Íðorðapistlar 1-130

049-Aðsent efni

Í þessum pistli er ætlunin að ræða ýmislegt efni sem borist hefur á undanförnum vikum og mánuðum. Orðanefnd læknafélaganna og einstökum meðlimum hennar, ekki síst undirrituðum, er það ætíð ljúft að fá fyrirspurnir um þýðingar fræðiorða, hvort heldur fyrirspyrjendur eru að fást við að bæta sitt daglega málfar eða vinna að ritmáli af einhverju tagi. Ábendingar og nýjar hugmyndir eru einnig vel þegnar, sérstaklega þegar um er að ræða hugtök sem ekki hafa enn verið tekin inn í Íðorðasafnið.Oncocytoma

Oncocytoma er heiti á sérkennilegum og sjaldgæfum æxlum sem geta meðal annars greinst í nýra, skjaldkirtli, munnvatnskirtli og heiladingli. Þetta heiti er að minnsta kosti 50 ára gamalt, en hefur þó ekki verið þýtt á íslensku svo undirrituðum sé það kunnugt. Þó heiti æxlanna á þessum mismunandi stöðum sé eitt og hið sama, er ekki alveg víst að um nákvæmlega sams konar æxli sé að ræða, nema hvað varðar útlit frumnanna við smásjárskoðun. En það er einmitt af sérkennilega útliti æxlisfrumnanna sem æxlið fær nafn sitt. Frumurnar eru alla jafna fremur stórar, vel aðgreinanlegar og hafa rauðbleikt, einsleitt eða kornótt frymi og litla reglulega kjarna. Frumur með þessu útliti hafa verið nefndar oncocytes á ensku. Læknisfræðiorðabók Stedmans greinir frá því að onco- sé af grískum uppruna, komið af onkos sem merkir fyrirferð eða fyrirferðaraukning. Hvorugt heitið, oncocyte eða oncocytoma, er að finna í Íðorðasafninu. Hins vegar er orðhlutinn onco- oftast þýddur þar í öðrum samsetningum sem æxlis-, til dæmis er oncogen þar nefnt æxlisgen. Sé því haldið til streitu ber að þýða oncocyte með orðinu æxlisfruma og oncocytoma sem æxlisfrumuæxli.

Eitt af samheitum æxlisins, þegar það kemur fyrir í munnvatnskirtli, er hins vegar oxyphilic cell adenoma, sem í beinni þýðingu gæti verið kirtilæxli sýrukærra frumna. Varla er það þó til eftirbreytni, en hins vegar má kenna æxlið við bleika litinn, sem æxlisfrumurnar fá við venjulega vefjalitun fyrir smásjárskoðun, og kalla það bleikfrumuæxli. Frumurnar mundu með sömu reglu nefnast bleikfrumur. Annað samheiti er oxyphilic granular cell adenoma, og því mætti eins nefna æxlið bleikkornafrumuæxli, en það finnst undirrituðum reyndar óþarflega langt og stirðlegt.Minimally invasive therapy

Jónas Magnússon, prófessor, kom að máli við undirritaðan og óskaði eftir þægilegu samheiti fyrir ýmsa læknismeðferð sem einkennist af því að innrás í líkamsvefi sé í lágmarki miðað við það sem tíðkast hefur. Sem dæmi nefndi hann leysigeislameðferð á sjónulosi í auga og gallblöðrutöku við kviðspeglun.

Þetta vandamál hefur legið í dimmu hugskoti í nokkrar vikur og verið viðrað á orðanefnarfundi án þess að nokkur hugljómun hafi fengist. Heitið invasion er þýtt í Íðorðasafninu sem innrás og lýsingarorðið invasive sem 1. ífarandi, 2. inngrips-. Í meinafræði er innrás illkynja æxla í aðra vefi, invasion, kölluð íferð. Sú þýðing þarf einnig að komast inn í Íðorðasafnið, en gagnar sjálfsagt ekki við ofangreint hugtak. Invasive research nefnir Íðorðasafnið inngripsrannsóknir, en segja verður að hvorki lágmarksinngripsmeðferð eða lágmörkuð inngripsmeðferð uppfylli skilyrðið sem sett var um "þægilegt samheiti". Nú er óskað eftir betri hugmyndum.Asthma

Íslenska heitið á sjúkdómnum asthma er svolítið á reiki. Sumir nota orðið í hvorugkyni, það astmað, en aðrir í karlkyni, hann astminn. Þetta er sjálfsagt í lagi, en til viðbótar er framburðurinn orðinn svo linur að "téið" heyrist ekki og gjarnan er sagt "assma" eða "assmi". Því hafa sumir sleppt "téinu" í rituðu máli einnig, og skrifa asma eða asmi. Þetta finnst undirrituðum rökrétt, en hver eru nú viðbrögð þeirra sem telja sig málið varða?

FL 1994; 12(1): 4
Til baka Senda greinÞetta vefsvæði byggir á Eplica