Íðorðapistlar 1-130

048-Geðfræðiorð

Í október-pistlinum (FL 1993;11:9) voru birtir stuttir kaflar úr bréfi frá Karli Strand, fyrrum yfirlækni á geðdeild Borgarspítala, og því lofað að síðar yrði hugað að einstökum geðfræðiorðum. Með bréfi Karls fylgdi listi ýmissa fræðiorða sem hann kveðst hafa notað í starfi sínu á liðnum 35 árum. Hann tekur fram "að sum orðanna kunna að vera smíðuð af öðrum en þeim er þetta ritar, að honum óvituðum, og verður hvorki hér né síðar deilt um slíkt faðerni, sem engu skiptir."Kvíðni

Orðalistinn er í stafrófsröð hinna erlendu fræðiheita og fyrst kemur þar heitið anxiety, sem Karl nefnir kvíðni. Íðorðasafn lækna gefur hins vegar upp þýðingarnar kvíðakennd, kvíði, óróleiki eða geigur og lýsir hugtakinu þannig: Tilfinning um óöryggi eða spennu sem á rót sína að rekja til ímyndaðrar eða óraunverulegrar ógnunar... . Læknisfræðiorðabók Stedmans tekur í sama streng á þann veg að anxiety tákni skynjun hættu og hræðslu án þess að augljóst áreiti valdi. Nafnorðið kvíðni finnst í Íslenskri orðabók Máls og menningar frá 1992, talið tilheyra sálfræði, og er hugtakið útskýrt á þann veg að kvíðni sé sambland af ótta og óvissu sem á rót í dulvitund sjúklings. Kvíði er hins vegar ótti, beygur, það að kvíða. Þetta ber vafalítið að skilja þannig að kvíðni sé sjúklegt fyrirbæri, það að finna til ótta og óvissu án tilefnis, en að kvíði sé hins vegar ótta- og óvissutilfinning sem stafi af ákveðnu tilefni. Sé þessi skilningur réttur virðist hér komið gagnlegt fræðiorð sem taka ætti inn í Íðorðasafnið.Geðfræði

Aftarlega í listanum birtist fræðiheitið psychiatry, sem Karl nefnir geðfræði. Geðfræði virðist við fyrstu sýn lipurt og lýsandi heiti, en hvernig á að nota það? Um psychiatry notar Íðorðasafn lækna íslensku heitin geðlæknisfræði og geðsjúkdómafræði. Erlenda fræðiorðið er komið úr grísku, þar sem psyche er sál, hugur eða geð og nafnorðið iatreia er læknisfræðileg meðferð. Gerður er greinarmunur á psychiatry, þeirri sérgrein læknisfræði sem fjallar um greiningu og meðferð geðsjúkdóma, og psychology, þeirri sjálfstæðu fræðigrein sem fjallar um sál, hegðun og andlega starfsemi manna og dýra og nefnist á íslensku sálfræði.

Undirritaður ætlar ekki að hætta sér út á þann hála ís að tjá sig nokkuð um mismun geðs og sálar, en óneitanlega virðast þessi heiti, sálfræði og geðfræði, góðar hliðstæður. Vafalítið er þó ekki nein ástæða til að breyta þeim heitum, sem þegar hafa unnið sér fastan sess, svo sem geðlæknisfræði og geðlæknir. Hins vegar má spyrja hvort þeir, sem nú kalla sig sálfræðinga, geti ekki tekið heitið geðfræði til handargagns. Klínískur sálfræðingur gæti til dæmis borið starfsheitið geðfræðingur.Depression - mania

Í fyrrgreindum lista Karls Strand eru heitin geðlægð og geðhæð birt sem þýðingar á fræðiheitunum depression og mania. Íðorðasafnið gefur upp þrjú heiti sem nota má um depression: geðdeyfð, þunglyndi og depurð, og þrjú sem nota má um mania: geðhæð, æði og oflæti.

Í október-pistlinum 1991 (FL 1991;9:9) var stungið upp á því að nota heitið depra um depression og skal það nú ítrekað. Starfshópur á vegum Orðanefndar hefur nýverið sent frá sér íslenskan geðfræðiorðalista sem nefnist Greiningar og tölfræðihandbók ameríska geðlæknafélagsins um geðröskun. Listinn var gefinn út sem fylgirit Læknablaðsins nr. 23 í maí 1993. Þar hafa heitin geðlægð og geðhæð verið tekin upp og eru notuð í samræmi við fyrrnefndan lista Karls. Heitið geðdeyfð er þar notað um melancholia og depurð um depressed mood. Æði og oflæti er hins vegar ekki að finna í þeim lista, nema ef vera skyldi í þeirri staðreynd, að listinn virðist gefinn út áður en frágangi og uppsetningu orðanna er að fullu lokið.

Ekki verður að sinni lagður neinn dómur á ofangreind heiti, en til að auka á fjölbreytni í orðavali má benda á samstæðurnar depru og æði, fálæti og oflæti, þunglyndi og oflyndi. Loks má geta þess að í Íslenskri samheitaorðabók Svavars Sigmundssonar eru gefin upp um það bil 20 samheiti fyrir hvort orðanna þunglyndi og æði. Af nógu er því að taka. Lýkur nú geðfræðihjali að sinni.FL 1993; 11(12): 9
Til baka Senda greinÞetta vefsvæði byggir á Eplica