan keim erlenda heitisins en hafa unnið sér fastan sess í tungunni, gömlu heiti síma var breytt í sími og er nú rótgróið, svo dæmi séu nefnd. Spurning er hvort ekki ætti oftar að taka gömul orð, sem fallin eru úr notkun og flestum gleymd og gefa þeim nýtt hlutverk í nýjum talheimi, án tillits til hver fyrri merking var og hver merking erlenda orðsins er. Fallegt fornyrði vinnur sér furðu fljótt fylgi sé því fylgt vel úr hlaði."



Myndbirting sjúkdóms

"Sumar sjúkdómsmyndir birtast þeim er þetta ritar þannig að eldri þýðing gefur aðra hugmynd en þá er birtist. Hér er sjúkdómsheitið schizophrenia þýtt geðrof, en ekki geðklofi, einfaldlega af því að sjúkdómsmyndin lýsir fremur tvístringi persónuleikans, rofi, sbr. landrof, frekar en klofningi. Um þetta kunna að vera skiptar skoðanir, en hver maður verður að tjá eftir bestu getu það sem honum birtist og er það gert hér."



Gagnrýni

"Sum nýyrði eða nýnotkun orða er gagnrýnd, stundum af misskilningi, stundum af vankunnáttu eða þröngsýni. Þeim er þetta ritar hefir ætíð verið óljúft að auka sálmeiðsli vandamanna þeirra, sem fyrirfara sér, með heitinu sjálfsmorð, þar sem morðhugtakið hefir sérstaklega ógeðfellda mynd í hugum flestra. Í stað þessa hefi ég nefnt fyrirbærið sjálfsvíg, sem þegar hefir náð nokkurri fótfestu í málinu. Hefur þessu nýja heiti verið mótmælt af talsverðum tilfinningahita bæði í blaði og á öldum ljósvakans af fróðleiksmönnum í tjáningu málsins."



FL 1993; 11(10): 9
Til baka Senda grein



Þetta vefsvæði byggir á Eplica